Sjónaukar og mælitæki

ESO veitir evrópskum stjörnufræðingum framúrskarandi aðstöðu og stuðlar að samstarfi í stjarnvísindarannsóknum líkt og stofnunarsamningurinn segir til um. Í dag starfrækir ESO nokkrar stærstu og öflugustu stjörnustöðvar heims á þremur stöðum í norðurhluta Chile: La Silla, Paranal og Chajnantor. Eru þetta allt þeir staðir sem heppilegastir eru til stjörnuathugana á suðurhveli. ESO hefur einnig umsjón með verkefnum sem lúta að tækniþróun, ráðstefnuhaldi og eflingu menntunar og leikur lykilhlutverk í mótun Evrópska rannsóknarsvæðisins í stjörnufræði og stjarneðlisfræði.

Stjörnustöðin á Paranal

Very Large Telescope (VLT) á Cerro Paranal eru aðalsjónaukar ESO til rannsókna á sýnilegu og innrauðu ljósi. Öllum sjónaukunum fjórum, sem hver er 8,2 metra breiður, er stýrt hverjum fyrir sig með fjölda mælitækja.

Hægt er að tengja VLT sjónaukana fjóra saman og mynda þannig víxlmæli sem safnar ljósinu frá þeim í einn punkt. Þannig er hægt að taka ljósmyndir með greinigæði upp á millíbogasekúndur og gera stjarnmælingar með 10 míkróbogasekúndna nákvæmni. Hægt er að bæta myndgæðin enn frekar með fjórum 1,8 metra breiðum hjálparsjónaukum (Auxilliary Telescopes (AT)).

Í Paranal-stjörnustöðinni eru tveir sjónaukar notaðir til að kortleggja himininn. VLT Survey Telescope (VST, 2,6 metra spegilþvermál) er notaður til kortlagningar í sýnilegu ljósi og Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA, 4 mera spegilþvermál) fyrir kortlagningu í sýnilegu og innrauðu ljósi.

Sjá VLT á Google Maps og myndir frá almenningi. Upplýsingar um heimsóknir í stjörnustöðvar ESO má nálgast á annarri vefsíðu.

Stjörnustöðin á La Silla

Á stjörnustöðinni á La Silla starfrækir ESO þrjá stóra stjörnusjónauka (3,6 metra sjónauka og New Technology Telescope (NTT) og 2,2 metra Max Planck-ESO sjónaukann). Allir eru þeir útbúnir mælitækjum í hæsta gæðaflokki.

Sjá La Silla á Mapas Google og myndir frá almenningi. Upplýsingar um heimsóknir í stjörnustöðvar ESO má nálgast á annarri vefsíðu.


APEX

Atacama Pathfinder Experiment (APEX) er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR), sem á 55% í sjónaukanum, Onsala Space Observatory (OSO), sem á 13% hlut og European Southern Observatory (ESO), sem á 32% hlut. APEX er útvarpssjónauki, frumgerð ALMA loftnetanna, í 5100 metra hæð á Llano de Chajnantor. Sjónaukinn var smíðaður hjá VERTEX Antennatechnik í Duisburg í Þýskalandi. Á APEX eru nokkrir fjölþátta litrófsmælar (örbylgjumælar) og alrófsmælir með vítt sjónsvið sem mæla bylgjulengdir á bilinu 0,2 til 1,4 mm. ESO hefur umsjón með starfsemi sjónaukans.

Sjá Chjanantor á Google Maps og myndir frá almenningi. Upplýsingar um heimsóknir í stjörnustöðvar ESO má nálgast á annarri vefsíðu.

 

ALMA

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array eða ALMA er alþjóðlegt samstarfsverkefni sem snýst um þróun á byltingarkenndum sjónauka til að rannsaka alheiminn frá Andesfjöllunum í Chile. ALMA samanstendur af 66 nákvæmum loftnetum sem mæla bylgjulengdir milli 0,32 til 3,6 mm. Meginröðin er úr fimmtíu 12 metra breiðum loftnetum sem starfa saman sem einn sjónauki — víxlmælir. Önnur viðbótarröð sem samanstendur af fjórum 12 metra og tólf 7 metra loftnetum bæta hina röðina upp. Hægt er að dreifa úr loftnetum ALMA og raða þeim upp á mismunandi hátt en bilið milli loftneta getur verið frá 150 metrum upp í 16 kílómetra, en þannig verður til öflug „súmlinsa“. ALMA öfurtölvan blandar mælingum loftnetanna saman en hún getur framkvæmt 16.000 milljón milljón (1,6x1016) útreikninga á sekúndu. 

ALMA var formlega tekin í notkun árið 2013 en fyrstu mælingar með hluta raðarinnar höfðu þegar hafist árið 2011. ALMA verkefnið er unnið í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og austurhluta Asíu í samvinnu við Chile. ESO er evrópski þátttakandinn í ALMA.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu um ALMA. Upplýsingar um heimsóknir í stjörnustöðvar ESO má nálgast á annarri vefsíðu

ELT

ESO hefur unnið með evrópskum stjarnvísindamönnum við þróun á nýjum risasjónauka sem þörf er á um miðjan næsta áratug: Extremely Large Telescope (ELT). ELT verður stærsti sjónauki heims fyrir sýnilegt og innrautt ljós: Stærsta auga jarðar. Safnspegillinn nær yfir næstum helming af fótboltavelli.

Fyrirhugað er að hefja smíði ELT síðla árs 2014 en að hann verði tekinn í notkun snemma næsta áratug.

ELT verður staðsettur á Cerro Armazones, 20 kílómetra frá Paranal þar sem VLT sjónaukinn er.

ELT verður með 39 metra breiðan safnspegil og aðlögunarsjóntæki og gæti því hæglega byllt skilningi okkar á alheiminum á svipaðan hátt og sjónauki Galíleós gerði fyrir 400 árum. þegar honum var beint til himins.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu um ELT.

Fyrir vísindamenn