eso2019is — Fréttatilkynning

Stjörnur og hauskúpur: Ný mynd ESO af drungalegri geimþoku

30. október 2020

Vofulegar leifar löngu dáinnar stjörnu, í maga stjörnumerkisins Hvalsins, minnir um margt á hauskúpu sem svífur í geimnum. Hér sést hún á fallegri mynd sem tekin var með Very Large Telescope (VLT) ESO. Hauskúpan er hringþoka og sú fyrsta sem finnst sem tengist þéttu þrístirni og þriðju stjörnunni aðeins utar.

Hauskúpuþokan, betur þekkt sem NGC 246, er í 1600 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Hvalnum. Þokan varð til þegar stjarna svipuð sólinni okkar þeytti burtu ystu efnislögum sínum út í geiminn í ævilok og skildi eftir sig nakinn kjarna – hvítan dverg – sem er önnur tveggja stjarna sem sjást í miðju þokunnar.

Öldum saman hafa stjörnufræðingar vitað af Hauskúpuþokunni en það var fyrst árið 2014 sem þau komust að því með hjálp VLT sjónauka ESO, að þriðja stjarnan snerist um hvíta dverginn í miðjunni og fylgistjörnu hans. Sú stjarna, sem sést ekki á myndinni, er daufur rauður dvergur í um það bil 500 faldri fjarlægð frá honum en sem nemur bilinu milli Jarðar og sólar. Rauðu og hvítu dvergarnir eru á sporbraut hvor um annan sem tvístirni en þriðja fylgistjarnan, sem gengur um dvergana tvo, er í jafngildi 1900 faldri fjarlægðinni milli Jarðar og sólar. Saman mynd þessar þrjár stjörnur í NGC 246 fyrsta þrístirnakerfið sem finnst í hringþoku.

Þessi fallega mynd af Hauskúpuþokunni var tekin með FORS 2 mælitækinu á VLT sjónauka ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Á henni sést geislun frá vetni og súrefni sem veitir upplýsingar um efnasamsetningu og uppbyggingu fyrirbærisins. Á myndinni sést hvar bæði er mikið og lítið af vetni (rautt) og súrefni (ljósblátt) í NGC 246.

Ljósmyndin var tekin fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið. Það er vísindamiðlunarverkefni sem snýst um að taka myndir af áhugaverðum, sérkennilegum og fallegum fyrirbærum með sjónaukum ESO í fræðslutilgangi. Í verkefninu er nýttur sá tími sem gefst í sjónauknum og ekki er hægt að nota í rannsóknir. Hægt er að nýta öll gögn sem aflað er í rannsóknartilgangi og eru öllum aðgengileg í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Bárbara Ferreira
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Farsími: +49 151 241 664 00
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso2019.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso2019is
Nafn:NGC246
Tegund:Milky Way : Star : Evolutionary Stage : White Dwarf
Milky Way : Nebula : Type : Planetary
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

New ESO’s VLT image of the Skull Nebula
New ESO’s VLT image of the Skull Nebula
texti aðeins á ensku
The Skull Nebula in the constellation of Cetus (The Whale)
The Skull Nebula in the constellation of Cetus (The Whale)
texti aðeins á ensku
The sky around the Skull Nebula
The sky around the Skull Nebula
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 232 Light: Stars and Skulls
ESOcast 232 Light: Stars and Skulls
texti aðeins á ensku
Zooming in on the Skull Nebula
Zooming in on the Skull Nebula
texti aðeins á ensku