eso2012is — Fréttatilkynning

Sjónauki ESO fangar glæsilegt geimfiðrildi á mynd

30. júlí 2020

Þessi glæsilega gasþoka kallast NGC 2899 og minnir einna helst á litríkt og myndarlegt fiðrildi sem virðist svífa um himinninn á nýrri mynd Very Large Telescope (VLT) ESO. Þetta er í fyrsta sinn sem mynd hefur verið tekin af þokunni í viðlíka smáatriðum svo jafnvel daufu útjaðrar hringþokunnar koma í ljós frammi fyrir stjörnumprýddum bakgrunni.

NGC 2699 er risavaxin gasþoka sem nær rúm tvö ljósár út í geiminn. Hér sést þokan skína skært frammi fyrir stjörnum Vetrarbrautarinnar þegar gasið í henni verður svo heitt, um tíu þúsund gráður, að þokan glóir. Þetta háa hitastig má rekja til geislunar sem berst frá stjörnuleifinni í þokunni miðri. Orkurík geislunin frá henni veldur því að vetnisgasið í þokunni hitnar og gefur frá sér rauðleitan blæ en súrefnið bláan.

Fjarlægðin til þokunnar er ekki vel þekkt en einhvers staðar á bilinu 3000 til 6500 ljósár. Hana er að finna í stjörnumerkinu Seglinu á suðurhveli Jarðar. Í miðju þokunnar eru tvær stjörnur sem taldar eru eiga sök á nærri samhverfri löguninni. Við ævilok annarrar stjörnunnar varpaði hún frá sér ytri efnislögum sínum sem hin stjarnan hefur áhrif á svo til verða tvær þokutungur sem sjást hér. Aðeins 10-20% af hringþokum [1] bera slíka tvískautalögun.

Stjörnufræðingar tóku myndina af NGC 2899 með FORS mælitækinu á Antu, einum af 8,2 metra VLT sjónaukunum fjórum í Chile. FORS stendur fyrir FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph svo um er að ræða myndavél og litrófsrita með háa upplausn sem var eitt fyrsta mælitækið sem komið var fyrir á VLT sjónauknum. Margar af fegurstu ljósmyndum sjónaukans voru teknar með þessu mælitæki en það hefur líka verið notað til að gera margar merkar uppgötvanir, þar á meðal gert mælingar á ljósi frá þyngdarbylgjulind, rannsakað fyrsta smástirnið sem ættað er úr öðru sólkerfi. Síðast en ekki síst hefur það verið notað til að rannsaka í þaula eðlisfræðina á bak við myndun flókinna hringþoka.

Ljósmyndin var tekin fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið. Það er vísindamiðlunarverkefni sem snýst um að taka myndir af áhugaverðum, sérkennilegum og fallegum fyrirbærum með sjónaukum ESO í fræðslutilgangi. Í verkefninu er nýttur sá tími sem gefst í sjónauknum og ekki er hægt að nota í rannsóknir. Hægt er að nýta öll gögn sem aflað er í rannsóknartilgangi og eru öllum aðgengileg í gagnasafni ESO.

Skýringar

[1] Á ensku nefnast hringþokur planetary nebula þrátt fyrir að eiga ekkert skilt við plánetur. Fyrstu stjörnufræðingarnir sem veittu þeim athygli tóku eftir því að í gegnum sjónauka minntu þær á daufar skífur fjarlægra pláneta. Hringþokur verða til þegar aldurhnignar stjörnur sem eru allt að 6-8 sinnum efnismeiri en sólin okkar enda ævina. Þá varpa þær frá sér ytri efnislögum sínum út í geiminn. Í þessum efnislögum eru til að mynda frumefni þyngri en vetni sem glóa fyrir tilverknað orkuríks útfjólublás ljóss frá deyjandi stjörnunni í miðjunni. Þannig skína þær skært í þúsundir ára eða þar til efnið í þeim dreifist um Vetrarbrautina. Hringþokur eru þannig skamvinn fyrirbæri á stjarnfræðilegan mælikvarða.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Bárbara Ferreira
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Farsími: +49 151 241 664 00
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso2012.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso2012is
Nafn:NGC 2899
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

New ESO’s VLT image of the NGC 2899 planetary nebula
New ESO’s VLT image of the NGC 2899 planetary nebula
texti aðeins á ensku
NGC 2899 in the constellation of Vela
NGC 2899 in the constellation of Vela
texti aðeins á ensku
The sky around NGC 2899
The sky around NGC 2899
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 227 Light: Stunning Space Butterfly Captured by ESO Telescope
ESOcast 227 Light: Stunning Space Butterfly Captured by ESO Telescope
texti aðeins á ensku
Zooming in on the planetary nebula NGC 2899
Zooming in on the planetary nebula NGC 2899
texti aðeins á ensku