eso2011is — Fréttatilkynning

Sjónauki ESO nær fyrstu ljósmyndinni af fjölhnatta sólkerfi í kringum stjörnu sem svipar til sólarinnar

22. júlí 2020

Very Large Telescope sjónauki European Southern Observatory (VLT ESO) náði fyrstu myndinni af tveimur gasrisum í kringum unga stjörnu sem svipar til sólarinnar okkar. Hingað til hafði mönnum aldrei tekist að taka mynd af fjölhnatta sólkerfum sem svipar til okkar eigin sólkerfis. Rannsóknin gæti hjálpað stjörnufræðingum að skilja betur hvernig reikistjörnur urðu til og þróuðust í kringum sólina okkar.

Fyrir nokkrum vikum birti ESO einstaka mynd sem VLT sjónaukinn tók af öðru sólkerfi. Nú hefur sami sjónauki og sama mælitæki verið notað til að taka fyrstu ljósmyndina af tveimur reikistjörnum í kringum stjörnu sem líkist sólinni okkar. Þetta sólkerfi er í 300 ljósára fjarlægð og nefnist TYC 8998-760-1.

Uppgötvunin gefur okkur nasasjón af sólkerfi sem líkist mjög sólkerfinu okkar en er miklu yngra,“ sagði Alexander Bohn, doktorsnemi við Leidenháskóla í Hollandi sem hafði umsjón með rannsókinni. Niðurstöðurnar birtast í dag í tímaritinu Astrophysical Journal Letters.

„Stjörnufræðingar hafa fundið mörg þúsund fjarreikistjörnur í vetrarbrautinni okkar en aðeins örfá hafa náðst á mynd. Beinar mælingar eru mikilvægar í leitinni að stöðum þar sem líf gæti þrifist.“ sagði Matthew Kenworthy, lektor við Leidenháskóla og meðhöfundur greinarinnar. Mjög sjaldgæft er að mynd náist af tveimur fjarreikistjörnum eða fleiri í kringum sömu stjörnuna. Það hefur einungis gerst í tvígang áður en í báðum þeim tilvikum var um að ræða stjörnur sem eru mjög ólíkar sólinni okkar. Nýja myndin frá VLT er sú fyrsta sem náðs hefur af fleiri en einni fjarreikistjörnu í kringum stjörnu sem líkist sólinni. Árið 2004 varð VLT sjónauki ESO auk þess fyrsti sjónaukinn sem tók mynd af fjarreikistjönu þegar hann sá daufan ljósblett í kringum brúnan dverg, „misheppnaða“ stjörnu.

„Teymið okkar tók fyrstu ljósmyndina af tveimur gasrisum á barut um stjörnu sem svipar til sólarinnar,“ sagði Maddalena Reggiani, nýdoktor við KU Leuvon í Belgíu sem tók líka þátt í rannsókinni. Reikistjörnurnar sjást á nýju myndinni sem tveir bjartir ljósdeplar fjarri móðurstjörnunni sem sést sjálf í efra vinstra horni myndarinnar. Með því að taka myndir á mismunandi tímum gátu stjörnufræðingarnir staðfest að ekki var um stjörnur í bakgrunni að ræða heldur reikistjörnur.

Gasrisarnir tveir ganga um móðurstjörnuna sína í 160 og 320 sinnum meiri fjarlægð en Jörðin er frá sólinni. Reikistjörnurnar eru því miklu lengra frá stjörnunni sinni en Júpíter og Satúrnus eru frá sólinni okkar en þeir eru 6 og 10 sinnum fjær henni en Jörðin. Hópurinn komst líka að því að reikistjörnurnar eru mun efnismeiri en Júpíter og Satúrnus. Innri reikistjarnan er fjórtán sinnum massameiri en Júpíter en sú ytri sex sinnum.

Teymi Bohns tók myndina fyrir rannsóknarverkefni sem gengur út leit að ungum gasreikistjörnum umhverfis ungar stjörnur svipaðar sólinni. Stjarnan TYV 8998-760-1 er aðeins 17 milljón ára gömul í stjörnumerkinu Flugunni. Bohn lýsir kerfinu sem „yngri útgáfu af sólinni okkar.“

Greinigæði SPHERE mælitækisins á VLT sjónauka ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile gerði stjörnufræðingunum kleift að taka myndina. SPHERE felur ljósið frá stjörnunni sjálfri með búnaði sem kallast kórónusjá. Án kórónusjárinnar væri ómögulegt að greina reikistjörnurnar í glýjunni frá stjörnunni því þær eru margfalt daufri. Eldri reikistjörnur, eins og þær sem eru í sólkerfinu okkar, eru of kaldar til að hægt sé að finna þær með þessari tækni. Yngri reikistjörnur eru heitari og því skærari að sjá í innrauðu ljósi. Með því að taka nokkrar myndir undanfarið ár, sem og að rýna í eldri gögn frá árinu 2017, staðfestu stjörnufræðingarnir að reikistjörnurnar tvær tilheyra þessu sólkerfi.

Frekari athuganir á kerfinu í framtíðinni, þar á meðal með Extremely Large Telescope (ELT) ESO, munu gera stjörnufræðingun kleift að kanna hvort reikistjörnurnar urðu til þar sem þær eru núna, eða hvort þær mynduðust innar og færðust utar. ELT sjónauki ESO mun líka hjálpa til við að rannsaka víxlverkun reikistjarnanna. „Sá möguleiki er fyrir hendi, að mælitæki framtíðarinnar, eins og verða á ELT geta fundið enn minni reikistjörnur í kringum þessa stjörnu. Uppgötvunin er mikilvægur liður í að auka skilning okkar á fjölhnatta sólkerfu og hefur þar með áhrif á skilning okkar á okkar eigin sólkerfi,“ sagði Bohn að lokum.

Frekari upplýsingar

Skýrt er frá rannsókninni í greininni „Two Directly Imaged, Wide-orbit Giant Planets around the Young, Solar Analog TYC 8998-760-1“ sem birtist í Astrophysical Journal Letters.

Í rannsóknarhópnum eru Alexander J. Bohn (Leiden Observatory, Leiden University, Hollandi), Matthew A. Kenworthy (Leiden Observatory), Christian Ginski (Anton Pannekoek Institute for Astronomy, University of Amsterdam, Hollandi og Leiden Observatory), Steven Rieder (University of Exeter, Physics Department, Bretlandi), Eric E. Mamajek (Jet Propulsion Laboratory, California Institute of Technology, Bandaríkjunum og Department of Physics & Astronomy, University of Rochester, Bandaríkjunum), Tiffany Meshkat (IPAC, California Institute of Technology, Bandaríkjunum), Mark J. Pecaut (Rockhurst University, Department of Physics, Bandaríkjunum), Maddalena Reggiani (Institute of Astronomy, KU Leuven, Belgíu), Jozua de Boer (Leiden Observatory), Christoph U. Keller (Leiden Observatory), Frans Snik (Leiden Observatory) og John Southworth (Keele University, Bretlandi).

VInsamlegast hafið samband við Carlo Manara cmanara@eso.org), stjörnufræðing hjá ESO, fyrir utanaðkomandi athugasemdir við greinina en hann var ekki þátttakandi í rannsókninni.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Alexander Bohn
Leiden Observatory, University of Leiden
Leiden, The Netherlands
Sími: +31 (0)71 527 8150
Tölvupóstur: bohn@strw.leidenuniv.nl

Matthew Kenworthy
Leiden Observatory, University of Leiden
Leiden, The Netherlands
Sími: +31 64 172 0331
Tölvupóstur: kenworthy@strw.leidenuniv.nl

Maddalena Reggiani
Institute of Astronomy, KU Leuven
Leuven, Belgium
Sími: +32 16 19 31 99
Tölvupóstur: maddalena.reggiani@kuleuven.be

Carlo Manara (astronomer who did not participate in the study; contact for external comment)
European Southern Observatory
Garching bei München, Germany
Sími: +49 (0) 89 3200 6298
Tölvupóstur: cmanara@eso.org

Bárbara Ferreira
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Farsími: +49 151 241 664 00
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso2011.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso2011is
Nafn:TYC 8998-760-1
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Planetary System
Facility:Very Large Telescope
Instruments:SPHERE
Science data:2020ApJ...898L..16B

Myndir

First ever image of a multi-planet system around a Sun-like star
First ever image of a multi-planet system around a Sun-like star
texti aðeins á ensku
First ever image of a multi-planet system around a Sun-like star (uncropped, with annotations)
First ever image of a multi-planet system around a Sun-like star (uncropped, with annotations)
texti aðeins á ensku
First ever image of a multi-planet system around a Sun-like star (uncropped, without annotations)
First ever image of a multi-planet system around a Sun-like star (uncropped, without annotations)
texti aðeins á ensku
Location of TYC 8998-760-1 in the constellation of Musca
Location of TYC 8998-760-1 in the constellation of Musca
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 226 Light: First Image of a Multi-Planet System Around a Sun-like Star
ESOcast 226 Light: First Image of a Multi-Planet System Around a Sun-like Star
texti aðeins á ensku
View of the orbit of two exoplanets around TYC 8998-760-1
View of the orbit of two exoplanets around TYC 8998-760-1
texti aðeins á ensku
A ‘fly to’ TYC 8998-760-1
A ‘fly to’ TYC 8998-760-1
texti aðeins á ensku