eso1908is — Fréttatilkynning

Gaia hjálpað við kortlagningu Vetrarbrautarinnar

VST sjónauki ESO hjálpar til við að staðsetja sporbraut Gaia svo gera megi nákvæmasta kort sögunnar af meira en milljarði stjarna

2. maí 2019

Á þessari mynd, sem sett er saman úr nokkrum mælingum VLT Survey Telescope (VST) ESO, sést Gaia geimfar ESA sem dauf slóð innan um stjörnur Vetrarbrautarinnar. Mælingarnar voru gerðar til þess að ákvarða sporbraut Gaia svo mælinákvæmni geimfarsins gæti orðið sem mest.

Gaia geimsjónauki Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) er að útbúa nákvæmasta þrívíða kortið af Vetrarbrautinni okkar. Fyrir einu ári var annað gagnasafn Gaia birt opinberglega, þar á meðal mjög nákvæmar mælingar á staðsetningu, fjarlægð og eiginhreyfingu meira en þúsund milljón stjarna í Vetrarbrautinni okkar. Þetta stóra gagnasafn gerir stjörnufræðingum kleift að gera margar grundvallarrannsóknir í stjarnvísindum, meðal annars á uppruna, uppbyggingu og þróun Vetrarbrautarinnar. Frá því að sjónaukanum var skotið á loft hafa birst yfir 1700 vísindagreinar með mælingum Gaia.

Til þess kort Gaia geti orðið sem nákvæmust er nauðsynlegt að ákvarða nákvæmlega staðsetningu geimfarsins frá Jörðinni. Þegar Gaia skannar himinninn og safnar gögnum, fylgjast stjörnufræðingar þar af leiðandi reglulega með staðsetningu geimfarsins með neti sjónauka á Jörðinni, þar á meðal VST í Paranal-stjörnustöð ESO [1]. VST er stærsti kortlagningarsjónauki heims fyrir sýnilegt ljós og skráir staðsetningu Gaia aðra hverja nótt.

„Mælingar Gaia krefjast sérstakra mæliferla,“ sagði Monika Petr-Gotzens sem hefur séð um mælingar ESO á Gaia frá árinu 2013. „Geimfarið er það sem við köllum viðfang á hreyfingu, því það ferðast hratt miðað við stjörnurnar í bakgrunni – að rekja slóð Gaia er mikil áskorun!“

„VST er kjörið tæki til þess að rekja hreyfingu Gaia,“ sagði Ferdinando Patat, yfirmaður Observing Programme Office hjá ESO. „Að nota eina bestu stjörnustöp ESO í þessar mælingar er fyrirtaks dæmi um samvinnu í vísindum.

„Þetta er spennandi samstarf, að nota sjónauka ESO til að styðja við mæingar ESA á milljarði stjarna,“ sagði Timo Prusti, verkefnisstjóri Gaia hjá ESA.

Sérfræðingar ESA nota mælingar VST til að rekja sporbraut Gaia og betrumbæta þekkingu á henni. Stilla þarf saman strengi til þess að breyta mælingunum, þar sem Gaia er bara ljósdepill innan um bjartar stjörnur, í gagnleg gögn. Mælingar úr annarri gagnabirtingu Gaia voru notaðar til að greina hverja stjörnu í sjónsviðinu og gerði vísindamönnum kleift að ákvarða staðsetningu geimfarins með einstakri nákvæmni – allt að 20 millíbogasekúndum.

„Þetta er áskorun: Við notum mælingar Gaia á stjörnunum til að stilla staðsetningu Gaia og þá loks bæta mælingar á stjörnurnum,“ sagði Timo Prusti.

„Eftir langa gagnaúrvinnslu höfum við nú loks náð þeirri nákvæmni sem þarf til þess að mælingar Gaia séu framúrskarandi,“ sagði Martin Altmann, umsjónarmaður Ground Based Optical Tracking (GBOT) herferðarinnar við Center for Astronomy við Heidelbergháskóla í Þýskalandi.

GBOT upplýsingarnar verða notaðar til að betrumbæta þekkingu okkar á sporbraut Gaia, ekki aðeins fyrir komandi mælingar, heldur líka fyrir öll gögn sem hafa verið aflað frá Jörðinni í gegnum tíðina, sem leiðir til enn nákvæmari niðurstaða í framtíðinni.

Skýringar

[1] Þetta samstarfsverkefni ESO og ESA er aðeins eitt af nokkrum sem bæði samtök hafa unnið að á sviði stjarnvísinda. Hinn 20. ágúst 2015 undirrituðu framkvæmdarstjórar ESA og ESO samstarfssamning til að koma verkefnum sem þessum á laggirnar.

Frekari upplýsingar

Til þess að skiptast á gögnum úr stjarneðlisfræðilegum geimferðum ESA og rannsóknum ESO, hafa samtökin tekið höndum saman og skipulagt röð alþjóðlegra ráðstefna. Fyrsta sameiginlega vinnusmiðja ESA-ESO verður í nóvember 2019 hjá ESO og hefur verið óskað eftir tillögum um aðra vinnusmiðju, sem verður hjá ESA árið 2020.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) er aðgangur Evrópu að geimnum. Markmið stofnunarinnar er að þróa geimför Evrópu og tryggja að fjárfesting í geimferðum haldi áfram að bæta lífsgæði Evrópubúa og annarra jarðarbúa.

ESA er alþjóðleg samtök 22 aðildarríkja. Stofnunin tekur að sér og heldur utan um verkefni sem ekki eru innan getu eins Evrópuríkis.

Gaia geimsjónauka ESA var skotið á loft árið 2013. Tilgangurinn er að útbúa nákvæmasta þrívíða kortið af meira en milljarði stjarna í Vetrarbrautinni. Nú þegar hafa tvær gagnabirtingar farið fram: Gaia Data Release 1 árið 2016 og Gaia Data Release 2 árið 2018. Fleiri gögn verða birt á næstu árum.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Calum Turner
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1908.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1908is
Nafn:Gaia
Tegund:Solar System : Technology : Spacecraft
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

Pinpointing Gaia to Map the Milky Way
Pinpointing Gaia to Map the Milky Way
texti aðeins á ensku
Pinpointing Gaia to Map the Milky Way (Annotated)
Pinpointing Gaia to Map the Milky Way (Annotated)
texti aðeins á ensku
Surveying the skies
Surveying the skies
texti aðeins á ensku
The Gaia Spacecraft
The Gaia Spacecraft
texti aðeins á ensku
Gaia’s View of the Milky Way
Gaia’s View of the Milky Way
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 200 Light: ESO helps map the Galaxy
ESOcast 200 Light: ESO helps map the Galaxy
texti aðeins á ensku
Animation of Gaia's Orbit
Animation of Gaia's Orbit
texti aðeins á ensku