eso1906is — Fréttatilkynning
La Silla stjörnustöðin 50 ára!
Fyrsta stjörnustöð ESO fagnar hálfrar aldar rannsóknarafmæli
29. mars 2019
La Silla stjörnustöð ESO hefur verið í framlína stjarnvísinda frá því að hún var stofnuð árið 1969. Fyrsta flokks rannsóknartæki hafa gert stjörnufræðingum kleift að gera grundvallaruppgötvanir og rutt brautina fyrir næstu kynslóðir sjónauka. Þótt liðin séu fimmtíu ár frá upphafinu halda sjónaukar ESO á La Silla framþróun stjarnvísinda áfram með uppgötvunum á nýjum fjarreikistjörnum og leiða alheiminn í ljós í einstökum smáatriðum.
Framkvæmdir við La Silla á Cinchado-norður fjallinu í Chile í útjaðri Atacamaeyðimerkurinnar hófust árið 1965, þremur árum eftir stofnun ESO [1]. Staðurinn var valinn vegna góðs aðgengis, þurru loftslagi og fyrirtaks veðurskilyrðum sem þóttu fullkomnar fyrir stjörnustöð í heimsflokki.
Mælingar hófust með tiltölulega litlum sjónaukum ESO, 1-metra og 1,52-metra. Fjöldi og fjölbreytileiki sjónauka á La Silla hefur aukist þegar stöðin óx ásmeginn en í dag eru þar 13 sjónaukar starfræktir — ekki eingöngu frá ESO, heldur ýmsum löndum líka, háskólum og samstarfaðilum út um allan heim. Má þar nefna TRAPPIST-South, Rapid-Eye Mount Telescope (REM) og TAROT gammablossasjónaukann.
La Silla er enn í eldlínu stjarnvísindarannsókna, fimmtíu árum eftir að stöðin var opnuð, og eru gögn frá henni notuð í meira en tvö hundruð vísindagreinar á hverju ári. Þótt Very Large Telescope (VLT) ESO á Paranal sé flaggskip ESO í dag, starfrækir ESO enn tvo afkastamestu 4 metra sjónauka í heimi á La Silla. Á fyrsta stóra sjónauka ESO, 3,6 metra sjónaukanum, er öflugasta fjarreikistjörnuleitartæki heims – High Accuracy Radial velocity Planet Searcher (HARPS) litrófsritinn sem hefur fundið fjölda fjarreikistjarna.
Annar sjónauki ESO sem enn er starfræktur á La Silla – 3,58 metra New Technology Telescope (NTT) – ruddi brautina í hönnun sjónauka og var sá fyrsti í heiminum sem hafði tölvustýrðan safnspegil. Þessi frumlega hönnun, kölluð virk sjóntækni, var þróuð hjá ESO og er nú til staðar í flestum stórum sjónaukum í heiminum. Þessi sjónauki lagði einnig grunninn að VLT, fyrir utan auðvitað að vera útbúinn fjölda vísindatækja.
Báðir sjónaukar eru uppfærðir reglulega svo þeir séu enn í framvarðarsveitinni. NTT verður fljótlega útbúinn SoXS mælitækinu, litrófsrita sem hannaður er til að fylgja eftir breytilegum stjarnfræðilegum atburðum sem finnast í kortlagningarverkefnum. Á 3,6 metra sjónauka ESO verður fljótlega settur upp NIRPS, innrauð myndavél til að leita að fjarreikistjörnum sem mun betrumbæta enn frekar HARPS. Þessi nýju mælitæki, auk nýrra sjónauka eins og ExTrA og BlackGEM tryggja að La Silla verður í eldlínu stjarnvísinda á næstu árum.
Margar af tíu helstu uppgötvunum ESO voru gerðar með sjónaukum á La Silla. Þar á meðal eru margar mikilvægustu uppgötvanir síðustu fimm áratuga, til dæmis uppgötvun á sívaxandi útþensluhraða alheimsins sem leiddi til Nóbelsverðlauna í eðlisfræði árið 2011; uppgötvun á reikistjörnu í kringum nálægustu stjörnu við sólina okkar; fyrstu mælingar á ljósi frá þyngdarbylgjulind; nákvæmustu fjarlægðarmælingarnar á nálægum vetrarbrautum í Araucaria verkefninu og uppgötvun á sjö reikistjörnum í kringum köldu dvergstjörnuna TRAPPIST-1.
Það voru einkum tveir atburðir sem sóku La Silla og fönguðu athygli allra sjónaukanna vikum saman: Sprengistjarnan SN1987A og árekstur halastjörnunnar Shoemaker-Levy 9 við Júpíter. Síðarnefndi atburðurinn hafði sér í lagi mikil áhrif á daglegt líf á La Silla þegar tíu sjónaukar störðu á Júpíter samtímis og beinar útsendingar voru í Garching og Santiago þess vegna.
La Silla hefur líka gengt mjög mikilvægu hlutverki í þróun stjarnvísinda í Chile og nota chileskir stjörnufræðingar sjónaukana í La Silla í sínar rannsóknir. Rekstur og þróun stjörnustöðva ESO, þar á meðal í La Silla, hefur skilað sér í fjölmörgum tækifærum fyrir iðnað, verkfræði og vísindi í Chile. Sjónaukarnir í La Silla hafa einnig þjónað sem þjálfunarbúðir fyrir nýjar kynslóðir stjörnufræðinga, eins og sést til að mynda í ESO-NEON Observing Schools sem fara reglulega fram í La Silla.
Þótt aðstæður til stjarnvísindarannsókna séu oftast með miklum ágætum í La Silla hafa menn þó glímt við ýmsar áskoranir. Þar eru líka reglulega jarðskjálftar sem hafa þó ekki valdið neinum stórvægilegum vandamálum hingað til. Stjörnistöðin glímir nú við ljósmengun frá Pan-American hraðbrautinni sem ógnar myrkrinu yfir La Silla.
En það eru ekki bara stjarnvísindamenn sem njóta góðs af stöðinni, heldur stjörnuáhugafólk líka. Á þessu ári verður almyrkvi á sólu sjáanlegur frá La Silla. Þegar tunglið hylur sólin og breytir degi í nótt yfir 150 metra breitt belti í norðurhluta Chile, munu mörg hundruð gestir ekki aðeins fagna þessum sjaldséða atburði, heldur líka vísindalegri arfleið La Silla, fyrstu stjörnustöðvar ESO.
Skýringar
[1] „La Silla“ – spænska fyrir „Söðullinn“ – kemur frá heiti sem kolabrennslumenn gáfu Cinchado-norður, sððullaga fjalli sem varð síðan fyrsta stjörnustöð ESO.
Frekari upplýsingar
ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
- Frekari upplýsingar um La Silla
- Myndir af La Silla
- Almyrkvinn 2019 yfir La Silla
- Grein um árekstur Shoemaker-Levy 9 í The Messenger
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org
Calum Turner
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso1906is |
Nafn: | La Silla |
Tegund: | Unspecified : Technology : Observatory |