eso1823is — Fréttatilkynning

Litadýrð nýrra stjarna

11. júlí 2018

Nýjar mælingar Very Large Telescope ESO sýna stjörnuþyrpinguna RCW 38 í allri sinni dýrð. Myndin var tekin við prófanir á HAWK-I myndavélinni og GRAAL aðlögunarsjóntækjunum. Á henni sjást einstök smáatriði í RCW 38 og nærliggjandi gasskýjum en líka dökkir rykþræðir sem liggja í gegnum miðju stjörnuþyrpingarinnar ungu.

Á myndinni sést stjörnuþyrpingin RCW 38 á mynd sem tekin var með innrauðu myndavélinni HAWK-I á Very Large Telescope (VLT) ESO í Chile. HAWK-I nemur innrautt ljós til þess að skyggnast inn í rykugar stjörnuþyrpingar eins og RCW 38 og afhjúpar þannig stjörnur sem eru að verða til innan í henni. Þyrpingin inniheldur mörg hundruð ungar, heitar og efnismiklar stjörnur en hún er í um 5500 ljósára fjarlægð frá okkur í stjörnumerkinu Seglinu.

Miðsvæðin sem hér eru bláleit innihalda fjölmargar mjög ungar stjörnur og frumstjörnur sem eru enn að myndast. Geislunin frá þeim er svo orkuríkt að gasið í kring tekur að glóa, öfugt við kaldari rykslæðurnar sem þræða sig í gegnum myndina og eru annað hvort dökkar eða rauð- og rauðgular. Kontrastinn skapar þessa fögru litadýrð.

Eldri myndir sem hafa verið teknar af svæði í sýnilegu ljósi eru gerólíkar. Í sýnilegu ljósi virðast stjörnurnar mun færri vegna gassins og ryksins sem byrgir okkur sýn á þyrpinguna. Innrauðar mælingar gera okkur hins vegar kleift að skyggnast inn í rykið, inn að hjarta þyrpingarinnar.

HAWK-I er á VLT sjónauka 4 (Yepun) og mælir nær-innrauðar bylgjulengdir. Tækið gegnir ýmsum hlutverkum, til dæmis að taka myndir af nálægum vetrarbrautum eða stórum geimþokum, stökum stjörnum og fjarreikistjörnum. GRAAL er aðlögunarsjóntæki sem hjálpar HAWK-I að taka þessar glæsilegu myndir. Tækið byggir á því að fjórum leysigeislum er skotið til himins og virka þá eins og viðmiðunarstjörnur sem eru notaðar til að leiðrétta áhrif ókyrrðar í lofthjúpnum sem aftur skilar skarpari myndum.

Myndin var tekin við prófanir á HAWK-I og GRAAL tækjunum. Prófanirnar voru mikilvægur liður í uppsetningu tækjanna á VLT og fólu meðal annars í sér hefðbundnar vísindamælingar sem staðfestu og sýndu fram á eiginleika tækjanna.

Frekari upplýsingar

Umsjón með mælingunum hafði Koraljka Muzic (CENTRA, University of Lisbon, Portúgal). Samstarfsfólk hennar voru Joana Ascenso (CENTRA, University of Porto, Portúgal), Amelia Bayo (University of Valparaiso, Chile), Arjan Bik (Stockholm University, Svíþjóð), Hervé Bouy (Laboratoire d’astrophysique de Bordeaux, Frakklandi), Lucas Cieza (University Diego Portales, Chile), Vincent Geers (UKATC, Bretlandi), Ray Jayawardhana (York University, Kanada), Karla Peña Ramírez (University of Antofagasta, Chile), Rainer Schoedel (Instituto de Astrofísica de Andalucía, Spáni), og Aleks Scholz (University of St Andrews, Bretlandi).

Sannprófanir á HAWK-I og GRAAL aðlögunarsjóntækjunum voru kynntar í greininni HAWK-I GRAAL Science Verification í ársfjórðungshefti ESO, The Messenger.

Í sannprófunarteyminu voru Bruno Leibundgut, Pascale Hibon, Harald Kuntschner, Cyrielle Opitom, Jerome Paufique, Monika Petr-Gotzens, Ralf Siebenmorgen, Elena Valenti og Anita Zanella, öll frá ESO.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Calum Turner
ESO Assistant Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1823.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1823is
Nafn:RCW 38
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster
Milky Way : Nebula : Appearance : Emission
Facility:Very Large Telescope
Instruments:HAWK-I

Myndir

Celestial Art
Celestial Art
texti aðeins á ensku
RCW 38 in the Constellation of Vela
RCW 38 in the Constellation of Vela
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image around the stellar cluster RCW 38
Digitized Sky Survey image around the stellar cluster RCW 38
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 171 Light: Colourful Celestial Landscape (4K UHD)
ESOcast 171 Light: Colourful Celestial Landscape (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming into RCW 38
Zooming into RCW 38
texti aðeins á ensku
Panning across RCW 38
Panning across RCW 38
texti aðeins á ensku