eso1809is — Fréttatilkynning

ALMA afhjúpar innri vefi stjörnumyndunarsvæðis

7. mars 2018

Ný gögn frá Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) og fleiri sjónaukum, voru notuð til að útbúa þessa glæsilegu mynd af gas- og rykþráðum í Sverðþokunni í Óríon. Þræðirnir líta eflaust út fyrir að vera glóandi heitir á myndinni en í raun eru þeir svo kaldir, að stjörnufræðingar þurfa að nota sjónauka eins og ALMA til að rannsaka þá.

Þessi glæsilega og óvenjulega mynd sýnir hluta af hinni frægu Sverðþoku í Óríon, stjörnumyndunarsvæði sem er í um 1350 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Myndin var sett saman úr hálfsmillímetra gögnum frá Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) og 30 metra IRAM sjónaukanum, sýnd með rauðum lit, og öllu kunnuglegri innrauðum gögnum frá HAWK-I tækinu á Very Large Telescope ESO, sýnd í bláu. Bjarti bláhvíti stjörnuhópurinn í efra horninu vinstra megin er Trapisan — þyrping heitra, ungra stjarna sem eru aðeins nokkurra milljón ára gamlar.

Slæðurnar löngu á myndinni eru úr svo köldu gasi, að einungis sjónaukar sem mæla ljós á millímetrasviðinu eru fær um greina það. Slæðurnar eru ósýnilegar bæði í sýnilegu og innrauðu ljósi svo ALMA er eitt sárafárra tækja sem stjörnufræðingar búa yfir sem hægt er að nota til að rannsaka þær. Gasið getur af sér nýjar stjörnur — það fellur smám saman saman undan eigin þyngdarkrafti uns þjöppunin er orðin nægilega mikil til þess að frumstjarna kvikni sem er undanfari hefðbundinnar stjörnu.

Vísindamennirnir sem öfluðu gagnanna sem myndin er sett saman úr voru að rannsaka þræðina. Þeir notuðu ALMA til að leita að merkjum um diazenylíum gasi sem er hluti af þráðunum og tókst þeim að finna það í 55 þeirra.

Sverðþokan í Óríon er nálægasta stóra stjörnumyndunarsvæðið við Jörðina og þar af leiðandi vinsælt viðfangsefni stjörnufræðinga sem rannsaka myndun og þróun stjarna. Sjónaukar ESO hafa margoft gert mælingar á svæðinu og lesa má nánar um það hér, hér og hér.

Myndin er sett saman úr 296 stökum gagnasöfnum frá ALMA og IRAM. Myndin er því ein sú stærsta sem tekin hefur verið af stjörnumyndunarsvæði til þessa á millímetra bylgjulengdum [1].

Skýringar

[1] Eldri myndir af Sverðþokunni á millímetrasviðinu voru teknar með einu loftneti, eins og APEX sjónaukanum. Í nýju mælingunum frá ALMA og IRAM voru víxlmælingar notaðar til að blanda saman ljósi frá mörgum loftnetum svo útbúa mætti mynd með mikilli upplausn.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Alvaro Hacar González
NWO-VENI Fellow – Leiden Observatory
Leiden University, the Netherlands
Tölvupóstur: hacar@strw.leidenuniv.nl

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1809.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1809is
Nafn:Orion Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array, Very Large Telescope
Instruments:HAWK-I
Science data:2018A&A...610A..77H

Myndir

ALMA Reveals Inner Web of Stellar Nursery
ALMA Reveals Inner Web of Stellar Nursery
texti aðeins á ensku
The jewel in Orion’s sword
The jewel in Orion’s sword
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 154 Light: ALMA Reveals Inner Web of Stellar Nursery (4K UHD)
ESOcast 154 Light: ALMA Reveals Inner Web of Stellar Nursery (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on ALMA's view of the Orion Nebula
Zooming in on ALMA's view of the Orion Nebula
texti aðeins á ensku
Panning across ALMA's view of the Orion Nebula
Panning across ALMA's view of the Orion Nebula
texti aðeins á ensku