eso1740is — Fréttatilkynning
Blómstrandi stjörnumyndunarsvæði
13. desember 2017, Hafnarfjordur
OmegaCAM myndavélin á VLT Survey Telescope ESO tók þessa fallegu mynd af stjörnumyndunarsvæði sem kallast Sharpless 29. Á þessari risavöxnu mynd sjást fjölmörg stjarnfræðileg fyrirbæri, þar á meðal geimryk og gasský sem endurspegla, gleypa og gefa frá sér ljós frá heitum, ungum stjörnum í þokunni.
Svæðið á myndinni er að finna í Sharpless skránni yfir röfuð vetnisský en það eru geimský úr jónnuðu gasi og mikla stjörnumyndun. Sharpless 29, einnig þekkt sem Sh-2-29, er í um 5500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum, skammt frá Lónþokunni sem er mun stærri. Á svæðinu eru mörg stjarnfræðileg undur, þar á meðal mjög virkt stjörnumyndunarsvæði, NGC 6559 en það er þokan á miðri mynd.
Þokan í miðju Sharpless 29 er helsta og glæsilegasta einkenni hennar. Þótt hún sé aðeins nokkur ljósár á breidd sýnir hún þann usla sem stjörnur geta gert þegar þær fæðast í geimskýjum. Heitu, ungu stjörnurnar á myndinni eru ekki mikið eldri en tveggja milljón ára og geisla frá sér mjög orkuríku ljósi. Ljósið hitar gasið og rykið í kring en stjörnuvindar veðra og móta fæðingarstaðinn. Í geimþokunni er áberandi eyða sem orkuríkt tvístirni hefur skapað en það fer vaxandi sem veldur því að efni safnast saman og myndar rauðleitan bogadreginn jaðar.
Þegar útfjólublátt ljós frá heitu, ungu stjörnum skín á gasið og rykið lýsist það upp. Rauða bjarmann má rekja til ljóss sem vetnisgas gefur frá sér á meðan bláa ljósið er af völdum endurspeglunar og dreifingar af litlum rykögnum. Á svæðinu eru ekki bara ljóm- og endurskinsþokur, heldur líka skuggaþokur. Ryk gleypir í sig ljós sem ferðast til okkar og byrgir okkur sýn á stjörnur fyrir aftan en smærri rykslæður koma fram sem dökkleitir þræðir í skýjunum.
Fjölbreytnin í Sharpless 29 gefur stjörnufræðingum heilt hlaðborð af áhugaverðum fyrirbærum til að rannsaka. Á þessu eina svæði koma fram áhrif myndunar stjarna, ungu stjarnanna á gasið og rykið og segulsviða.
Ungu, efnismiklu stjörnurnar lifa hratt og deyja ungar. Þær munu að lokum springa og skilja eftir sig gas- og rykský. Eftir tugi milljóna ára verður lítið sem ekkert eftir af gasinu og rykinu, aðeins lausþyrping stjarna.
Myndin af Sharpless 29 var tekin með OmegaCAM myndavél ESO á VLT Survey Telescope (VST) á Cerro Paranal í Chile. OmegaCAM tekur myndir af himninum sem eru 300 sinnum stærri en stærstu sjónsvið myndavéla á Hubble geimsjónauka NASA og ESA og getur auk þess gert mælingar yfir vítt tíðnisvið, frá útfjólubláu ljósi yfir í innrautt. Eitt af aðalsmerkjum myndavélarinnar er geta hennar til að nema rauðu litrófslínuna H-alfa sem myndast þegar rafeind í vetnisatómi missir orku en slík geislun er mjög áberandi í geimþokum eins og Sharpless 29.
Frekari upplýsingar
ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Hafnarfjordur, Iceland
Farsími: 8691984
Tölvupóstur: saevarhb@gmail.com
Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso1740is |
Nafn: | Sh 2-29, Sharpless 29 |
Tegund: | Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region |
Facility: | VLT Survey Telescope |
Instruments: | OmegaCAM |