eso1731is — Fréttatilkynning
Skrítnar myndanir í Satúrnusarþokunni
27. september 2017
Sérkennilegar bleikar og bláar gas- og rykmyndanir í hringþokunni NGC 7009 eða Satúrnusarþokunni sjást hér á litríkri mynd sem tekin var með MUSE mælitækinu á Very Large Telescope ESO (VLT). Tilgangurinn var að kortleggja ryk í hringþoku í fyrsta sinn. Kortið — sem sýnir fjölmargar fínar rykmyndanir, þar á meðal skeljar, hjúp og bylgjur — hjálpa stjörnufræðingum að skilja hvernig hringþokur þróast og verða ósamhverfar.
Satúrnusarþokan er í um 5000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Vatnsberanum. Þokan dregur nafn sitt af löguninni sem minnir um argt á reikistjörnuna Satúrnus.
Satúrnusarþokan er hringþoka sem var upphaflega lágmassastjarna sem þandist út og varð að rauðum risa sem við ævilok varpaði frá sér ytri efnislögum sínum út í geiminn. Öflugir stjörnuvindar blésu efninu burt en orkuríkt útfjólublátt ljós frá heitum kjarna stjörnunnar í miðjunni lýsti upp efnið svo úr varð þessi glæsilega og litríka geimþoka. Í hjarta Satúrnusarþokunnar sést hvíti dvergurinn, leifar stjörnunnar sem dó [1].
Hópur stjörnufræðinga undir forystu Jeremy Walsh hjá ESO notaði Multi Unit Spectroscopic Explorer (MUSE) til að skilja betur hvernig hringþokur mótast og til að skyggnast inn í rykið í Satúrnusarþokunni. MUSE er mælitæki á einum af fjórum Very Large Telescope í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Tækið er mjög öflugt en tekur ekki aðeins myndir heldur gerir líka litrófsmælingar á fyrirbærinu sem verið er að rannsaka.
Stjörnufræðingarnir notuðu MUSE til að útbúa fyrstu nákvæmu kortin af dreifingu gass og ryks í hringþokunni [2]. Útkoman, þessi mynd af Satúrnusarþokunni, leiðir í ljós fjölda fínna myndana, þar á meðal sporöskjulaga innri gaskel, ytri skel og hjúp. Hún sýnir líka gastauma, hvor á sínum langási þokunnar sem enda í björtum kekkjum.
Stjörnufræðingarnir fundu líka bylgjumynstur í rykinu sem menn skilja ekki til fulls. Ryk er á víð og dreif um þokuna en við jaðar innri skeljarinnar virðist sem rykið eyðist þar sem þar er umtalsvert minna um ryk. Hugsanlegt er að nokkur ferli eigi sök á eyðingunni. Innri skelin er í raun höggbylgja sem þenst út og gæti verið að rekast á rykagnir og eyða þeim eða að leiða til aukinnar hitunnar sem eyðir rykinu.
Kortlagning á gas- og rykmyndunum í hringþokunni hjálpar stjörnufræðingum að skilja hlutverk þeirra í ævi og dauða lágmassastjarna, sem og að skilja hvernig lögun hringþoka verður til.
MUSE mælitækið er fært um miklu meira en aðeins rannsóknir á hringþokum. Mælitækið er líka notað í rannsóknir á myndun stjarna og vetrarbrauta í árdaga alheimsins, sem og kortlagningu á dreifingu hulduefnis í nálægum vetrarbrautaþyrpingum. MUSE hefur líka útbúið fyrsta þrívíða kortið af Stöplum sköpunarinnar í Arnarþokunni (eso1518) og tekið mynd af glæsilegum árekstri nálægra vetrarbrauta (eso1437).
Skýringar
[1] Hringþokur eru venjulega skammlífar. Satúrnusarþokan mun aðeins endast í nokkra tugi árþúsunda áður en hún þenst það mikið út og kólnar að hún sést ekki lengur. Stjarnan í miðjunni kemur til með að dofna og verða heitur hvítur dvergur.
[2] Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur áður tekið glæsilega mynd af Satúrnusarþokunni — en ólíkt MUSE getur hann ekki aflað litrófsgagna af allri þokunni í einu.
Frekari upplýsingar
ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
- Myndir af VLT
- Myndir af MUSE
- Fréttatilkynning um gangsetningu MUSE
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org
Jeremy Walsh
ESO
Garching bei München, Germany
Tölvupóstur: jwalsh@eso.org
Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso1731is |
Nafn: | NGC 7009, Saturn Nebula |
Tegund: | Milky Way : Nebula : Type : Planetary |
Facility: | Very Large Telescope |
Instruments: | MUSE |