eso1636is — Fréttatilkynning

Aldurhnigið hjarta Vetrarbrautarinnar

VISTA finnur leifar fornar kúluþyrpingar

12. október 2016

Gamlar stjörnur af gerðinni RR-hörpustjörnur hafa í fyrsta sinn fundist við miðju Vetrarbrautarinnar. Stjörnurnar fundust með VISTA, innrauðum sjónauka ESO. RR-hörpustjörnur finnast nær eingöngu í gömlum stjörnuþyrpingum sem eru meira en 10 milljarða ára gamlar. Uppgötvunin bendir til þess að miðbunga Vetrarbrautarinnar hafi líklega orðið til við samruna frumstæðra stjörnuþyrpinga. Stjörnurnar gætu jafnvel verið leifar massamestu og elstu stjörnuþyrpinga í Vetrarbrautinni okkar.

Hópur stjörnufræðinga undir forystu Dante Minniti (Universidad Andrés Bello, Santiago, Chile) og Rodrigo Contreras Ramos (Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile) notaði mælingar úr Variables in the Via Lactea (VVV) kortlagningarverkefni ESO, sem gerðar voru með innrauða kortlagningarsjónaukanum VISTA, til að rannsaka miðju Vetrarbrautarinnar. Innrautt ljós berst betur í gegnum geimrykið sem á svæðinu er heldur en sýnilegt ljós, svo með því að nota VISTA og nýta hinar framúrskarandi aðstæður sem ríkja í Paranal stjörnustöð ESO, tókst stjörnufræðingunum að ná betri mynd af svæðinu en nokkru sinni fyrr. Í ljós kom ríflega tugur áður óþekktra gamalla RR-hörpustjarna í hjarta Vetrarbrautarinnar.

Miðja Vetrarbrautarinnar mjög þétt en nógu nálægt okkur til þess að við getum rannsakað hana í smáatriðum. Uppgötvun á RR-hörpustjörnum veitir stjörnufræðingum upplýsingar sem gagnast til að skilja á milli tveggja kenninga um myndun bungunnar.

RR-hörpustjörnur finnast venjulega í þéttum kúluþyrpingum. Þær eru breytistjörnur og sveiflast birta hverrar RR-hörpustjörnu lotubundið. Með því að mæla lengd hverrar birtubreytingarlotu, sem og sýndarbirtusttig stjörnunnar, geta stjörnufræðingar reiknað út fjarlægð hennar frá Jörðinni [1].

Því miður eru þessir frábæru fjarlægðavísar oft talsvert daufari en yngri og skærari stjörnur og sumar hverjar á mjög rykugum svæðum. Þar af leiðandi var ekki hægt að staðsetja RR-hörpustjörnur í stjörnuskaranum í miðju Vetrarbrautarinnar þar til VVV verkefnið fór af stað. Þrátt fyrir það hafa stjörnufræðingar sagt að leitin að RR-hörpustjörnum á svæðinu, innan um mun skærari stjörnur, hafi verið mjög erfið.

Þeir fengu þó laun erfiðisins þegar rúmlega tugur RR-hörpustjarna fannst. Uppgötvunin bendir til þess að um sé að ræða leifar fornrar kúluþyrpingar á víð og dreif um miðbungu Vetrarbrautarinnar.

„Uppgötvun a´RR-hörpustjörnum í miðju Vetrarbrautarinnar hefur mikilvægar afleiðingar í för með sér fyrir hugmyndir um myndun kjarna Vetrarbrautarinnar. Sönnunargögnin styðja þá hugmynd að bungan hafi upphaflega orðið til úr samruna nokkurra kúluþyrpinga,“ sagði Rodrigo Contreras Ramos.

Sú kenning að bungur vetrarbrauta myndist við samruna kúluþyrpinga keppir við aðra hugmynd um að bungnurnar hafi orðið til við hraða gassöfnun. Uppgötvun á RR-hörpustjörnum — sem finnast næstum alltaf í kúluþyrpingum — er sterk vísbending þess að bunga Vetrarbrautarinnar hafi myndast við samruna. Allar aðrar sambærilegar kúluþyrpingar gætu hafa myndast á samskonar hátt.

Þessar stjörnur eru ekki aðeins öflugar vísbendingar um mikilvæga kenningu um myndun og þróun vetrarbrauta, heldur eru þær líklega yfir 10 milljarða ára gamlar — daufir en þrautseigir eftirlifendur elsu og efnismestu stjörnuþyrpinga Vetrarbrautarinnar.

Skýringar

[1] RR-hörpustjörnur hafa einfalt samband milli birtubreytingarlota og ljósafls þeirra, rétt eins og sumar aðrar sveiflustjörnur, til dæmis Sefítar. Lengri lota þýðir að stjarnan er bjartari. Hægt er að nota þetta sveiflulýsilögmál til að reikna út fjarlægð stjörnurnnar út frá birtubreytingarlotunni og sýndarbirtustiginu.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í grein sem birtist í Astrophysical Journal Letters.

Í rannsóknarteyminu eru D. Minniti (Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile; Departamento de Física, Universidad Andrés Bello, Santiago, Chile; Vatican Observatory, Vatikanið, Ítalíu), R.C. Ramos (Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile;  Pontificia Universidad Católica de Chile, Instituto de Astrofísica, Santiago, Chile), M. Zoccali (Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile;  Pontificia Universidad Católica de Chile, Instituto de Astrofísica, Santiago, Chile), M. Rejkuba (European Southern Observatory, Garching bei Muenchen, Þýskalandi; Excellence Cluster Universe, Garching, Þýskalandi), O.A. Gonzalez (UK Astronomy Technology Centre, Royal Observatory, Edinborg, Bretlandi), E. Valenti (European Southern Observatory, Garching bei München, Þýskalandi), F. Gran (Instituto Milenio de Astrofísica, Santiago, Chile;  Pontificia Universidad Católica de Chile, Instituto de Astrofísica, Santiago, Chile)

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Dante Minniti
Universidad Andrés Bello
Santiago, Chile
Tölvupóstur: dante@astrofisica.cl

Rodrigo Contreras Ramos
Instituto Milenio de Astrofísica
Santiago, Chile
Tölvupóstur: rcontrer@astro.puc.cl

Mathias Jäger
Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Farsími: +49 176 62397500
Tölvupóstur: mjaeger@partner.eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1636.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1636is
Nafn:RR Lyr
Tegund:Milky Way : Star : Type : Variable
Facility:Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy
Instruments:VIRCAM
Science data:2016ApJ...830L..14M

Myndir

Variable stars close to the galactic centre
Variable stars close to the galactic centre
texti aðeins á ensku
RR Lyrae stars in the constellation of Sagittarius
RR Lyrae stars in the constellation of Sagittarius
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the centre of the Milky Way
Wide-field view of the centre of the Milky Way
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Variable RR Lyrae stars
Variable RR Lyrae stars
texti aðeins á ensku
Zoom on the galactic centre
Zoom on the galactic centre
texti aðeins á ensku
Pan across the galactic centre
Pan across the galactic centre
texti aðeins á ensku