eso1628is — Fréttatilkynning
Rannsóknarstofa í Bogmanninum
10. ágúst 2016
Í efra vinstra horni þessarar stóru 615 megapixla ljósmyndar frá ESO sést hópur blárra stjarna sem er fullkominn staður til að rannsaka líf og dauða stjarna. Þyrpingin kallast Messier 18 en hún geymir stjörnur sem urðu til úr sama stóra gas- og rykskýinu. Á myndinni sjást ennfremur rauðglóandi vetnisský og dökkar rykslæður. Myndin var tekin með VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile.
Charles Messier — sem Messier fyrirbærin eru nefnd eftir — uppgötvaði Messier 18 árið 1764 þegar hann leitaði að fyrirbærum sem minntu á halastjörnur [1]. Messier 18 er lausþyrping stjarna í um 4600 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum.
Í Vetrarbrautinni okkar er vitað um meira en 1000 lausþyrpingar af ýmsum stærðum og á mismunandi aldri sem færa stjörnufræðingum vísbendingar um myndun, þróun og endalók stjarna. Meginaðdráttarafl þyrpinga af þessu tagi er að allar stjörnurnar í þeim urðu til samtímis og úr sama efni.
Í Messier 18 benda bláu og hvítu litir stjarnanna til þess að þyrpingin sé mjög ung, líklega aðeins í kringum 30 milljón ára. Stjörnurnar eru systur svo eini munurinn á þeim er kominn til af massa þeirra en ekki fjarlægð frá jörðinni eða samsetningu efnisins sem myndaði þær. Þess vegna koma þyrpingarnar að góðu gagni í að betrumbæta kenningar um myndun og þróun stjarna.
Stjörnufræðingar vita að flestar stjörnur verða til í hópum úr gasskýi sem féll saman vegna þyngdarkraftsins. Með tímanum skilja leiðir og þyrpingin leysist upp vegna aðdráttarkrafta frá efnismiklum stjörnum eða gasskýjum sem verða á vegi þyrpingarinnar. Ský úr afgangsgasi og -ryki — eða sameindaský — sem umlykja nýju stjörnurnar fjúka oftast burt vegna öflugra stjörnuvinda sem veikir þyngdarhlekkinn sem bindur þær saman enn frekar. Sólin okkar var sennilega eitt sinn hluti af þyrpingu eins og Messier 18, allt þar til stjörnurnar í henni dreifðust um Vetrarbrautina okkar.
Dökku slæðurnar á myndinni eru úr ryki sem skyggir á ljós frá fjarlægari stjörnum. Rauðleitu skýin eru hins vegar úr jónuðu vetnisgasi. Gasið glóir vegna þess að ungar og mjög heitar stjörnur, eins og þær sem hér sjást, gefa frá sér útfjólublátt ljós sem rífur rafeindir úr gasinu sem fyrir vikið gefur frá sér rauðleitann bjarma eins og sést á myndinni. Við réttar aðstæður gæti þetta efni, dag einn, orðið að nýrri kynslóð stjarna (eso1535).
Þessi gríðarstóra ljósmynd, 30 577 x 20 108 pixlar, var tekin með OmegaCAM myndavélinni á VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile.
Skýringar
[1] Messier 18 er einnig í New General Catalogue skránni sem NGC 6613.
Frekari upplýsingar
ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org
Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso1628is |
Nafn: | Messier 18, NGC 6613 |
Tegund: | Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open |
Facility: | VLT Survey Telescope |
Instruments: | OmegaCAM |