eso1610is — Fréttatilkynning

Frumbyggi Grenndarhópsins

23. mars 2016

Á þessari mynd sem tekin var með OmegaCAM myndavélinni á VLT Survey Telescope ESO sést einmana vetrarbraut sem kallast Wolf-Lundmark-Melotte eða WLM. WLM er talin tilheyra Grenndarhópnum, sem telur nokkra tugi vetrarbrauta, en hún er við útjaðar hans og því afskekktasti meðlimur hópsins. Þessi vetrarbraut er svo lítil og svo einangruð að hún hefur hvorki komist í tæri við aðrar vetrarbrautir í Grenndarhópnum, hé nokkra aðra vetrarbraut í sögu alheimsins.

WLM gefur okkur sjaldgæfa sýn á frumstætt eðli vetrarbrauta sem hafa orðið fyrir litlum sem engum truflunum af umhverfi sínu, ekki ósvipað og frumstæðir ættbálkar djúpt í regnskógum Amazon sem hafa aldrei komist í tæri við nútímamenningu.

Þýski stjörnufræðingurinn Max Wolf fann WLM árið 1909 en fimmtán árum síðar komust stjörnufræðingarnir Knut Lundmark og Philibert Jacques Melotte að því að um vetrarbraut var að ræða og var hún nefnd eftir þeim. Vetrarbrautina er að finna í stjörnumerkinu Hvalnum en hún er í um þriggja milljóna ljósára fjarlægð frá Vetrarbrautinni okkar sem er ein þriggja stórra þyrilþoka í Grenndarhópnum.

WLM er fremur lítil og einsleit og því flokkuð sem óregluleg vetrarbraut. Breiðust mælist hún 8000 ljósár á breidd og er þá daufur hjúpur sérstaklega gamalla stjarna sem fannst árið 1996 (eso9633) talinn með.

Stjörnufræðingar telja að þyril- og sporvöluþokur nútímans megi rekja til tiltölulega lítilla og frumstæðra vetrarbrauta sem hafi víxlverkað hver við aðra og í mörgum tilvikum runnið saman í stærri vetrarbrautir. Vetrarbrautirnar hafa þannig hópast saman á svipaðan hátt og menn fluttu sig um set og runnu saman í stærri hópa sem að lokum leiddi til stórborga nútímans.

WLM hefur hins vegar ekki gengið í gegnum sama mótunarferli, heldur þróast upp á eigin spýtur, fjarri áhrifum annarra vetrarbrauta og stjarna eirra. WLM er því óspillt og stöðug og hafa allar breytingar í henni orðið fyrir hennar eigin tilverknað en ekki vegna utanaðkomandi áhrif.

Í kringum þessa litlu vetrarbraut er hjúpur úr mjög daufum rauðum stjörnum sem teygir sig nokkur langt út í geiminn í kring. Rauði liturinn bendir til þess að stjörnurnar séu ævafornar, líklega frá þeim tíma þegar vetrarbrautin var að myndast í upphaflega. Stjörnurnar gætu því geymt upplýsingar um ferlin sem leiddu fyrstu vetrarbrautirnar af sér.

Stjörnurnar í miðju WLM virðast hins vegar blárri og yngri. Á myndinni sýna bleiku skýin svæði þar sem orkuríkt ljós frá ungum stjörnum hefur jónað vetnisgas í kring svo það glóir með sínum einkennandi rauðleita blæ.

Myndin var tekin með OmegaCAM myndavélinni á VLT Survey Telescope (VST) ESO í Chile — 2,6 metra sjónauka sem kortleggur næturhimininn í sýnilegu ljósi. OmegaCAM samanstendur af 32 CCD myndflögum sem saman mynda 256 megapixla myndavél með mjög vítt sjónsvið út í alheiminn.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1610.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1610is
Nafn:WLM Galaxy
Tegund:Local Universe : Galaxy : Size : Dwarf
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

The WLM galaxy on the edge of the Local Group
The WLM galaxy on the edge of the Local Group
texti aðeins á ensku
The dwarf galaxy WLM in the constellation of Cetus
The dwarf galaxy WLM in the constellation of Cetus
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the dwarf galaxy WLM
Wide-field view of the sky around the dwarf galaxy WLM
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the dwarf galaxy WLM
Zooming in on the dwarf galaxy WLM
texti aðeins á ensku
The WLM galaxy on the edge of the Local Group
The WLM galaxy on the edge of the Local Group
texti aðeins á ensku