eso1526is — Fréttatilkynning

Grafin í hjarta risa

1. júlí 2015

Litadýrð stjarna og gass er í aðalhlutverki á þessari mynd sem tekin var með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Á myndinni sést ung lausþyrping stjarna sem nefnist NGC 2367 en hún er barnungur stjörnuhópur í miðju gríðarstórrar og ævafornrar myndunar í jaðri Vetrarbrautarinnar.

Hinn 20. nóvember árið 1784 fann stjörnuáhugamaðurinn Sir William Herschel NGC 2367 frá heimili sínu í Englandi. Þyrpingin, sem er í um 7.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Stórahundi, er aðeins um fimm milljón ára, svo flestar stjörnurnar í henni eru ungar og heitar og geisla frá sér skæru bláu ljósi um leið og þær eru umluktar rauðleitum bjarma vetnisgassins í kring.

Lausþyrpingar á borð við NGC 2367 eru algengar í þyrilvetrarbrautum eins og þeirri sem við búum í og finnast gjarnan í jöðrum þeirra. Á ferðalagi sínu um miðju vetrarbrautarinnar verða þær fyrir þyngdartogi frá öðrum þyrpingum og stórum gasskýjum í nágrenninu. Þar sem þyngdarkrafturinn bindur þær aðeins lauslega saman — og vegna þess að þær glata massa þegar gasið fýkur burt fyrir tilverknað geislunar frá ungu, heitu stjörnunum — leysast þyrpingarnar fljótt upp og systurstjörnurnar reka burt hver frá annarri. Þetta er talið hafa komið fyrir sólin fyrir milljörðum ára. Venjulega endast lausþyrpingar í nokkur hundruð milljónir ára áður en þær leysast alveg upp.

Af þessum sökum eru þyrpingarnar heppilegar til rannsókna á þróun stjarna. Allar stjörnurnar í þeim urðu til nokkurn veginn samtímis úr sama efnisskýi, svo auðvelt er að bera þær saman til að reikna út aldur og kortleggja þróunarsögu þeirra.

NGC 2367 er, líkt og margar lausþyrpingar, enn umvafin ljómþokunni sem hún varð til úr. Leifar þokunnar sjást sem þokuslæður úr vetnisgasi, uppljómaðar af útfjólublárri geislun frá heitustu stjörnunum. Það óvenjulega er, að þegar stefnt er út frá þyrpingunni og þokunni kemur mun stærri myndun í ljós: NGC 2367 og þokan sem hún er inni í eru taldar vera í hjarta miklu stærri geimþoku sem kallast Brand 16 og er sjálf aðeins lítill hluti af risavaxinni efnisskel sem heitir GS234-02.

GS234-02 risaskeilin liggur að að útjöðrum Vetrarbrautarinnar. Hún er mjög víðáttumikil myndun sem spannar mörg hundruð ljósár. Skelin varð til þegar hópur mjög efnismikilla stjarna, sem gáfu frá sér öfluga stjörnuvinda, mynduðu heitar gasbólur sem þöndust út. Þegar bólurnar runnu saman og mynduðu risabólu sprungu stjörnunar í þeim á svipuðum tíma sem þandi bóluna enn lengra út. Þar rann sú risamyndun saman við aðrar risabólur og varð efnisskelin þá til. Efnisskeljar af þessu tagi eru með stærstu myndunum sem geta orðið til í vetrarbrautum.

Þetta sammiðja útþensluský, jafn gamalt og það er stórt, er prýðilegt dæmi um þær myndanir sem mótast við fæðingu og dauða stjarna í vetrarbrautum.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1526.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1526is
Nafn:NGC 2367
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The colourful star cluster NGC 2367
The colourful star cluster NGC 2367
texti aðeins á ensku
The star cluster NGC 2367 in the constellation of Canis Major
The star cluster NGC 2367 in the constellation of Canis Major
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the bright star cluster NGC 2367
Wide-field view of the sky around the bright star cluster NGC 2367
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star cluster NGC 2367
Zooming in on the star cluster NGC 2367
texti aðeins á ensku
The colourful star cluster NGC 2367
The colourful star cluster NGC 2367
texti aðeins á ensku