eso1439is — Fréttatilkynning

Litríkur hópur miðaldra stjarna

26. nóvember 2014

Þessi fallega og litríka mynd af stjörnuþyrpingunni NGC 3532 var tekin með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Sumar stjörnurnar eru skærbláar á meðan aðrar massameiri eru rauðar risastjörnur sem gefa frá sér appelsínugulan bjarma.

NGC 3532 er björt lausþyrping í um 1300 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Kilinum. Hún er stundum kölluð Óskabrunnsþyrpingin því hún minnir um margt á silfurpeninga á botni brunns. Einnig hefur hún verið kölluð Fóboltaþyrpingin en það fer eftir því hvoru megin Atlantshafsins maður býr hvort sú nafngift sé viðeigandi. Það nafn er dregið af sporöskjulaga útliti þyrpingarinnar, séð í gegnum sjónauka, sem mörgum finnst líkjast rúbbíbolta.

Þessi bjarta stjörnuþyrping sést vel með berum augum frá suðurhveli Jarðar. Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille fann þyrpinguna árið 1752 er hann dvaldi við rannsóknir í Suður Afríku og skrásetti hana þremur árið síðar, eða árið 1755. Hún er án efa ein glæsilegasta lausþyrping himins.

NGC 3532 er næstum tvöfalt stærri að flatarmáli á himninum en fullt tungl. John Herschel lýsti henni sem þyrpingu með „nokkrum fallegum tvístirnum“ er hann skoðaði hana frá Suður Afríku upp úr 1830. Mun nær okkur í tíma var NGC 3532 fyrsta viðfangsefni Hubble geimsjónauka NASA og ESA hinn 20. maí árið 1990.

Stjörnuþyrpingin er um 300 milljón ára gömul og því miðaldra á mælikvarða lausþyrpinga [1]. Meðalmassastjörnur sem mynduðust í þyrpingunni í upphafi skína enn skært og gefa frá sér bláhvítan lit, á meðan efnismeiri stjörnur í þyrpingunni hafa þegar klárað vetnisforða sinn og eru orðnar að rauðum risastjörnum. Fyrir vikið eru bæði bláar og appelsínugular stjörnur í þyrpingunni. Efnismestu stjörnurnar sem urðu til í þyrpingunni hafa fyrir löngu lifað stutta ævi sína á enda og sprungið sem sprengistjörnur. Innan um þessar stjörnur er einnig fjöldi annarra massaminni stjarna sem lifa lengur og gefa frá sér gulan og rauðan bjarma. Í NGC 3532 eru um 400 stjörnur í heild.

Í bakgrunni sést aragrúi annarra stjarna í Vetrarbrautinni okkar, sem og rauðglóandi vetnisgas og litlar rykslæður sem byrgja sýn á enn fjarlægari stjörnur. Rykslæðurnar tengjast líklega ekki þyrpingunni sjálfri, því hún er það gömul að hún ætti fyrir löngu að hafa hreinsað allt efni úr umhverfi sínu.

Þessi mynd af NGC 3532 var tekin með Wide Field Imager í La Silla stjörnustöð ESO í febrúar 2013.

Skýringar

[1] Stjörnur sem eru mun efnismeiri en sólin lifa aðeins í örfáar milljónir ára, á meðan sólin mun lifa í um tíu milljarða ára og lágmassastjörnur í þúsundir milljarða ára — mun lengur en sem nemur aldri alheimsins í dag.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1439.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1439is
Nafn:NGC 3532
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The colourful star cluster NGC 3532
The colourful star cluster NGC 3532
texti aðeins á ensku
The location of the bright star cluster NGC 3532 in the constellation of Carina
The location of the bright star cluster NGC 3532 in the constellation of Carina
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the bright star cluster NGC 3532
Wide-field view of the sky around the bright star cluster NGC 3532
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the colourful star cluster NGC 3532
Zooming in on the colourful star cluster NGC 3532
texti aðeins á ensku
The colourful star cluster NGC 3532
The colourful star cluster NGC 3532
texti aðeins á ensku
Panning across the colourful star cluster NGC 3532
Panning across the colourful star cluster NGC 3532
texti aðeins á ensku