eso1438is — Fréttatilkynning

Dularfull uppröðun dulstirna yfir milljarða ljósára

VLT leiðir í ljós að snúningsásar risasvartholanna og stórgerð alheims eru samsíða

19. nóvember 2014

Nýjar mælingar Very Large Telescope (VLT) ESO í Chile hafa leitt í ljós beinlínuröðun milli stærstu byggingareininga alheimsins. Hópur evrópskra vísindamanna hefur komist að því að snúningsásar risasvarthola í dulstirnum liggja samsíða, jafnvel þótt milljarðar ljósára skilji á milli þeirra. Stjörnufræðingarnir komust einnig að því að snúningsásar dulstirnanna hafa tilhneigingu til að vera í línu við þræðina sem mynda stórgerð alheimsins.

Dulstirni eru vetrarbrautir með mjög virk risasvarthol í miðjum sínum. Í kringum risasvartholin eru snúningsskífur úr gríðarheitu efni sem jafnan beinast í langa stróka sem stefna út frá snúningsásum þeirra. Dulstirni geta skinið skærar en allar stjörnurnar í hýsilvetrarbrautum þeirra samanlagt.

Hópur undir forystu Damien Hutsemékers við Liège-háskóla í Belgíu notaði FORS mælitækið á VLT til að rannsaka 93 dulstirni í stórum hópi sem dreifist yfir milljarða ljósára og sjást á þeim tíma í sögu alheimsins þegar hann var um það bil þriðjungur af aldri sínum í dag.

„Það fyrsta sérkennilega sem við tókum eftir var að snúningsásar sumra dulstirna voru í beinni línu við önnur dulstirni, jafnvel þótt milljarðar ljósára skilji þau að,“ sagði Hutsemékers.

Rannsóknarteymið gekk skrefi lengra og kannaði hvort snúningsásarnir tengdust, ekki aðeins innbyrðis, heldur hvort þeir væru einnig í línu við stórgerð alheimsins á þeim tíma.

Þegar stjörnufræðingar kanna dreifingu vetrarbrauta yfir nokkra milljarða ljósára fjarlægð, sést að þær eru ekki jafndreifðar. Vetrarbrautirnar raðast upp í stóra þræði og kekki í kringum miklar eyður þar sem fáar vetrarbrautir eru. Þessi forvitnilega og fallega uppröðun efnis kallast stórgerð alheims.

Niðurstöður VLT benda til að snúningsásar dulstirnanna séu gjarnan samsíða þeirri stórgerð alheims sem dulstirnin tilheyra, svo ef dulstirnin hafa búsetu í löngum þræði eru snúningsásar svartholanna í miðju þeirra samsíða þræðinum. Að mati stjörnufræðinganna eru innan við 1% líkur á að þessi beinlínuröðun sé tilviljun.

„Fylgnin á milli stefnu dulstirna og stórgerðarinnar sem þau tilheyra er mikilvægur hluti af líkönum af þróun alheimsins. Mælingar okkar veita fyrstu staðfestinguna á þessari fylgni á miklu stærri skala en hingað til hefur sést fyrir venjulegar vetrarbrautir,“ sagði Dominique Sluse við Argelander-Institut für Astronomie í Bonn í Þýskalandi og Liėge háskóla.

Stjörnufræðingarnir sáu hvorki snúningsása né stróka svartholanna beint. Þess í stað var skautun í ljósi frá hverju dulstirni mæld. Í nítján tilvikum sást töluvert skautað merki. Út frá skautunarstefnunni og öðrum fyrirliggjandi upplýsingum var hægt að leiða út stefnu aðsópskringlunnar og þar af leiðandi stefnu snúningsáss dulstirnisins.

„Beinlínuröðunin í mælingunum, á skala sem er miklu stærri en líkön okkar hingað til hafa getað spáð fyrir um, gæti verið vísbending um að ýmislegt vanti í líkön okkar af alheiminum,“ sagði Dominique Sluse.

Frekari upplýsingar

Skýrt var frá þessari rannsókn í greininni „Alignment of quasar polarizations with large-scale structures“, eftir D. Hutsemékers o.fl., sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics hinn 19. nóvember 2014.

Í rannsóknarteyminu eru D. Hutsemékers (Institut d’Astrophysique et de Géophysique, Université de Liège, Liège, Belgíu), L. Braibant (Liège), V. Pelgrims (Liège) og D. Sluse (Argelander-Institut für Astronomie, Bonn, Þýskalandi; Liège).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Damien Hutsemékers
Institut d’Astrophysique et de Géophysique — Université de Liège
Liège, Belgium
Sími: +32 4 366 9760
Tölvupóstur: hutsemekers@astro.ulg.ac.be

Dominique Sluse
Institut d'Astrophysique et de Géophysique — Université de Liège
Liège, Belgium
Sími: +32 4 366 9797
Tölvupóstur: dsluse@ulg.ac.be

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1438.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1438is
Nafn:Quasar
Tegund:Early Universe : Galaxy : Activity : AGN : Quasar
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2
Science data:2014A&A...572A..18H

Myndir

Artist’s impression of mysterious alignment of quasar rotation axes
Artist’s impression of mysterious alignment of quasar rotation axes
texti aðeins á ensku
Simulation of large scale structure
Simulation of large scale structure
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Artist's impression of mysterious alignment of quasar rotation axes
Artist's impression of mysterious alignment of quasar rotation axes
texti aðeins á ensku