Kids

eso1424is — Fréttatilkynning

VST tekur mynd af Þríhyrningsþokunni

6. ágúst 2014

VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile hefur tekið glæsilega mynd af vetrarbrautinni Messier 33. Þessi nálæga þyrilþoka, sem er önnur nálægasta stóra vetrarbrautin við Vetrarbrautina okkar, inniheldur margar bjartar stjörnuþyrpingar og gas- og rykský. Myndin nýja er ein sú besta sem tekin hefur verið af vetrarbrautinni til þessa og sýnir þau fjölmörgu rauðglóandi gasský í þyrilörmunum sérstaklega vel.

Messier 33, einnig þekkt sem NGC 598, er í um þriggja milljóna ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Þríhyrningnum. Í ágúst árið 1764 skoðaði franski halastjörnuleitandinn Charles Messier þokuna, sem gengur oftar undir nafninu Þríhyrningsþokan, og var hún 33. fyrirbærið sem rataði í fræga skrá hans yfir áberandi þokur og stjörnuþyrpingar. Messier var þó ekki fyrstur til að skrásetja þyrilþokuna; líklega skráði sikileyski stjörnufræðingurinn Giovanni Battista Hodierna um 100 árum fyrr.

Þótt Þríhyrningsþokan sé á norðurhveli himins sést hún líka frá suðurhveli þar sem Paranal stjörnustöðin í Chile er staðsett. Þar er hún hins vegar alltaf mjög lágt á lofti. Myndin var tekin með VLT Survey Telescope (VST), fyrsta flokks 2,6 metra kortlagningarsjónauka með tvöfalt stærra sjónsvið en sem nemur flatarmáli fulls tungls á himninum. Myndin var sett saman úr nokkrum stökum ljósmyndum, meðal annars myndum sem teknar voru í gegnum síu sem hleypir í gegn ljósi frá glóandi vetni en það gerir rauðu gasskýin í þyrilörmum vetrarbrautarinnar sérlega áberandi.

Af mörgum stjörnumyndunarsvæðum í þyrilörmum Messier 33, stendur risaþokan NGC 604 upp úr. Hún er nærri 1500 ljósár í þvermál og því ein stærsta ljómþoka sem vitað er um. Hún nær yfir 40 sinnum stærra svæði en sýnilegi hluti annarar mun þekktari — og mun nálægari — Sverðþokunnar í Óríon.

Þríhyrningsþokan er þriðja stærsta vetrarbraut Grenndarhópsins, sem inniheldur Vetrarbrautina okkar, Andrómeduþokuna og um 50 aðrar smærri vetrarbrautir. Á heiðskírri tunglskinslausri nóttu má greina hana með berum augum og er hún raunar eitt fjarlægasta fyrirbæri sem sjá má án aðstoðar sjóntækja. Aðstæður til að skoða hana fara raunar batnandi, hægt og bítandi: Vetrarbrautin nálgast okkur á um 100.000 km hraða á klukkustund.

Þegar betur er að gáð á þessari fallegu mynd er ekki aðeins hægt að skoða vel þyrilarma vetrarbrautarinnar, heldur sést fjöldinn allur af enn fjarlægari vetrarbrautum fyrir aftan stjörnuskarann og glóandi skýin í NGC 598.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1424.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1424is
Nafn:Messier 33, NGC 598
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Spiral
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

VST tekur mynd af Þríhyrningsþokunni
VST tekur mynd af Þríhyrningsþokunni
Messier 33 in the northern constellation of Triangulum
Messier 33 in the northern constellation of Triangulum
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around Messier 33
Wide-field view of the sky around Messier 33
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the Triangulum Galaxy
Zooming in on the Triangulum Galaxy
texti aðeins á ensku
A close-up look at the Triangulum Galaxy
A close-up look at the Triangulum Galaxy
texti aðeins á ensku