eso1419is — Fréttatilkynning
Sprengt fyrir E-ELT
Athöfnin markar stórt skref fram á við í átt að stærsta stjörnusjónauka heims
19. júní 2014
Í dag fór fram athöfn sem markar stórt skref í átt að European Extremely Large Telescope (E-ELT), næsta risasjónauka ESO. Hluti hins 3000 metra háa fjalls Cerro Armazones var sprengdur en með því er byrjað að undirbúa jarðveginn fyrir smíði stærsta sjónauka heims fyrir sýnilegt og innrautt ljós.
Haldið var upp á þennan áfanga í Paranal stjörnustöðinni, um 20 km frá fjallstindinum sem sprengdur var. Athöfnina sóttu gestir frá Chile og aðildarríkjum ESO, sem og fulltrúar úr nærsamfélaginu, aðilar tengdir verkefninu og starfsfólk ESO. Athöfnin var send út í beinni útsendingu á netinu og má sjá upptöku af henni hér.
Það kom í hlut Jorge Maldonado, aðstoðarráðherra auðlindamála í Chile, að ýta á sprengihnappinn.
Með þessari fyrstu formlegu sprengingu á Cerro Armazones losaði chileska fyrirtækið ICAFAL Ingeniería y Construcción S.A. um 5000 rúmmetra af bergi af fjallstindinum. Þetta er engu að síður aðeins lítill hluti af því sem koma skal, því jafna þarf toppinn svo hann geti borið hinn 39 metra breiða sjónauka og risavaxna bygginguna utan um hann. Í heild verða 220 000 rúmmetra af jarðvegi fjarlægð til að búa til pláss fyrir pallinn undir E-ELT, sem er 150 metrar sinnum 300 metrar að stærð.
Undirbúningsvinna hófst á Cerro Armazones í mars 2014 og er búist við að hún taki 16 mánuði. Í þeirri vinnu er fólgin lagning og viðhald malbikaðs vegs, jarðvegsvinna á tindinum og smíði þjónustuskurðar upp á tindinn [1].
Fyrirhugað er að taka E-ELT í notkun árið 2024. Þá mun sjónaukinn hefja rannsóknir á mörgum af dýpstu stjarnfræðilegu spurningum samtímans. Búist er við að risasjónaukinn muni bylta rannsóknum á ókönnuðum hlutum alheimsins enda verður hann „stærsta auga jarðar“.
Skýringar
[1] Í byggingaráætlun E-ELT, 264 blaðsíðna riti þar sem farið er yfir alla verkþætti í smáatriðum auk ágrips, eru tilteknar allar þær byggingar sem reistar verða á staðnum. Í júní 2011 samþykkti ESO ráðið hönnun sjónaukans og í desember 2012 lagði það blessun sína yfir E-ELT verkefnið (sjá einnig ann13019, ann13033 og ann13042).
Frekari upplýsingar
ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
- Sjáðu upptöku af fyrstu sprengingunni
- Upplýsingar um E-ELT
- Teikningar af E-ELT
- Hönnun E-ELT
- E-ELT verkefnið
- Sýndarferðalag um Paranal og Armazones (fyrir vegavinnuna)
- Lagning vegar upp á Armazones hafin
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8969184
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org
Lars Lindberg Christensen
Head of ESO ePOD
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6761
Farsími: +49 173 3872 621
Tölvupóstur: lars@eso.org
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso1419is |
Nafn: | Cerro Armazones, Extremely Large Telescope |
Tegund: | Unspecified : Technology : Observatory : Telescope |
Facility: | Extremely Large Telescope |