Kids

eso1413is — Fréttatilkynning

Skarlatsrautt stjörnumyndunarský

16. apríl 2014

Á þessari nýju mynd frá La Silla stjörnustöð ESO í Chile sést gasský úr vetni sem kallast Gum 41. Í miðju þessarar fremur óþekktu geimþoku eru ungar, heitar og skærar stjörnur sem gefa frá sér orkuríka geislum sem örvar vetnisgasið í kring svo það gefur frá sér skarlatsrauðan einkennislit.

Á þessu svæði á suðurhimninum, í stjörnumerkinu Mannfáknum, eru margar bjartar geimþokur í fylgd heitra, nýfæddra stjarna sem urðu til úr vetnisgasinu. Nýfæddu stjörnurnar gefa frá sér orkuríka öfluga geislun sem jónar vetnið í umhverfinu svo það glóir og geislar frá sér áberandi rauðan lit sem einkennir stjörnumyndunarsvæði. Annað gott dæmi um samskonar fyrirbæri er Lónþokan (eso0936), risavaxið ský sem gefur líka frá sér skæran skarlatsrauðan lit.

Þokan á myndinni er í um 7.300 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Ástralski stjörnufræðingurinn Colin Gum fann hana á ljósmyndum sem teknar voru frá stjörnustöðinni á Stromlofjalli, skammt frá Canberra, og hafði hana með í skrá sinni yfir 84 ljómþokur sem birt var árið 1955. Gum 41 er í raun lítill hluti af mun stærra stjörnumyndunarskýi sem kallast Lambda Centauri geimþokan en er stundum kölluð gælunafninu Kjúklingurinn hlaupandi (sem var viðfangsefni eso1135). Gum lést fyrir aldur fram í skíðaslysi í Sviss árið 1960.

Á myndinni virðist Gum 41 nokkuð þykkt og bjart ský, en það er villandi. Ef geimferðalangur ferðaðist í gegnum þokuna, tæki hann eða hún sennilega ekki eftir því — jafnvel í návígi — því hún væru of dauf til að sjást með berum augum. Það skýrir ef til vill að hluta hvers vegna þetta annars stóra ský fannst ekki fyrr en upp úr miðri tuttugustu öld — yfirborðsbirtan er mjög lítil og rauði bjarminn sést ekki með berum augum.

Líklega er þetta besta mynd sem tekin hefur verið hingað til af Gum 41. Hún var sett saman úr gögnum frá Wide Field Imager (WFI) á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Myndin var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum bláar, grænar og rauðar síur, auk sérstakri síu sem dregur fram rauða vetnisbjarmann.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1413.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1413is
Nafn:Gum 41
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The star formation region Gum 41
The star formation region Gum 41
texti aðeins á ensku
The star formation region Gum 41 in the constellation of Centaurus
The star formation region Gum 41 in the constellation of Centaurus
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star formation region Gum 41
Zooming in on the star formation region Gum 41
texti aðeins á ensku
Panning across the star formation region Gum 41
Panning across the star formation region Gum 41
texti aðeins á ensku