eso1404is — Fréttatilkynning

Fyrsta veðurkortið af brúnum dverg

VLT sjónauki ESO kortleggur yfirborð nálægasta brúna dvergsins

29. janúar 2014

Alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga hefur notað Very Large Telescope ESO til að útbúa fyrsta veðurkortið af nálægasta brúna dvergnum við Jörðina. Stjörnufræðingarnir útbjuggu kort af dökkum og ljósum svæðum í lofthjúpi WISE J104915.57-531906.1B, sem gengur óformlega undir nafninu Luhman 16B og er annar tveggja nýuppgötvaðra brúnna dverga sem mynda par í aðeins sex ljósára fjarlægð frá sólinni. Niðurstöðurnar birtust þann 30. janúar 2014 í tímaritinu Nature.

Brúnir dvergar eru nokkurs konar millistig gasrisa eins og Júpíters og Satúrnusar og kaldra, daufra stjarna. Þeir eru ekki nógu efnismiklir til að kjarnasamruni geti átt sér stað í kjörnum þeirra og geisla aðeins frá sér daufu innrauðu ljósi. Fyrsti brúni dvergurinn fannst fyrir aðeins um tuttugu árum og hingað til hafa nokkur hundruð slík fyrirbæri fundist.

Nálægustu brúnu dvergarnir við sólkerfið okkar mynda par sem kallast Luhman 16AB [1] í aðeins sex ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Seglinu. Þetta er þriðja nálægasta stjörnukerfið við Jörðina á eftir Alfa Centauri og Barnardsstjörnunni en það fannst snemma árs 2013. Mælingar sýndu að daufari hnötturinn. Luhman 16B, breytti birtu sinni lítillega á þeim fáeinu klukkustundum sem hann snerist um sjálfan sig, sem var vísbendingar um kennileiti á yfirborðinu.

Nú hafa stjörnufræðignar ekki aðeins notað Very Large Telescope (VLT) ESO til að taka myndir af brúnu dvergunum, heldur líka til að kortleggja dökk og ljós smáatriði á yfirborði Luhman 16B.

„Eldri mælignar bentu til að brúnir dvergar gætu haft flekkótt yfirborð, en nú getum við í fyrsta sinn kortlagt þau. Fljótlega munum við því getað séð ský myndast, þróast og leysast upp á þessum brúna dvergi — að lokum gætu stjarnveðurfræðingar spáð fyrir um hvort gestur á Luhman 16B gæti átt von á heiðskírum eða skýjuðum himni,“ sagði Ian Crossfield (Max Planck Institute for Astronomy í Heidelberg í Þýskalandi), aðalhöfundur greinar um athuganirnar.

Stjörnufræðingarnir beittu snjallri aðferð til að kortleggja yfirborðið. Gerðar voru mælingar á brúnu dvergunum með CRIRES mælitækinu á VLT. Það gerði þeim ekki aðeins kleift að sjá birtubreytingar þegar Luhman 16B snerist, heldur líka ljós og dökk smáatriði stefna til og frá athugandanum. Með því að sameina allar mælingarnar gátu stjörnufræðingarnir útbúið kort af dökkum og ljósum blettum á yfirborðinu.

Lofthjúpar brúnna dverga eru keimlíkir lofthjúpum heitra gasrisa, svo með því að rannsaka brúna dverga, sem er tiltölulega auðvelt [2], geta stjörnufræðingar líka lært meira um lofthjúpa ungra gasrisa — sem margir munu finnast í framtíðinni með nýja SPHERE mælitækinu sem komið verður fyrir á VLT árið 2014.

„Kort okkar af brúna dvergnum færir okkur skrefi nær því markmiði, að skilja veðurkerfi í öðrum sólkerfum. Frá unga aldri var mér kennt að meta fegurð og notagildi korta. Það er spennandi að við séum að byrja að kortleggja fyrirbæri fyrir utan sólkerfið okkar,“ sagði Crossfield að lokum.

Skýringar

[1] Bandaríski stjörnufræðingurinn Kevin Luhman fann þetta par á innrauðum ljósmyndum sem teknar voru með WISE gervitunglinu. Parið er formlega kallað J104915.57-531906.01 en stuttnefni var álítið miklu þægilegra. Þar sem Luhman hafði þegar fundið fimmtán tvístirni var nafnið Luhman 16 tekið upp. Samkvæmt nafnahefð fyrir tvístirni er Luhman 16A bjartari hnötturinn en Luhman 16B sá daufari og saman er parið kallað Luhman 16AB.

[2] Heitir gasrisar eru mjög nálægt sínum móðurstjörnum, sem eru miklu bjartari. Það gerir næsta ómögulegt að mæla daufan bjarma reikistjörnunnar sem týnist í birtunni frá stjörnunni. Í tilviki brúnna dverga er ekkert sem yfirgnæfir þeirra eigin birtu, svo mun auðveldara er að gera nákvæmar mælingar á þeim.

Frekari upplýsingar

Þessi rannsókn er kynnt í greininni, „Mapping Patchy Clouds on a Nearby Brown Dwarf“ eftir Ian Crossfield o.fl., sem birtist í tímaritinu Nature.

Í rannsóknarteyminu eru I. J. M. Crossfield (Max Planck Institute for Astronomy [MPIA], Heidelberg í Þýskalandi), B. Biller (MPIA; Institute for Astronomy, University of Edinburgh í Bretlandi), J. Schlieder (MPIA), N. R. Deacon (MPIA), M. Bonnefoy (MPIA), D. Homeier (CRAL-ENS, Lyon í Frakklandi), F. Allard (CRAL-ENS), E. Buenzli (MPIA), Th. Henning (MPIA), W. Brandner (MPIA), B. Goldman (MPIA) og T. Kopytova (MPIA; International Max-Planck Research School for Astronomy and Cosmic Physics at the University of Heidelberg í Þýskalandi).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Ian Crossfield
Max Planck Institute for Astronomy
Heidelberg, Germany
Sími: +49 6221 528 406
Tölvupóstur: ianc@mpia.de

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1404.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1404is
Nafn:Luhman 16B, WISE J104915.57-531906.1
Tegund:Milky Way : Star : Type : Brown Dwarf
Facility:Very Large Telescope
Instruments:CRIRES
Science data:2014Natur.505..654C

Myndir

Yfirborðskort af Luhman 16B búið til úr mælingum VLT
Yfirborðskort af Luhman 16B búið til úr mælingum VLT
Yfirborðskort af Luhman 16B búið til úr mælingum VLT (merkt)
Yfirborðskort af Luhman 16B búið til úr mælingum VLT (merkt)
Teikning listmanns af Luhman 16B út frá mælingum VLT
Teikning listmanns af Luhman 16B út frá mælingum VLT
Yfirborðskort af Luhman 16B sem byggir á mælingum VLT
Yfirborðskort af Luhman 16B sem byggir á mælingum VLT
Yfirborðskort af Luhman 16B sem byggir á mælingum VLT
Yfirborðskort af Luhman 16B sem byggir á mælingum VLT
Víðmynd af himninum í kringum nálægu brúnu dvergana Luhman 16AB
Víðmynd af himninum í kringum nálægu brúnu dvergana Luhman 16AB
Surface map of Luhman 16B recreated from VLT observations
Surface map of Luhman 16B recreated from VLT observations
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Artist's impression of Luhman 16B recreated from VLT observations
Artist's impression of Luhman 16B recreated from VLT observations
texti aðeins á ensku
Surface map of Luhman 16B recreated from VLT observations
Surface map of Luhman 16B recreated from VLT observations
texti aðeins á ensku
Zooming in on the nearby brown dwarf Luhman 16B
Zooming in on the nearby brown dwarf Luhman 16B
texti aðeins á ensku
Flying among the closest stars to the Solar System
Flying among the closest stars to the Solar System
texti aðeins á ensku