eso1345is — Fréttatilkynning

Forseti Chile heimsækir Paranal til að tilkynna um afsal á landi undir E-ELT

28. október 2013

Við athöfn sem fram fór í gær í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile, afhenti Sebastián Piñera, forseti Chile, skjöl sem nýlega voru undirrituð þar sem ríkisstjórn Chile afsalar landinu í kringum Cerro Armazones til ESO. Cerro Armazones, sem er 3060 metra hár fjallstindur um 20 km frá Very Large Telescope ESO á Cerro Paranal, verður framtíðarheimili European Extremely Large Telescope (E-ELT).

Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO, Fernando Carmón, fulltrúi ESO í Chile og Ueli Weilenmann, varaframkvæmdarstjóri La Silla Paranal stjörnustöðvarinnar, tóku á móti Piñera forseta í Paranal stjörnustöðina. Með forsetanum í för var Alfredo Moreno, utanríkisráðherra Chile, auk fulltrúa frá sveitarstjórnum í kring.

Í heimsókninni var farið í túr um Cerro Paranal, heimili Very Large Telescope (VLT) ESO, öflugasta stjörnusjónauka heims. Forsetinn og Minero utanríkisráðherra heimsóttu líka stjórnherbergi VLT sem verður einnig starfsstöð E-ELT sjónaukans.

Við athöfnina lagði forsetinn áherslu á mikilvægi þess, að varðveita himinninn yfir norður Chile. „Fyrir Chile er varðveisla á landi okkar og himninum til að kanna alheiminn skuldbinding til framtíðar. Extremely Large Telescope á Cerro Armazones verður stærsta auga jarðar, auga sem mun skyggnast upp í himinninn yfir Chile og kafa ofan í leyndardóma alheimsins. Dagurinn í dag er mikilvægur fyrir nútíma stjarnvísindi, og um leið mikilvægur dagur fyrir Chile.“

Framkvæmdarstjóri ESO lét í ljós þakklæti sitt til ríkisstjórnar Chile við þennan mikilvæga áfanga: „Samstarf ESO og Chile, sem hófst fyrir 50 árum, hefur ekki aðeins reynst mjög árangursríkt og langvinnt, heldur hefur það veitt okkur spennandi tækifæri til framtíðar — fyrir Chile, aðildarríki ESO og framrás vísinda- og tækni. E-ELT er augljós sönnun fyrir því.“

Samkvæmt lagaskjölunum afselur ríkisstjórn Chile 189 ferkílómetra land í kringum Cerro Armazones fyrir byggingu E-ELT og gefur um leið eftir enn stærra svæði í kring til hálfrar aldar. Stærra svæðið er 362 ferkílómetrar að stærð og tryggir að E-ELT verður laus við ljósmengun og áhrif námavinnslu. Þegar E-ELT verður tekinn í notkun snemma næsta áratug, mun hann starfa sem hluti af Paranal stjörnustöð ESO.

Athöfnin var haldin í kjölfar samþykktar sem utanríkisráðherra Chile og ESO undirrituðu í október 2011.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Valentina Rodríguez
ESO education and Public Outreach Department
Santiago, Chile
Sími: +56 2 24639123
Tölvupóstur: vrodrigu@eso.org

Lars Lindberg Christensen
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6761
Farsími: +49 173 3872 621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1345.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1345is
Nafn:ESO Director General, President
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory
Unspecified : People
Facility:Extremely Large Telescope

Myndir

Chilean President visits Paranal to announce the transfer of the land for the E-ELT
Chilean President visits Paranal to announce the transfer of the land for the E-ELT
texti aðeins á ensku
Chilean President visits Paranal to announce the transfer of the land for the E-ELT
Chilean President visits Paranal to announce the transfer of the land for the E-ELT
texti aðeins á ensku