Kids

eso1312is — Fréttatilkynning

Vígsla ALMA markar upphaf nýrra tíma í stjarnvísindum

Byltingakenndur sjónauki gefur einstaka sýn á alheiminn

13. mars 2013

Á afskekktum stað í Andesfjöllum Chile fór í dag fram formleg vígsluathöfn Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). Með athöfninni lýkur formlega smíði allra stærstu hluta þessa risasjónauka og er hann nú orðinn að fullu starfhæfur. ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og austur Asíu í samvinnu við Chile.

Í dag tóku hinir þrír alþjóðlegu aðstandendur ALMA á móti meira en 500 manns í ALMA stjörnustöðinni í Atacamaeyðimörkinni í Chile, til að fagna lokum þessa velheppnaða verkefnis. Sebastián Piñera, forseti Chile, var heiðursgestur.

Meðal annarra háttsettra gesta má nefna Karlheinz Töchterle, vísinda- og tæknimálaráðherra Austurríkis, Petr Fiala, mennta-, æskulýðs- og íþróttamálaráðherra Tékklands, Nuno Crato, mennta- og vísindamálaráðherra Portúgals, Roger Genet, framkvæmdarstjóri rannsókna og nýsköpunar í Frakklandi, Nora van der Wenden, framkvæmdarstjóri rannsókna- og vísindamála í Hollandi, Bruno Moor, yfirmaður alþjóðlegs samstarfs í rannsókna og nýsköpun Sviss, Beatriz Barbuy fulltrúi Brasilíu, Anne Glover, aðalvísindaráðgjafi forseta Evrópuráðsins auk sendiherra Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Frakklands, Ítalíu, Þýskalands, Japans, Hollans, Portúgals, Svíþjóð, Sviss, Bretlands og Bandaríkjanna í Chile.

Forseti Chile, Sebastián Piñera, sagði af þessu tilefni: „Næturhimininn er ein af fjöllmörgum náttúruauðlindum okkar í Chile. Ég tel að vísindin hafi lagt fram mikilvægt framlag til þróunar í Chile á undanförnum árum. Ég er stoltur af alþjóðlegu stjarnvísindasamstarfi okkar en ALMA er nýjasti og stærsti afrakstur þess.“

Athöfnin var send út í beinni útsendingu á netinu en hana sóttu einnig fulltrúar aðildarríkja ALMA: Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO; Subra Suresh, forstjóri National Science Foundation í Bandaríkjunum; Teru Fukui aðstoðarráðherra mennta-, menningar-, íþrótta-, vísinda- og tæknimála í Japan og Thijs de Graauw, stjórnanda ALMA stjörnustöðvarinnar. Yfirmenn ALMA, starfsfólk og fulltrúar nærsamfélaga sóttu líka athöfnina.

Thijs de Graauw sagði frá væntingum sínum til ALMA. „Þökk sé elju og ótal vinnustundum vísinda- og tæknimanna í ALMA samstarfinu um allan heim, hefur ALMA þegar sýnt að hún er öflugasta millímetra/hálfsmillímetra stjörnstöð sem til er og gnæfir yfir allt annað sem við höfum haft áður. Við bíðum öll spennt eftir því að stjörnufræðingar nýti sér getu þessa magnaða tækis til fulls.“

„Þetta er dæm um þann mikla árangur mögulegt er að ná þegar stofnanir og ríki taka höndum saman, en það er einmitt sú aðferðarfræði sem liggur að baki öllum verkefnum ESO,“ bætti Tim de Zeeuw við. „Að beita sömu aðferð hnattrænt og vinna saman að svo stóru verkefni gerir stjörnufræðingum í aðildarríkjunum kleift að ástunda einstakar rannsóknir sem aðeins eru mögulegar með ALMA.“

Á morgun gefst völdum hópi gesta færi á að heimsækja starfsstöð sjónaukans sem er í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Skammt er síðan lokið var við að setja loftnet ALMA saman en síðustu sjö loftnetin af 66 eru í prófun áður en þau verða tekin í notkun. Þrátt fyrir að hafa ekki verið fullbúinn hefur sjónaukinn nú þegar veitt okkur fordæmislausa sýn á alheiminn [1].

ALMA sér alheiminn í ljósi sem mannsaugað greinir ekki og mun sýna okkur í smáatriðum fyrirbæri sem tengjast myndun stjarna, barnungum vetrarbrautum í árdaga alheims og reikistjörnur í mótun umhverfis fjarlægar stjörnur. Sjónaukinn mun einnig finna og mæla dreifingu sameinda sem finna má á milli stjarna í geimnum, sumar hverjar nauðsynlegar lífi.

Upp úr 1980 var stjörnustöðin upphaflega hugsuð sem þrjú mismunandi verkefni í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan en ákveðið var að sameina þau í einn sjónauka á tíunda áratugnum. Smíði sjónaukans hófst svo árið 2003. Heildarkostnaður við ALMA nemur um það bil 1,4 milljörðum bandaríkjadala, þar af er hlutfall ESO 37,5%.

ALMA samanstendur af 54 tólf metra og 12 smærri sjö metra loftnetum sem starfa saman sem einn sjónauki. Hvert loftnet safnar geislun utan úr geimnum og beinir í móttakara. Merkin frá loftnetunum eru síðan sameinuð og unnin með ALMA ofurtölvunni. Hægt er að raða loftnetunum 66 upp á mismunandi hátt og getur fjarlægðin milli loftneta verið á bilinu 150 metrar til 16 kílómetrar.

Í tilefni vígslunnar hafa aðstandendur ALMA, ESO, National Radio Astronomy Observatory og National Astronomical Observatory of Japan, gefið út 16 mínútna mynd sem kallast ALMA — In Search of Our Cosmic Origins, ljósmyndabók, bækling um stjörnufræði innfæddra á svæðinu og tvo bæklinga um verkefnið og framlög framkvæmdaraðila. Hægt er að nálgast og sækja allt efnið á rafrænu formi í tenglunum hér fyrir neðan.

Skýringar

[1] Eldri dæmi um rannsóknir ALMA má sjá í þessum fréttatilkynningunum: eso1216, eso1239, eso1301 og eso1313.

Frekari upplýsingar

ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. Í Evrópu er verkefnið fjármagnað af ESO, í Norður Ameríku af National Science Foundation (NSF) í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og í Austur Asíu af National Insitutes of Natural Sciences (NINS) í Japan í samstarfi við Academia Sinica (AS) í Taívan. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Lars Lindberg Christensen
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6761
Farsími: +49 173 3872 621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1312.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1312is
Nafn:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array

Myndir

ALMA röðin séð úr lofti
ALMA röðin séð úr lofti
Piñera forseti skoðar búnað ALMA
Piñera forseti skoðar búnað ALMA
Gestir í vígsluathöfn ALMA á flutningabíl
Gestir í vígsluathöfn ALMA á flutningabíl
Loftmynd af þjónustumiðstöðinni
Loftmynd af þjónustumiðstöðinni

Myndskeið

Kvikmyndin ALMA — In Search of our Cosmic Origins
Kvikmyndin ALMA — In Search of our Cosmic Origins
ESOcast 55: The ALMA Inauguration
ESOcast 55: The ALMA Inauguration
texti aðeins á ensku
Video News Release 38: The ALMA Inauguration
Video News Release 38: The ALMA Inauguration
texti aðeins á ensku
Svipmynd frá vígsluathöfn ALMA
Svipmynd frá vígsluathöfn ALMA
ALMA inauguration live streaming (recorded)
ALMA inauguration live streaming (recorded)
texti aðeins á ensku
International Space Station Astronauts Congratulate ALMA Partners
International Space Station Astronauts Congratulate ALMA Partners
texti aðeins á ensku