eso1251is — Fréttatilkynning

24 arma risi kannar bernsku vetrarbrauta

KMOS komið fyrir á Very Large Telescope ESO

12. desember 2012

Nýtt og öflugt tæki sem kallast KMOS hefur verið prófað á Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile með góðum árangri. KMOS er tæki í algjörum sérflokki því með því er hægt að skoða 24 fyrirbæri samtímis í innrauðu ljósi og kanna eiginleika allra í einu. Með tækinu fást nauðsynleg gögn sem hjálpa stjörnufræðingum að skilja hvernig vetrarbrautir uxu og þróuðust í árdaga alheims — miklu hraðar en áður. KMOS er afrakstur samstarfs háskóla og stofnana í Bretlandi og Þýskalandi í samvinnu við ESO.

Litrófsritinn K-band Multi-Object Spectrograph (KMOS), sem komið var fyrir í Very Large Telescope (VLT), sjónauka 1, í Paranal stjörnustöð ESO í Chile, hefur safnað ljósi í fyrsta sinn. Yfir fjögurra mánaða tímabil sem hófst í ágúst síðastliðinn var þetta tveggja og hálfs tonna tæki flutt frá Evrópu, sett saman á ný, prófað og komið fyrir í sjónaukanum eftir margra mánaða skipulagningu. Þetta markaði hápunktinn á margra ára vinnu starfshópa í Bretlandi og Þýskalandi og hjá ESO við hönnun og smíði tækisins. KMOS er annað tækið í annarri kynslóð tækja sem komið er fyrir í VLT sjónauka ESO (hið fyrsta var X-shotter, sjá eso0920).

„KMOS er spennandi ný viðbót við mælitæki VLT sjónauka ESO. Það að fyrstu mælingar tækisins hafi lukkast svona vel er til vitnis um elju stórs hóps verkfræðinga og vísindamanna. Hópurinn hlakkar til þeirra mörgu uppgötvana sem KMOS tækið mun gera í framtíðinni þegar það er komið í fulla notkun,“ segir Ray Sharples (University of Durham í Bretlandi), meðstjórnandi KMOS.

Stjörnufræðingar þurfa þrennt til að rannsaka barnæsku vetrarbrauta: Að sjá þær í innrauðu [1], að greina mörg fyrirbæri í einu og skrásetja hvernig eiginleikar hvers og eins breytist milli staða [2]. Allt þetta getur KMOS — í einu vetfangi. Þar til nú gátu stjörnufræðingar annað hvort greint mörg fyrirbæri í einu eða rannsakað aðeins eitt fyrirbæri í smáatriðum. Því getur nákvæm rannsókn á þessum fyrirbærum tekið mörg ár, sér í lagi ef um stórt safn er að ræða. Með KMOS er hins vegar hægt að kortleggja eiginleika margra fyrirbæra samtímis svo hægt er að ljúka samskonar rannsóknum á fáeinum mánuðum.

Á KMOS eru vélararmar sem hægt er að koma fyrir á hárréttum stöðum til að fanga ljós frá 24 fjarlægum vetrarbrautum, eða öðrum fyrirbærum, samtímis. Hver armur kemur 14 x 14 pixla neti ofan á fyrirbærið og safnar hver þessara 196 punkta ljósi frá mismunandi hlutum vetrarbrautarinnar og klýfur í litróf. Síðan eru þessi daufu merki skrásett með mjög næmum innrauðum nemum. Í þessu einstaklega flókna tæki eru yfir þúsund optísk yfirborð sem framleiða varð með mikilli nákvæmni [3].

„Þegar verkefnið hófst, fyrir átta árum, man ég hversu efins ég var vegna þess hve flókið tæki KMOS er. Í dag eru rannsóknir hafnar og tækið virkar eins og í sögu,“ segir Jeff Priard, starfsmaður ESO sem ber ábyrgð á tækinu. „Það sem meira er hefur það verið virkilega ánægjulegt að vinna með KMOS hópnum. Fólkið er fyrsta flokks og við höfðum mikla ánægju af því að vinna saman.“

Hönnun og smíði KMOS var í höndum ýmissa stofnanna í samvinnu við ESO. Þessar stofnanir eru: Centre for Advanced Instrumentation, Department of Physics, Durham University í Durham í Bretlandi, Universitätssternwarte München í München í Þýskalandi, Science and Technology Facilities Council's UK Astronomy Technology Centre, Royal Observatory í Edinborg í Bretlandi, Max-Planck-Institut für Extraterrestrische Physik í Garching í Þýskalandi, Sub-Department of Astrophysics, University of Oxford í Oxford í Bretlandi.

„Ég er spenntur fyrir þeim frábæru möguleikum sem KMOS hefur upp á bjóða í rannsóknum á fjarlægum vetrarbrautum. Að geta rannsakað 24 vetrarbrautir samtímis mun gera okkur kleift að byggja upp stærra og betra safn af vetrarbrautum en nokkru sinni fyrr. Samstarfið milli allra aðila og ESO gæti ekki hafa verið betra og er ég mjög þakklátur öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til smíði KMOS,“ segir Ralf Bender (Universitätssternwarte München í Þýskalandi), meðrannsakandi.

Skýringar

[1] Útþensla alheimsins hnikar ljósi yfir á lengri bylgjulengdir. Það þýðir að stór hluti ljóssins frá fjarlægum vetrarbrautum, sem stjörnufræðingar hafa áhuga á að rannsaka, hefur færst frá sýnilegum bylgjulengdum yfir í lengri innrauðar bylgjulengdir. Til að rannsaka þróun vetrarbrauta eru innrauð mælitæki þess vegna nauðsynleg.

[2] Þessi tækni, þekkt sem heilsviðs-litrófsgreining, gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka samtímis eiginleika mismunandi hluta fyrirbæris, eins og vetrarbrautar, til að sjá hvernig hún snýst og mæla massann. Það gerir stjörnufræðingum einnig kleift að mæla efnasamsetningu og aðra eðliseiginleika á mismunandi svæðum í fyrirbærinu.

[3] Starfrækja þarf mestan hluta vélbúnaðar KMOS í –140 gráðum á Celsíus sem er tæknilega mjög krefjandi.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Ray Sharples
University of Durham
Durham, UK
Sími: +44 191 334 3719
Tölvupóstur: r.m.sharples@durham.ac.uk

Ralf Bender
Universitäts-Sternwarte München and Max-Planck-Institut für Extraterrestrische Physik
Munich, Germany
Sími: +49 89 2180 5999
Tölvupóstur: bender@usm.lmu.de

Suzanne Ramsay
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6665
Tölvupóstur: sramsay@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1251.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1251is
Nafn:First Light, KMOS
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Instrument
Facility:Very Large Telescope

Myndir

KMOS á Very Large Telescope þegar fyrstu mælingar fóru fram
KMOS á Very Large Telescope þegar fyrstu mælingar fóru fram
KMOS á Very Large Telescope þegar fyrstu mælingar fóru fram
KMOS á Very Large Telescope þegar fyrstu mælingar fóru fram
KMOS teymið þegar fyrstu mælingar fóru fram
KMOS teymið þegar fyrstu mælingar fóru fram