Kids

eso1219is — Fréttatilkynning

Horft inn í ryk í belti Óríons

2. maí 2012

Á nýrri mynd af svæðinu í kringum endurskinsþokuna Messier 78, sem er skammt norður af Sverðþokunni í Óríon, sjást ský úr geimryki sem þræða sig í gegnum þokuna líkt og perlufesti. Mælingarnar voru gerðar með Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukanum [1] en þær sýna varmageislun rykagnanna og hjálpa stjörnufræðingum að sjá hvar nýjar stjörnur eru að myndast.

Ryk gæti hljómað heldur óspennandi og leiðinlegt — óhreinindi sem fela fegurð fyrirbæris. Þessi nýja mynd af Messier 78 og nágrenni, sem sýnir hálfsmillímetrageislun frá ryki í geimnum, sýnir hins vegar að ryk getur þvert á móti verið mjög heillandi. Ryk er stjörnufræðingum mjög mikilvægt því þétt ský úr gasi og ryki eru fæðingarstaðir nýrra stjarna.

Á miðri mynd sést Messier 78 sem einnig er þekkt sem NGC 2068. Í sýnilegu ljósi sést að hún er endurskinsþoka sem þýðir að rykið í henni endurvarpar ljósi skærra stjarna í kring svo hún fær á sig fölbláan blæ. Mælingar APEX sjónaukans eru appelsíngular og hafa verið lagðar ofan á mynd í sýnilegu ljósi. APEX mælir lengri bylgjulengdir svo hann greinir daufan bjarma frá þéttum og köldum rykkekkjum sem sumir eru meira en -250°C kaldir. Í sýnilegu ljósi er þetta ryk dimmt og skyggir á og er þá einmitt komin ástæða þess að sjónaukar á borð við APEX eru mikilvægir til að rannsaka ryksýin sem stjörnurnar verða til í.

Ein rykslæða sem APEX sér er mjög dimm í sýnilegu ljósi og klýfur Messier 78 i tvennt. Þessi þétta rykslæða er fyrir framan endurskinsþokuna og hleypir bláa ljósinu ekki í gegn. Annað áberandi glóandi ryksvæði sem APEX sér liggur að hluta yfir sýnilega ljósinu frá neðri brún Messier 78. Samsvarandi rykslæða sést ekki í sýnilegu ljósi svo við getum dregið þá ályktun að hún sé fyrir aftan endurskinsþokuna.

Mælingar á gasinu í skýjunum sýna að það streymir út úr sumum kekkjunum með ógnarhraða. Gasið streymir út frá ungum stjörnum á meðan þær eru enn að myndast úr skýinu í kring. Þetta er sönnun fyrir því að kekkirnir eru virkir myndunarstaðir stjarna.

Efst á myndinni er önnur endurskinsþoka, NGC 2071. Neðri svæðin á myndinni geyma aðeins ungar lágmassastjörnur en NGC 2071 inniheldur unga og massameiri stjörnu sem er talin fimm sinnum massameiri en sólin og að finna í bjartasta svæðinu í mælingum APEX.

Þau Thomas Stanke (ESO), Tom Megeath (Toledoháskóla í Bandaríkjunum og Amy Stutz (Max Planck stofnunni í stjörnufræði í Heidelberg í Þýskalandi) gerðu mælingarnar með APEX sem notaðar voru í þessa mynd. Frekari upplýsingar um svæðið í sýnilegu ljósi, þar á meðal upplýsingar um nýuppgötvaða — og mjög breytilega — þoku sem nefnd er þoka McNeils, er að finna í eso1105.

Skýringar

[1] APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. APEX er undanfari Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), næstu kynslóðar hálfsmillímetrasjónauka, sem er í byggingu og að störfum á sömu hásléttu.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Thomas Stanke
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6116
Tölvupóstur: tstanke@eso.org

Douglas Pierce-Price
ESO ALMA/APEX Public Information Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6759
Tölvupóstur: dpiercep@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1219.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1219is
Nafn:M 78, Messier 78, NGC 2068, Orion
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Reflection
Facility:Atacama Pathfinder Experiment

Myndir

Geimryksský í Messier 78
Geimryksský í Messier 78
Endurskinsþokan Messier 78 í Óríon
Endurskinsþokan Messier 78 í Óríon
Horft inn í ryk nærri belti Óríons (gagnasvið)
Horft inn í ryk nærri belti Óríons (gagnasvið)

Myndskeið

Horft inn í ryk nærri belti Óríons (þysjað)
Horft inn í ryk nærri belti Óríons (þysjað)
Horft inn í ryk nærri belti Óríons (skimað)
Horft inn í ryk nærri belti Óríons (skimað)

Samanburður á myndum

Horft inn í ryk nærri belti Óríons (samanburður)
Horft inn í ryk nærri belti Óríons (samanburður)