eso1148is — Fréttatilkynning

Vampírustjarna ljóstrar upp eigin leyndarmáli

7. desember 2011

Stjörnufræðingar hafa náð bestu mynd sem tekin hefur verið af stjörnu sem hefur glatað stórum hluta massa síns til fylgistjörnu sinnar. Með því að beina ljósgeislum sem safnað var með fjórum sjónaukum í Paranal stjörnustöðinni í einn punkt, gátu stjörnufræðingar útbúið 130 metra breiðan sýndarsjónauka sem var 50 sinnum skarpari en Hubblessjónauki NASA og ESA. Niðurstöðurnar eru óvæntar því þær sýna að flutningur efnis frá annarri stjörnunni til hinnar er mun rólegri en búist var við.

„Við getum nú blandað saman ljósi frá fjórum VLT sjónaukum og útbúið hnífskarpar myndir, miklu hraðar en áður“ segir Nicolas Blind (IPAG í Grenoble í Frakklandi), aðalhöfundur greinar um rannsóknina. „Myndirnar eru svo skýrar og skarpar að við sjáum ekki aðeins stjörnurnar hringsóla hvor um aðra, heldur getum við líka mælt stærð stærri stjörnunnar nákvæmlega.“

Stjörnufræðingarnir beindu sjónum sínum [1] að SS Leporis, kerfi tveggja stjarna í stjörnumerkinu Héranum sem hafa 260 daga umferðartíma. Fjarlægðin milli stjarnanna er litlu meiri en bilið milli jarðar og sólar. Væri stærri stjarnan í miðju okkar sólkerfis næði hún út að braut Merkúríusar og ríflega það, eða sem samsvarar fjórðungi af fjarlægðinni milli stjarnanna. Sökum þess hefur heitari stjarnan nú þegar tekið til sín um það bil helminginn af massa stærri stjörnunnar.

„Við vissum að þetta var óvenjulegt tvístirni og að efni streymdi frá annarri stjörnunni yfir til hinnar“ segir Henri Boffin, meðhöfundur greinarinnar og stjörnufræðingur hjá ESO. „Við fundum hins vegar út að flutningur efnisins er gerólíkur þeim líkönum sem við höfum af slíku ferli. „Bit“ vampírustjörnunnar er milt en mjög áhrifaríkt, ef þannig má að orði komast.“

Mælingarnar nýju eru nógu nákvæmar til að sýna að risastjarnan er minni en áður var talið. Það þýðir að erfiðara er að útskýra vel hvernig rauði risinn hefur glatað sínu efni til förunautsins. Nú telja stjörnufræðingar að efnið hljóti að hafa borist frá risastjörnunni til heitari fylgistjörnunnar með stjörnuvindi en ekki streymt stöðug frá annarri stjörnunni til hinnar.

„Mælingarnar sýna okkur þá nýju möguleika sem Very Large Telescope víxlmælirinn býður til ljósmyndunar. Þær ryðja brautina fyrir frekari rannsóknir á heillandi tvístirnakerfum“ segir Jean-Philippe Berger, meðhöfundur greinarinnar, að lokum.

Skýringar

[1] Myndirnar voru búnar til úr mælingum sem gerðar voru með Very Large Telescope víxlmælinum (VLTI) í Paranal stjörnustöð ESO. Notaðir voru fjórir 1,8 metra hjálparsjónaukar sem beindu ljósinu í nýtt mælitæki sem kallast PIONIER (sjá ann11021).

Þróun PIONIER fór fram við LAOG/IPAG í Grenoble í Frakklandi og er tímabundið í notkun í Paranal stjörnustöðinni. PIONIER er fjármagnað af Université Joseph Fourier, IPAG, INSU-CNRS (ASHRA-PNPS-PNP) ANR 2G-VLTI ANR Exozodi. IPAG er hluti af Grenoble Observatory (OSUG).

Langt bil var á milli sjónaukanna en verkfræðingar ESO urðu að hafa svo nákvæma stjórn á fjarlægðinni að ekki skeikaði meira en sem nemur hundraðasta hluta af þykkt mannshárs. Ljósinu var síðan beint í mitt PIONIER mælitækið í gegnum merkilega ljósrás, sem er minni en kreditkort, sem færði ljósgeislana frá sjónaukunum fjórum nákvæmlega saman sem olli samliðun milli þeirra. Afraksturinn er sjónaukaröð með greinigæði 130 metra breiðs „sýndarsjónauka“ í stað greinigæða staks 1,8 metra sjónauka og takmarkast einungis á bilinu milli sjónaukanna.

Greinigæði Hubble geimsjónauka NASA og ESA er um það bil 50 millíbogasekúndur en með VLTI er hægt að ná einnar millíbogasekúndu greinigæðum sem samsvarar sýndarstærð geimfara á yfirborði tunglsins frá jörðu séð.

Frekari upplýsingar

Sagt er frá þessari rannsókn í greininni „An incisive look at the symbiotic star SS Leporis — Milli-arcsecond imaging with PIONIER/VLTI“ eftir N. Blind et al. sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknahópnum eru N. Blind (UJF-Grenoble 1/CNRS-INSU, Institut de Planétologie et d’Astrophysique de Grenoble í Frakklandi [IPAG]), H.M.J. Boffin (ESO í Chile), J.-P. Berger (ESO í Chile), J.-B. Le Bouquin (IPAG í Frakklandi), A. Mérand (ESO í Chile), B. Lazare (IPAG í Frakklandi) og G. Zins (IPAG í Frakklandi).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Nicolas Blind
IPAG
Grenoble, France
Sími: +33 4 76 63 57 30
Tölvupóstur: nicolas.blind@obs.ujf-grenoble.fr

Jean-Baptiste Le Bouquin
IPAG
Grenoble, France
Sími: +33 4 76 63 58 93
Tölvupóstur: jean-baptiste.lebouquin@obs.ujf-grenoble.fr

Henri Boffin
ESO
Santiago, Chile
Sími: +56 2 463 3126
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Jean-Philippe Berger
ESO
Santiago, Chile
Sími: +56 2 463 3103
Tölvupóstur: jpberger@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1148.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1148is
Nafn:SS Lep
Tegund:Milky Way : Star : Type : Variable
Facility:Very Large Telescope, Very Large Telescope Interferometer
Instruments:AMBER, PIONIER
Science data:2011A&A...536A..55B

Myndir

The unusual double star SS Leporis
The unusual double star SS Leporis
texti aðeins á ensku
A unusual double star in the constellation of Lepus
A unusual double star in the constellation of Lepus
texti aðeins á ensku
Wide field view of the unusual double star SS Leporis
Wide field view of the unusual double star SS Leporis
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the unusual double star SS Leporis
Zooming in on the unusual double star SS Leporis
texti aðeins á ensku
The vampire double star SS Leporis
The vampire double star SS Leporis
texti aðeins á ensku
The vampire double star SS Leporis (unannotated)
The vampire double star SS Leporis (unannotated)
texti aðeins á ensku