eso1139is — Fréttatilkynning

ESO og Chile undirrita samkomulag um E-ELT

13. október 2011

Við athöfn sem fram fór í Santiago í Chile í dag undirrituðu Alfredo Moreno, utanríkisráðherra Chile, og Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO, samkomulag um European Extremely Large Telescope. Þetta samkomulag milli ESO og ríkisstjórnar Chile felur í sér gjöf á landi undir sjónaukann, vernd svæðisins í kringum hann til langframa og stuðning ríkisstjórnar Chile fyrir uppbyggingu E-ELT.

European Extremely Large Telescope (E-ELT) mun hafa 40 metra breiðan safnspegil og hefur hann þess vegna verið kallaður stærsta auga jarðar. Í mars árið 2010 valdi ESO fjallstind Cerro Armazones á Antofagasta svæðinu í Chile sem stað undir E-ELT í framtíðinni. Nýi sjónaukinn verður hluti af Paranal stjörnustöðinni en hún inniheldur Very Large Telescope (VLT), VLT víxlmælinn og tvo kortlagningarsjónauka. Cerro Paranal er aðeins 20 kílómetrum frá Cerro Armazones svo innviðir eru að miklu leyti þegar til staðar.

Undirritun þessa samkomulags er annað mikilvægt framlag til vísinda- og tæknisamstarfs Chile og ESO sem hófst árið 1963 þegar fyrsta samkomulagið var undirritað. Síðan hafa ESO og CHile unnið saman að mörgum stjarnvísindaverkefnum í tækja- og tækniþróun, þjálfun vísindamanna, verkfræðinga og tæknimanna, með það að markmiði að efla samkeppnishæfni stjarnvísinda í Chile sem er eitt af leiðandi stjarnvísindasvæðum heims.

„Samkomulagið gerir okkur kleift að byggja upp E-ELT sem hluta af VLT kerfinu. Það eflir ennfremur þátttöku okkar í chilesku samfélagi og opnar möguleika á nýjum og merkum uppgötvunum og nýrri tækniþróun“ sagði Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO.

Í samkomulaginu felst að Chile ánafnar ESO 189 km2 landsvæði í kringum Cerro Armazones fyrir E-ELT og veitir auk þess sérstakt leyfi til 50 ára til notkunar á svæðinu í kring en við það bætast 362 km2 af landi að auki. Það tryggir E-ELT vernd gegn ljósmengun og námuvinnslu. Landið í kringum Cerro Paranal er 719 km2 svo í heild er verndarsvæðið í kringum mannvirkin á Paranal og Armazones því 1.270 km2.

„Í Chile er heiðríkasti himinn í heimi og í landinu eru mikilvægustu miðstöðvar rannsókna í stjarnvísindum í heiminum“ sagði Alfredo Moreno, utanríkisráðherra Chile. „Þetta er hluti af náttúruauðlindum okkar og framlagi okkar til mannkynsins. Návist ESO og E-ELT verkefnisins í landi okkar er til marks um áhuga á Chile til að efla og styðja þróun í tækni og vísindum.“

Ríkisstjórn Chile lýsti einnig yfir vilja sínum til að styðja frekari uppbyggingu á svæðinu, til dæmis með viðhaldi á vegakerfinu sem tengir stjörnustöðvarnar við Antofagasta, aðstoð við að tengja Paranal stjörnustöðina við rafveitukerfi landsins og skoðun á mögulegum lausnum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Í staðinn veitir ESO tíu prósent af mælingartíma E-ELT sjónaukans til umsókna frá chileskum stjörnufræðingum. Að minnsta kosti þremur fjórðu af þessum tíma verður ráðstafað til umsókna frá chileskum stjörnufræðingum sem eiga í samstarfi við stjörnufræðinga frá aðildarríkjum ESO. Þetta verður til þess að efla alþjóðlegt samstarf milli stjörnufræðinga, nokkuð sem er mjög mikilvægt atriði í jafn risavöxnu vísindaverkefni og E-ELT.

E-ELT er stærsta verkefni ESO hingað til. Áætlað er að vísindarannsóknir hefjist snemma næsa áratug. Sjónaukinn mun kljást við helstu stjarnvísindalegu álitaefni okkar tíma og leita að reikistjörnum á borð við jörðina í lífbeltum annarra sólstjarna þar sem líf gæti þrifist.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Massimo Tarenghi
ESO Representative in Chile
Santiago, Chile
Sími: +56 2 463 3143
Farsími: +56 9 98 95 81 25
Tölvupóstur: mtarengh@eso.org

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49-89-3200-6761
Farsími: +49-173-3872-621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1139.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1139is
Nafn:Cerro Armazones, Extremely Large Telescope
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory
Facility:Extremely Large Telescope

Myndir

Land around E-ELT and VLT (artist’s impression)
Land around E-ELT and VLT (artist’s impression)
texti aðeins á ensku
Signature of the agreement for the donation of land for the E-ELT
Signature of the agreement for the donation of land for the E-ELT
texti aðeins á ensku
Land around E-ELT and VLT (artist’s impression)
Land around E-ELT and VLT (artist’s impression)
texti aðeins á ensku
Historical photo from the early site testing of Armazones
Historical photo from the early site testing of Armazones
texti aðeins á ensku
The E-ELT on Cerro Armazones (artist's impression)
The E-ELT on Cerro Armazones (artist's impression)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

The area around Paranal and Armazones
The area around Paranal and Armazones
texti aðeins á ensku