eso1129is — Fréttatilkynning

Þyrilþoka í Ljóninu

10. ágúst 2011

Hér sést þyrilþokan NGC 3521 sem er í um 35 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Ljóninu á mynd sem tekin var með Very Large Telescope ESO. Vetrarbrautin er um 50.000 ljósár á breidd og geymir bjartan og þéttan kjarna sem er umlukinn fallegum þyrilörmum.

Langir þyrilarmar settir stjörnumyndunarsvæðum og rykskýjum eru svipsterkustu einkenni hinnar björtu vetrarbrautar NGC 3521. Armarnir eru fremur óreglulegir og blettóttir og því er NGC 3521 dæmi um rytjulega þyrilþoku. Þessir „hnoðrar“ eru ólíkir tignarlegustu þyrilörmunum eins og þeim sem prýða hina frægu M51 eða Svelginn, sem Charles Messier uppgötvaði.

NGC 3521 er björt og tiltölulega nálæg og sést því fremur auðveldlega með litlum stjörnusjónaukum eins og Messier notaði sjálfur á 18. öld þegar hann skrásetti fjölda þokukenndra fyrirbæra sem minntu hann á halastjörnur. Svo virðist sem þessi þyrilþoka hafi farið framhjá franska stjörnufræðingnum, eins ótrúlega og það hljómar, en hann skráði hjá sér nokkrar aðrar álíka bjartar vetrarbrautir í Ljónsmerkinu.

Árið 1784, þegar Messier birti lokaútgáfu skrár sinnar, uppgötvaði annar frægur stjörnufræðingur, William Herschel þokuna NGC 3521, þegar hann kortlagði þokukennd fyrirbæri á Norðurhimninum. Herschel notaði stóran sjónauka með 47 cm ljósopi og sá „bjarta miðju og þoku í kring“ samkvæmt því sem hann skráði hjá sér.

Á þessari nýju mynd VLT birtast þyrilarmarnir í stað óljósrar þokunnar sem Herschel sá. Við miðjuna ráða eldri rauðleitar stjörnur ríkjum en í þyrilörmunum lengra frá kjarnanum eru ungar, heitar og bláar stjörnur.

Oleg Maliy, þátttakandi í Hidden Treasures 2010 stjörnuljósmyndakeppni ESO, fann gögnin frá FORS1 mælitækinu á VLT sjónauka ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile, sem notuð voru til að útbúa þessa fallegu mynd. Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum síu sem hleyptu í gegn bláu ljósi (litað blátt), gulu/grænu ljósi (litað grænt) og nær-innrauðu ljósi (litað rautt). Heildarlýsingartími í gegnum hverja síu var 300 sekúndur. Mynd Olegs af NGC 3521 var hátt metin í keppninni en næstum 100 myndir bárust í hana.

Skýringar

Í Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppni ESO gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði sem þurfti á myndvinnslu þátttakenda að halda. Hægt er að kynna sér betur Hidden Treasures á http://www.eso.org/public/outreach/hiddentreasures/.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1129.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1129is
Nafn:NGC 3521
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Spiral
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS1

Myndir

A spiral galaxy in Leo
A spiral galaxy in Leo
texti aðeins á ensku
The spiral galaxy NGC 3521 in the constellation of Leo
The spiral galaxy NGC 3521 in the constellation of Leo
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around NGC 3521
Wide-field view of the sky around NGC 3521
texti aðeins á ensku