eso1114is — Fréttatilkynning

Vetrarbrautatvíeyki í ójafnvægi

20. apríl 2011

Á þessari mynd, sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile, sést tvíeyki vetrarbrauta sem bera mörg forvitnileg merki þess að hafa orðið fyrir truflandi áhrifum frá þyngdartogi hvor annarrar. Þyngdarkrafturinn hefur aflagað þyrilarma annarrar vetrarbrautarinnar, NGC 3169, en dregið fram rykslæðurnar í hinni, NGC 3166. Á meðan fylgist þriðja vetrarbrautin, NGC 3169, sem er öllu smærri, neðarlega til hægri, með hinum beygja sig og bukta fyrir þyngdarkraftinum.

Vetrarbrautahópurinn sem hér sést er í um 70 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Sextantinum. Enski stjörnufræðingurinn William Herschel uppgötvaði hópinn árið 1783 en stjarnvísindamenn nútímans hafa komist að raun um að aðeins 50.000 ljósár skilja milli NGC 3169 (vinstri) og NGC 3166 (hægri). Þessi vegalengd er aðeins um helmingur af þvermáli Vetrarbrautarinnar. Þegar svo stutt er á milli getur þyngdarkrafturinn aflagað vetrarbrautirnar.

Þyrilþokur eins og NGC 3169 og NGC 3166 hafa arma úr stjörnum og ryki sem umlykja glóandi kjarna. Gerist þær of nærgöngular við önnur massamikil fyrirbæri getur þetta fallega mynstur orðið að einum hrærigrauti en sú afmyndun er undanfari samruna vetrarbrauta í eina stóra. Hingað til hefur gagnverkun NGC 3169 og NGC 3166 aðeins gert vetrarbrautirnar svipsterkari. Greiðst hefur úr skærum þyrilörmum NGC 3169 sem innihalda stórar, bjartar, ungar, bláar stjörnur en einnig má sjá hvernig talsvert magn gass hefur togast út frá skífunni. Í NGC 3166 sést að rykslæðurnar sem marka venjulega útlínur þyrilarmanna eru allar í óreiðu. Í NGC 3166 er sömuleiðis fremur lítil stjörnumyndun í gangi, ólíkt bláa nágrannanum.

Í NGC 3169 glittir líka í daufan gulan ljósblett í gegnum dökka rykslæðu, vinstra megin við miðju vetrarbrautarinnar [1]. Þessi blettur er leif stjörnu sem sást springa árið 2003 og kallast SN 2003cg. Sprengistjarnan var af gerð Ia en þær verða þegar þéttar, heitar stjörnur, svokallaðir hvítir dvergar — leifar meðalstórra stjarna eins og sólarinnar — sjúga til sín gas frá nálægum förunauti. Við þetta þyngjast þær svo mikið að þær springa að lokum í tætlur í óðakjarnahvörfum.

Ljósmyndin sem hér sést var uninn úr gögnum sem Igor Chekalin, þátttakandi í Hidden Treasures 2010 stjörnuljósmyndakeppni ESO, fann í gagnasafni samtakanna. Chekalin hlaut fyrstu verðlaun í keppninni fyrir aðra ljósmynd en mynd hans af þessum vetrarbrautum þótt næst best af nærri 100 ljósmyndum sem bárust í keppnina [2].

Skýringar

[1] Aðrir bjartir ljósblettir, eins og sá við vinstri enda þyrilarmsins sem liggur undir kjarna NGC 3169, eru stjörnur í Vetrarbrautinni okkar sem eru nánast í sömu sjónlínu við okkur og vetrarbrautirnar.

[2] Í Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppni ESO gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði sem þurfti á myndvinnslu þátttakenda að halda. Hægt er að kynna sér betur Hidden Treasures á http://www.eso.org/public/outreach/hiddentreasures/.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helg Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1114.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1114is
Nafn:NGC 3165, NGC 3169
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Interacting
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The disturbed galactic duo NGC 3169 and NGC 3166
The disturbed galactic duo NGC 3169 and NGC 3166
texti aðeins á ensku
NGC 3169 and NGC 3166 in the constellation of Sextans
NGC 3169 and NGC 3166 in the constellation of Sextans
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around NGC 3169 and NGC 3166
Wide-field view of the sky around NGC 3169 and NGC 3166
texti aðeins á ensku
Supernova 2003cg in the galaxy NGC 3169
Supernova 2003cg in the galaxy NGC 3169
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the disturbed galactic duo NGC 3169 and NGC 3166
Zooming in on the disturbed galactic duo NGC 3169 and NGC 3166
texti aðeins á ensku