eso1109is — Fréttatilkynning

Tilþrifamikil stjörnumyndun

Nýmyndaðar stjörnur gera usla í hreiðrum sínum

16. mars 2011

Á nýrri nærmynd sem tekin var með Very Large Telescope ESO sjást þau miklu áhrif sem nýmynduð stjarna hefur á gasið og rykið sem myndaði hana. Þótt stjarnan sjálf sjáist ekki á myndinni rekst efni sem hún varpar frá sér á gas- og rykský í kring og myndar undarlegt samspil glóandi hringboga, sletta og ráka.

NGC 6729 er hluti eins nálægasta stjörnumyndunarsvæðis við jörðina og er því eitt hið mest rannsakaða. Á þessari nýju nærmynd sem tekin var með Very Large Telescope ESO sést hluti þessa einkennilega en heillandi svæðis (sjá má víðmynd hér eso1027). Það var Sergey Stepanenko, þátttakandi í Hidden Treasures keppninni [1], sem fann gögnin sem þessi mynd er búin til úr í gagnasafni ESO. Mynd Sergeys af NGC 6729 varð í þriðja sæti keppninnar.

Stjörnur myndast djúpt innan í sameindaskýjum. Fyrstu stigin í þróun þeirra sjást ekki í sýnilegu ljósi með sjónaukum því rykið byrgir okkur sýn. Á þessari mynd eru mjög ungar stjörnur ofarlega til vinstri. Þótt þær sjáist ekki beint eru áhrif þeirra á umhverfið greinileg. Hvítvoðungarnir senda frá sér efnisstróka á miklum hraða — allt að milljón km hraða á sekúndu — sem rekst á gasið í kring og myndar höggbylgjur. Höggbylgjurnar valda því að gasið glóir og myndar glóandi hringboga og slettur sem eru sérkennileg á litinn, svonefnd Herbig-Haro fyrirbæri [2].

Á myndinni sjást Herbig-Haro fyribærin mynda tvær línur sem líklega marka stefnu efnisstrókanna. Önnur línan byrjar ofarlega til vinstri og endar í björtum hringlaga hópi glóandi sletta og hringboga rétt fyrir neðan miðju. Hin byrjar nærri efri brún myndarinnar, vinstra megin, og teygir sig niður í átt að miðjunni hægra megin. Bjarta sverðlaga kennileitið ofarlega vinstra megin er ekki Herbig-Haro fyrirbæri en má líklega rekja til ljóss frá stjörnum sem ryk endurvarpar.

Myndin var tekin FORS1 mælitækinu á Very Large Telescope en litirnir hafa verið ýktir [3]. Myndir voru teknar í gegnum tvær mismunandi síur sem annars vegar einangra ljós frá glóandi vetni (sýnt appelsínugult) og hins glóandi jónuðum brennisteini (sýnt blátt). Mismunandi litir frá mismunandi hlutum þessa stjörnumyndunarsvæðis endurspeglar ólíkar aðstæður í þokunni — þar sem jónaður brennisteinn skín skært (bláu svæðin) til dæmis er árekstrarhraði efnisins tiltölulega lágur — og hjálpar stjörnufræðingum að átta sig á því sem þarna gengur á.

Skýringar

[1] Í Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppni ESO gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði. Af þeim 100 ljósmyndum sem sendar voru inn í keppnina sendu tíu hæfileikaríkustu þátttakendurnir inn tuttugu bestu myndirnar og voru þeir verðlaunaðir. Vinningshafinn hlaut að launum ferð að Very Large Telescope (VLT) ESO á Cerro Paranal í Chile, sem er fullkomnasta stjörnustöð heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi.

[2] George Herbig og Guillermo Haro voru ekki fyrstu stjörnufræðingarnir sem sáu þessi sérkennilegu fyrirbæri en þeir rannsökuðu litróf þeirra í smáatriðum fyrstir manna. Þeim varð ljóst að ekki var aðeins um að ræða gas- og rykklumpa sem endurvörpuðu ljós eða gáfu frá sér geislun fyrir tilstilli útblás ljóss frá ungum stjörnum, heldur var þetta nýr flokkur fyrirbæra sem tengdist myndun stjarna.

[3] Bæði jónuðu brennisteins- og vetnisatómin í þessari þoku gefa frá sér rautt ljós. Til að skilja milli þeirra á þessari mynd hefur ljósið frá brennisteininum verið litað blátt.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavik, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1109.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1109is
Nafn:NGC 6729
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS1

Myndir

Close-up of the drama of star formation
Close-up of the drama of star formation
texti aðeins á ensku
Star formation in the constellation of Corona Australis
Star formation in the constellation of Corona Australis
texti aðeins á ensku
Close-up of the drama of star formation (annotated)
Close-up of the drama of star formation (annotated)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on a stellar nursery in Corona Australis
Zooming in on a stellar nursery in Corona Australis
texti aðeins á ensku