eso1104is — Fréttatilkynning

Falleg skífulaga vetrarbraut

2. febrúar 2011

Hér sést vetrarbrautin NGC 3621 á ljósmynd sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra sjónauka í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Hún lítur út fyrir að vera dæmigerð þyrilþoka en ekki er allt sem sýnist. Vetrarbrautin er nefnilega harla óvenjuleg: Hún hefur ekki miðbungu og telst því hrein skífuvetrarbraut.

NGC 3621 er þyrilvetrarbraut í um 22 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Hún er tiltölulega björt og sést vel í meðalstórum áhugamannasjónaukum. Þessi mynd var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Joe DePasquale valdi gögnin úr gagnasafni ESO en hann var þáttakandi í Hidden Treasures [1], ljósmyndasamkeppninni ESO. Útgáfa hans af NGC 3621 varð í fimmta sæti í keppninni.

Þessi vetrarbraut er flöt eins og pönnukaka. Það bendir til þess að hingað til hafi hún ekki komist í námunda við aðra vetrarbraut, því slíkar víxlverkanir milli vetrarbrauta bjaga skífurnar og mynda litla miðbungu í þeim. Flestir stjörnufræðingar telja að vetrarbrautir vaxi við samruna við aðrar vetrarbrautir, við ferli sem kallast stigskipt vetrarbrautamyndun. Með tímanum ættu að myndast stórar bungur í miðju þyrilþoka af þeim sökum. Nýlegar rannsóknir benda aftur á móti til þess að bungulausar þyrilþokur, eða hreinar skífuvetrarbrautir líkt og NGC 3621, séu í raun nokkuð algengar.

Þessi vetrarbraut hefur vakið talsverða forvitni stjörnufræðinga vegna nálægðar hennar við okkur. Það gerir okkur kleift að rannsaka ýmis fyrirbæri innan hennar, til dæmis stjörnumyndunarsvæði, rykský og sveiflustjörnur sem kallast sefítar og stjörnufræðingar nota til að mæla fjarlægðir í alheiminum [2]. Undir lok 20. aldar var NGC 3621 ein átján vetrarbrauta sem valdar voru í eitt af lykilverkefnum Hubble geimsjónaukans: Að rannsaka sefíta til að mæla útþensluhraða alheimsins með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr. Í þessari vetrarbraut fundust 69 sefítar í þessu vel heppnaða verkefni.

Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum fjórar mismunandi ljóssíur. Myndir sem teknar voru í gegnum bláa síu hafa verið litaðar bláar, myndir sem teknar voru í gegnum gul-græna síu eru grænar og myndir í gegnum rauða síu eru dökk-appelsínugular. Til viðbótar hafa myndir sem teknar eru í gegnum síu sem einangrar geislun frá vetnisgasi verið litaðar rauðar. Heildarlýsingartími í gegnum hverja síu voru 30, 40, 40 og 40 mínútur.

Skýringar

[1] Í Hidden Treasures 2010, ljósmyndakeppni ESO, gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði. Af þeim 100 ljósmyndum sem sendar voru inn í keppnina sendu tíu hæfileikaríkustu þátttakendurnir inn tuttugu bestu myndirnar og voru þeir verðlaunaðir. Vinningshafinn hlaut að launum ferð að Very Large Telescope (VLT) ESO á Cerro Paranal í Chile, sem er fullkomnasta stjörnustöð heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi.

[2] Sefítar eru geysibjartar stjörnur –– allt að 30.000 sinnum bjartari en sólin okkar –– sem breyta birtu sinni lotubundið á nokkrum dögum, vikum eða mánuðum. Sveiflutími þeirra er í nánu sambandi við reyndarbirtu stjörnunnar. Ef reyndarbirta sefítans er þekkt og sýndarbirtan á himinhvolfinu mæld geta stjörnufræðingar auðveldlega reiknað út fjarlægð stjörnunnar frá jörðinni. Þess vegna eru sefítar nauðsynlegir til að mæla stærð alheimsins.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1104.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1104is
Nafn:NGC 3621
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Spiral
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Wide Field Imager view of the spiral galaxy NGC 3621
Wide Field Imager view of the spiral galaxy NGC 3621
texti aðeins á ensku
NGC 3621 in the constellation of Hydra
NGC 3621 in the constellation of Hydra
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the spiral galaxy NGC 3621
Zooming in on the spiral galaxy NGC 3621
texti aðeins á ensku
Panning across the spiral galaxy NGC 3621
Panning across the spiral galaxy NGC 3621
texti aðeins á ensku