eso1026is — Fréttatilkynning

VLT greinir ofurstorm á fjarreikistjörnu

23. júní 2010

Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar mælt ofurstorm í lofthjúpi fjarreikistjörnu, heita gasrisans HD209458b. Gerðar voru mjög nákvæmar mælingar á kolmónoxíðgasi sem sýna hvernig það streymir með ógnarhraða frá heitri daghliðinni yfir á kaldari næturhlið reikistjörnunnar. Stjörnufræðingunum tókst líka í fyrsta sinn að mæla brautarhraða reikistjörnunnar en hann gerir okkur kleift að ákvarða massa hennar nákvæmlega.

Niðurstöðurnar eru birtar í nýjasta hefti tímaritsins Nature.

„HD209458b er ekki staður fyrir hvern sem er. Þegar við rannsökuðum kolmónoxíð, sem er eitruð gastegund, í lofthjúpnum, fundum við merki um gríðarsterkan vind sem blæs á 5.000 til 10.000 km hraða á klukkustund“ segir Ignas Snellen sem hafði umsjón með mælingum stjörnufræðinganna.

HD209458b er fjarreikistjarna með um 60% af massa Júpíters á braut um stjörnu sem svipar til sólarinnar í 150 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Pegasusi. Fjarlægðin milli hennar og móðurstjörnunnar er aðeins einn-tuttugasti af fjarlægðinni milli jarðar og sólar og þess vegna er yfirborðshitastigið mjög hátt eða um 1.000°C á daghliðinni. Reikistjarnan snýr ávalt sömu hlið sinni að stjörnunni og svo sú hlið hennar mjög heit en hin kaldari. „Á jörðinni leiðir hitastigsmunur óhjákvæmilegra til öflugra vinda og eins og nýju mælingarnar okkar sýna er hið sama uppi á teningnum á HD209458b“ segir Simon Albrecht meðlimur í rannsóknarhópnum.

HD209458b var fyrsta reikistjarnan sem fannst með þvergönguaðferðinni. Á 3,5 daga fresti gengur hún fyrir móðurstjörnu sína og dregur um leið örlítið úr birtu stjörnunnar í þrjár klukkustundir. Þegar þverganga stendur yfir berst ljós frá stjörnunni í gegnum lofthjúp reikistjörnunnar sem setur mark sitt á ljósið. Hópur stjarnvísindamanna frá Leidenháskóla, Geimrannsóknarstofnun Hollands (the Netherlands Institute for Space Research (SPRON)) og MIT í Bandaríkjunum, notaði Very Large Telescope ESO og hinn öfluga CRIRES litrófsrita til að mæla þetta daufa fingrafar lofthjúpsins. Fylgst var með reikistjörnunni í fimm klukkustundir þegar hún gekk fyrir móðurstjörnuna. „CRIRES er eina mælitækið í heiminum með nógu góða greinigetu til að hægt sé að finna ummerki kolmónoxíðsins með nákvæmninni 1 á móti 100.000“ segir Remco de Kok, annar meðlimur í rannsóknarhópnum. „Þessi mikla nákvæmni gerði okkur kleift að mæla hraða kolmónoxíðsins í fyrsta sinn með hjálp Dopplerhrifa.“

Stjörnufræðingarnir náðu líka að mæla brautarhraða reikistjörnunnar í fyrsta sinn. „Almennt er massi fjarreikistjarna ákvarðaður út frá því hve mikið móðurstjarnan vaggar af hennar völdum en gera verður nálgun á massa stjörnunnar sjálfrar. Í þessu tilviki gátum við mælt hreyfingu reikistjörnunnar líka og um leið ákvarðað bæði massa stjörnunnar og reikistjörnunnar“ segir Ernst de Mooij, meðhöfundur greinar um mælingarnar.

Stjörnufræðingarnir mældu ennfremur hve mikið kolefni er í lofthjúpi þessarar reikistjörnu en það er í fyrsta sinn sem það er gert. „Það lítur út fyrir að HD209458b sé álíka kolefnisrík og Júpíter og Satúrnus sem bendir til þess að hún hafi myndast á svipaðan hátt“ segir Snellen. „Í framtíðinni gætu stjörnufræðingar nýtt sér mælingar af þessu tagi til að rannsaka lofthjúpa reikistjarna sem líkjast jörðinni og finna út hvort líf leynist annars staðar í alheiminum.“

Frekari upplýsingar

Sagt er frá þessum rannsóknum í grein sem birtist í nýjasta hefti Nature: „The orbital motion, absolute mass, and high-altitude winds of exoplanet HD209458b“ eftir Snellen et al.

Í rannsóknarhópnum eru Ignas A. G. Snellen og Ernst J. W. de Mooij (Leiden University í Hollandi), Remco J. de Kok (SPRON í Utrech í Hollandi) og Simon Albrecht (Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Ignas Snellen
Leiden Observatory
Leiden, The Netherlands
Sími: +31 63 00 31 983
Tölvupóstur: snellen@strw.leidenuniv.nl

Henri Boffin
ESO, La Silla, Paranal and E-ELT Press Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Farsími: +49 174 515 43 24
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1026.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1026is
Nafn:HD209458b
Tegund:Milky Way : Planet : Special Cases : Hot Jupiter
Facility:Very Large Telescope
Instruments:CRIRES
Science data:2010Natur.465.1049S

Myndir

Planet with superstorm (artist's impression)
Planet with superstorm (artist's impression)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Planet with superstorm (artist's impression)
Planet with superstorm (artist's impression)
texti aðeins á ensku