eso1022is — Fréttatilkynning

Raymond Wilson sjónaukahönnuður hjá ESO hlýtur hin virtu Kavli verðlaun í stjarneðlisfræði

4. júní 2010

Raymond Wilson, frumherji í rannóknum á sjóntækjum hjá ESO sem gerði risasjónauka nútímans mögulega með tækni sem kallast „virk sjóntæki“, hefur hlotið Kavli verðlaunin í stjarneðlisfræði árið 2010. Wilson stofnaði og leiddi sjóntækja- og sjónaukahóp ESO og deilir verðlaununum, einni milljón dollara, með tveimur bandarískum vísindamönnum, þeim Jerry Nelson og Roger Angel.

Norska vísindaakademían, Kavli sjóðurinn og norska mennta- og rannsóknarmálaráðuneytið veita verðlaunin annanð hvert ár þeim vísindamönnum sem hafa aukið þekkingu okkar á örtækni, taugafræði og stjarneðlisfræði. Stofnað var til verðlaunanna árið 2008 og eru þau nokkurs konar viðbót við Nóbelsverðlaunin. Verðlaunin eru nefnd eftir og fjármögnuð af Fred Kavli, norskum viðskiptajöfri og mannvini sem stofnaði Kavlico fyrirtækið í Bandaríkjunum — í dag einn stærsti framleiðandi nema fyrir flugvélar, bíla og annan iðnað.

Wilson hóf störf hjá ESO árið 1972 með það fyrir augum að fullkomna sjóntæki og þróa hugmyndina um virk sjóntæki sem aðferð til að gera safnspegla sjónauka stærri. Stærð spegils skiptir öllu máli því sjónaukar safna ljósi og rannsaka dauf og fjarlæg fyrirbæri. Áður en virk sjóntæki komu til sögunnar var ógjörningur að smíða spegla stærri en sex metrar að þvermáli því þeir voru of þungir, of dýrir og líklegir til að bogna vegna þyngdarkraftsins og hitastigsbreytinga. Með virkum sjóntækjum eru bestu mögulegu myndgæði sjónaukans tryggð með því að leiðrétta stöðugt lögun bjúgspegilsins, sem er léttari og þynnri, á meðan mælingar standa yfir.

Wilson sá um uppsetningu fyrstu virku sjóntækjanna í hinum byltingarkennda New Technology Telescope í stjörnustöð ESO á La Silla og hélt áfram að þróa tæknina þar til hann komst á eftirlaun árið 1993. Síðan hafa virk sjóntæki orðið staðalbúnaður í nútíma stjarnvísindum og eru notuð í öllum risasjónaukum í dag, þar með talið Very Large Telescope (VLT) ESO, röð fjögurra stakra sjónauka með 17,5 cm þykkum og 8,2 metra breiðum speglum. Virk sjóntæki hjálpa til við að gera VLT að öflugustu stjörnustöð heims og verða mikilvægur þáttur í European Extremely Large Telescope (E-ELT). Virk sjóntæki eru líka notuð í 10 metra Keck sjónaukunum, 8,2 metra Subaru sjónaukanum og 8,1 metra Gemini sjónaukunum.

Hinir verðlaunahafarnir, Jerry Nelson og Roger Angel, voru frumherjar á sviði samsettra safnspegla eins og notaðir eru í Keck sjónaukunum og þróun léttra spegla með stuttri brennivídd.

Á www.kavlifoundation.org og www.kavliprize.no má sjá vefútsendingu frá Osló í Noregi þar sem tilkynnt var um verðlaunahafana.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Jason Spyromilio
ESO, Head of the E-ELT Telescope Project Office
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6411
Tölvupóstur: jspyromi@eso.org

Lars Lindberg Christensen
ESO, Head of ESO education and Public Outreach Department
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6761
Farsími: +49 173 387 2621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1022.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1022is
Nafn:Raymond Wilson
Tegund:Unspecified : People : Scientist
Facility:Other

Myndir

Raymond Wilson, recipient of the 2010 Kavli Prize
Raymond Wilson, recipient of the 2010 Kavli Prize
texti aðeins á ensku