eso1021is — Fréttatilkynning

Stjarnfræðilegur dýragarður í Stóra Magellanskýinu

1. júní 2010

Stjörnufræðinga beina oft á tíðum sjónaukum sínum að Stóra Magellanskýinu, einni nálægustu nágrannavetrarbraut okkar, í viðleitni sinni til að skilja alheiminn. Á þessari nýju og glæsilegu ljósmynd sem tekin var með Wide Field Imager (WFI) í stjörnustöð ESO á La Silla í Chile, sést ógrynni furðulegra fyrirbæra í Stóra Magellanskýinu, allt frá stórum kúluþyrpingum til leifa bjartra sprengistjarna. Myndin kemur að góðum notum í fjölmörg rannsóknarverkefni um líf og dauða stjarna og þróun vetrarbrauta.

Stóra Magellanskýið er í aðeins 160.000 ljósára fjarlægð frá Vetrarbrautinni okkar — mjög nálægt á stjarnfræðilegan mælikvarða. Sökum nálægðar er skýið mjög mikilvægt fyrirbæri sem hægt er að rannsaka mun betur en sambærileg fjarlægari kerfi. Stóra Magellanskýið er í stjörnumerkinu Sverðfisknum sem er á suðurhveli himins og hentar því vel til rannsókna frá stjörnustöðvum ESO í Chile. Skýið tilheyrir Grenndarhópnum eins og Vetrarbrautin okkar [1] en þótt það sé risavaxið á okkar mælikvarða er það talsvert minna en Vetrarbrautin okkar eða meira en tíu sinnum massaminna og aðeins 14.000 ljósár í þvermál, á meðan Vetrarbrautin er 100.000 ljósár í þvermál. Stjörnufræðingar flokka skýið sem óreglulega dvergvetrarbraut [2]. Óreglulega lögunin og stjörnubjálkinn í því bendir til þess að flóðkraftar frá Vetrarbrautinni okkar og Litla Magellanskýinu, sem tilheyrir líka Grenndarhópnum, hafi aflagað vetrarbrautina sem hugsanlega var eitt sinn þyrillaga.

Myndin er sett saman úr fjórum ljósmyndum sem teknar voru með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Myndin nær yfir svæði á himinhvolfinu sem er fjórfalt stærra en fullt tungl. Sjónsvið myndavélarinnar er vítt svo sjá má mörg ólík fyrirbæri á myndinni þótt aðeins sé hægt að ljósmynda lítinn hluta af vetrarbrautinni í heild. Sjá má tugi ungra stjörnuþyrpinga sem og ummerki glóandi gasskýja. Aragrúi daufra stjarna fyllir myndina enda á milli og í bakgrunni sjást fleiri vetrarbrautir, langt fyrir aftan Stóra Magellanskýið.

Í kúluþyrpingum eru hundruð þúsundir til milljón stjörnur sem þyngdarkrafturinn bindur saman á svæði sem er aðeins nokkur ljósár í þvermál. Margar slíkar hringsóla um Vetrarbrautina okkar, flestar mjög gamlar eða yfir tíu milljarða ára og innihalda að mestu gamlar rauðar stjörnur. Kúluþyrpingar eru líka í kringum Stóra Magellanskýið og sést ein þeirra sem hvít, móðukennd kúlulaga stjörnuþyrping, ofarlega til hægri á myndinni. Þetta er NGC 1978, óvenju massamikil kúluþyrping sem er álitin aðeins 3,6 milljarða ára gömul. Stjörnufræðingar telja þessa þyrpingu benda til þess að skýið eigi sér töluvert nýlegri sögu stjörnumyndunarhrinu en Vetrarbrautin okkar.

Stóra Magellanskýið er ekki aðeins svæði mikillar stjörnumyndunar heldur hafa þar líka orðið nokkrar tilkomumiklar sprengistjörnur. Efst til hægri á myndinni sjást leifar einnar slíkrar sprengistjörnu. Þetta er tjásulegt ský, óvenjulegt í laginu, sem kallast DEM L 190 en er líka oft nefnt N 49. Skýið er risastórt glóandi gasský, 30 ljósár í þvermál — bjartasta sprengistjörnuleifin í Stóra Magellanskýinu. Í miðjunni, þar sem stjarna skein eitt sinn skært, er nú segulstjarna, þ.e. nifteindastjarna með gífurlega öflugt segulsvið. Það var aðeins árið 1979 sem gervitungl á braut um jörðina námu öfluga gammageislun frá þessu fyribæri sem vakti athygli manna á hrikalegum eiginleikum þessarar nýju tegundar sprengistjörnuleifar.

Þetta svæði í Stóra Magellanskýinu er svo þéttskipað stjörnuþyrpingum og öðrum forvitnilegum fyrirbærum að stjörnufræðingar gætu varið allri starfsævi sinni í rannsóknir á því. Virknin er slík að auðvelt er að sjá hvers vegna stjörnufræðingar hafa svo mkinn áhuga á að rannsaka þau skrítnu fyrirbæri sem eru í þessum himneska dýragarði.

Skýringar

[1] http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/vetrarbrautathyrpingar/grenndarhopurinn/

[2] http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/vetrarbrautir#logun_og_form

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, Survey Telescopes PIO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1021.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1021is
Nafn:NGC 1978
Tegund:Local Universe : Star : Grouping : Cluster : Globular
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Detailed view of a section of the Large Magellanic Cloud
Detailed view of a section of the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
Detailed annotated view of a section of the Large Magellanic Cloud
Detailed annotated view of a section of the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
Wide-field view of part of the Large Magellanic Cloud
Wide-field view of part of the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
The entire Large Magellanic Cloud with annotations
The entire Large Magellanic Cloud with annotations
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the Large Magellanic Cloud
Zooming in on the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
Panning across part of the Large Magellanic Cloud
Panning across part of the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku