eso1014is — Fréttatilkynning

Björtu og dökku hliðar stjörnumyndunarsvæðis

31. mars 2010

Í dag birtir ESO mynd af Gum 19, lítt þekktri og daufri geimþoku sem í innrauðu ljósi virðist dökk öðru megin en björt hinumegin. Blár reginrisi sem kallast V391 Velorum lýsir upp aðra hlið þokunnar. Í þessu bjarta og dökka skýi sem vefur sig um vinstri hlið V391 Velorum stendur stjörnumyndun yfir. Eftir árþúsundir munu nýju stjörnurnar og endalok V391 Velorum sem sprengistjörnu breyta þessari Janusarásýnd Gum 19.

Gum 19 er í um 22.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Seglinu. Nafnið Gum 19 á rætur að rekja til ástralska stjarneðlisfræðingsins Colin S. Gum sem kortlagði fyrstur manna svonefnd röfuð vetnisský (HII svæði) á suðurhveli himins. Í slíkum skýjum er vetni jónað eða rafað þannig að vetnisatómin missa sína einu rafeind. Slík svæði gefa frá sér ljós með þekktar bylgjulengdir (eða liti) sem valda því að þessar þokur glóa. Lögun og áferð vetnisskýja breytist með tímanum rétt eins og jarðneskra skýja, reyndar á mörg þúsund árum en ekki frammi fyrir augunum á okkur. Mjótt, nærri lóðrétt, bjart svæði sem sker sig niður í gegnum þokuna gefur Gum 19 þetta sérkennilega útlit sem sjá má á myndinni. Hún gæti minnt á skalarfisk eða ör með dökkum oddi.

Þessi nýja mynd af Gum 19 var tekin með innrauðu mælitæki sem kallast SOFI á New Technology Telescope (NTT) ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile. SOFI er skammstöfun á Son of Isaac eftir „föðurtækinu“ ISAAC sem er á Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni sem er norðan við La Silla. Innrauðar mælingar gera stjörnufræðingum kleift að skyggnast inn í þokuna að hluta til.

Bálið sem tendrar ljós Gum 19 er risastór og ógnarheit stjarna sem kallast V391 Velorum. Stjarnan gefur að mestu frá sér blátt ljós og er yfirborðshitastig hennar í kringum 30.000 gráður á Celsíus. Þessari massamiklu stjörnu er stundum heitt í hamsi og er hún því flokkuð sem breytistjarna. Birta V391 Velorum getur sveiflast mjög skyndilega vegna þess að stjarnan varpar frá sér efni sem blandast við Gum 19.

Stjörnur á stærð við V391 Velorum skína ekki lengi og eftir tiltölulega skamma tíu milljón ára langa ævi enda slíkir risar sem sprengistjörnur. Sprengistjörnur skína til skamms tíma álíka skært og heil vetrarbraut. Þær varpa frá sér heitu efni út í geiminn í kring í atburði sem getur gerbreytt lit og lögun þokunnar í kring. Að endingu mun dauði V391 Velorum gera Gum 19 óþekkjanlega.

Í nágrenni reginrisans byrja nýjar stjörnur engu að síður að skína. Röfuð vetnisský eru staðir virkrar stjörnumyndunar þar sem mikið magn gass og ryks hefur byrjað að falla saman undan eigin þyngdarkrafti. Á nokkrum milljónum ára — augnablik á stjarnfræðilegum mælikvarða — verður þéttleikinn í miðju þessara efnishnúta að lokum nógu mikill til þess að kjarnasamruni geti orðið. Orkan og stjörnuvindar sem brjótast út frá þessum nýmynduðu stjörnum munu líka breyta útliti Gum 19.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO ePOD
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Farsími: +49 174 515 43 24
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1014.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1014is
Nafn:Gum 19
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:New Technology Telescope
Instruments:SOFI

Myndir

Star-forming region Gum 19
Star-forming region Gum 19
texti aðeins á ensku
Around the star-formation region Gum 19 (RCW 34)
Around the star-formation region Gum 19 (RCW 34)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zoom-in onto Gum 19
Zoom-in onto Gum 19
texti aðeins á ensku