eso1011is — Fréttatilkynning

Fyrstu nákvæmu mælingarnar á tempraðri fjarreikistjörnu

17. mars 2010

Stjörnufræðingar hafa með hjálp CoRoT gervitunglsins og HARPS litrófsrita ESO gert fyrstu nákvæmu mælingarnar á „venjulegri“ fjarreikistjörnu. Reikistjarnan nefnist Corot-9b og gengur hún reglulega fyrir stjörnu sem líkist sólinni en er í 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Höggorminum.

„Þetta er venjuleg, tempruð fjarreikistjarna, rétt eins og rúmlega tugur annarra sem við þekkjum nú þegar, en þetta er sú fyrsta sem okkur hefur tekist að rannsaka nákvæmlega“ segir Claire Moutou sem er hluti af alþjóðlegu teymi 60 stjörnufræðinga sem stóð að rannsókninni. „Þetta er nokkurs konar Rósettu steinn fyrir rannsóknir á fjarreikistjörnum.“

„Corot-9b er fyrsta fjarreikistjarnan sem við höfum fundið sem líkist reikistjörnunum í sólkerfinu okkar“ segir Hans Deeg, aðalhöfundur greinar um rannsóknina. „Hún er á stærð við Júpíter en á svipaðri braut og Merkúríus.“

„Þessi reikistjarna er að mestu úr vetni og helíni, rétt eins og risareikistjörnurnar Júpíter og Satúrnus í sólkerfinu okkar, en gæti innihaldið allt að 20 jarðmassa af öðrum efnum eins og vatni og bergi við hátt hitastig og háan þrýsting“ segir Tristan Guillot, meðlimur í rannsóknarhópnum.

Corot-9b gengur fyrir móðurstjörnu sína frá jörðu séð á 95 daga fresti [1]. Þvergangan stendur yfir í um 8 klukkustundir og gefur stjörnufræðingum miklar upplýsingar um reikistjörnuna. Þetta er mjög heppilegt því þessum gasrisa svipar til meirihluta þeirra fjarreikistjarna sem fundist hafa hingað til [2].

„Mælingar okkar hafa skilað betri upplýsingum um Corot-9b en nokkrar aðrar reikistjörnur sömu gerðar“ segir Didier Queloz, meðhöfundur greinarinnar. „Reikistjarnan gæti opnað nýjar dyr í rannsóknum á lofthjúpum meðalheitra reikistjarna og breytt skilningi okkar á efnafræði við lágt hitastig.“

Hingað til hafa yfir 400 fjarreikistjörnur fundist, þar af 70 með þvergönguaðferðinni. Corot-9b er einstök að því leiti að hún er tífalt lengra frá sinni móðurstjörnu en nokkur önnur reikistjarna sem fundist hefur með þessari aðferð. Og ólíkt slíkum fjarreikistjörnum hefur þessi reikistjarna temprað loftslag. Talið er að hitastigið í lofthjúpnum sé milli 160°C og -20°C og að litlar breytingar verði á dag- og næturhlið reikistjörnunnar. Nákvæmt gildi á hitastiginu veltur á því hvort í lofthjúpnum sé skýjalag sem endurvarpar sólarljósi vel.

CoRoT gervitunglið, sem franska geimstofnunin CNES [3] starfrækir, fann reikistjörnuna eftir 145 mælingadaga sumarið 2008. Mælingar með HARPS mælitækinu á 3,6 metra sjónauka ESO á La Silla í Chile — sem skilað hefur frábærum árangri í leit að fjarreikistjörnum — gerði stjörnufræðingum kleift að mæla massa hennar sem er um 80% af massa Júpíters.

Greint er frá þessum niðurstöðum í nýjasta tölublaði tímaritsins Nature.

Skýringar

[1] Þverganga verður þegar hnöttur gengur fyrir móðurstjörnu sína frá jörðu séð. Þessi tegund myrkva dregur tímabundið úr sýndarbirtu stjörnunnar og gerir okkur um leið kleift að mæla þvermál reikistjörnunnar. Með Doppler litrófsmælingum, sem gerðar voru með HARPS litrófsritanum, er hægt að leiða út massann og þar af leiðandi eðlismassa reikistjörnunnar. Þessar mælingar gera stjörnufræðingum kleift að rannsaka hnöttinn í smáatriðum. Sú staðreynd að reikistjarnan gengur fyrir móðurstjörnuna frá jörðu séð — en er samt ekki það nálægt stjörnunni að hún flokkist sem „heitur gasrisi“ — gerir hana að einstöku fyrirbæri til frekari rannsókna.

[2] Tempraðir gasrisar eru stærsti hópur fjarreikistjarna sem fundist hefur hingað til.

[3] CoRoT (Convection, Rotation and Transits) er geimsjónauki sem CNES smíðaði með hjálp Austurríkis, Þýskalands, Spánar, Belgíu, Brasilíu og European Space Agency (ESA). Sjónaukinn var sérstaklega hannaður til að leita að fjarreikistjörnum með þvergönguaðferðinni og gera skjálftamælingar á stjörnum. Gerðar eru athuganir samhliða uppgötvunum sjónaukans með sjónaukum á jörðu niðri, til dæmis IAC-80 (í Teide stjörnustöðinni), Kanadíska-franska-Hawaii sjónaukanum (Hawaii), Isaac Newton sjónaukanum (Roque do los Muchachos stjörnustöðinni), Wise stjörnustöðinni (Ísrael), Faulkes norður sjónaukanum í Las Cumbres Observatory Global Telescope Network (Hawaii) og 3,6 metra ESO sjónaukanum (Chile).

Frekari upplýsingar

Greint er frá þessari rannsókn í nýjasta hefti tímaritsins Nature („A transiting giant planet with a temperature between 250 K and 430 K“) eftir H. J. Deeg et al.

Í rannsóknarhópnum eru H.J. Deeg, B. Tingley, J.M. Almenara og M. Rabus (Instituto de Astrofısica de Canarias á Tenerife á Spáni), C. Moutou, P. Barge, A. S. Bonomo, M. Deleuil, J.-C. Gazzano, L. Jorda, og A. Llebaria (Laboratoire d'Astrophysique de Marseille, Université de Provence, CNRS, OAMP í Frakklandi),  A. Erikson, Sz. Csizmadia, J. Cabrera, P. Kabath, H. Rauer (Institute of Planetary Research, German Aerospace Center, í Berlín í Þýskalandi), H. Bruntt, M. Auvergne, A. Baglin, D. Rouan, og J. Schneider (Observatoire de Paris-Meudon í Frakklandi), S. Aigrain og F. Pont (University of Exeter í Bretlandi), R. Alonso, C. Lovis, M. Mayor, F. Pepe, D. Queloz, og S. Udry (Observatoire de l'Université de Genève í Sviss), M. Barbieri (Università di Padova á Ítalíu), W. Benz (Universität Bern í Sviss), P. Bordé, A. Léger, M. Ollivier, og B. Samuel (Institut d’Astrophysique Spatiale, Université Paris XI, Orsay í Frakklandi), F. Bouchy og G. Hébrard (IAP, París í Frakklandi), L. Carone og M. Pätzold (Rheinisches Institut für Umweltforschung an der Universität zu Köln í Þýskalandi), S. Carpano, M. Fridlund, P. Gondoin og R. den Hartog (ESTEC/ESA í Noordwijk í Hollandi), D. Ciardi (NASA Exoplanet Science Institute/Caltech í Bandaríkjunum), R. Dvorak (University of Vienna í Austurríki), S. Ferraz-Mello (Universidade de São Paulo í Brasilíu), D. Gandolfi, E. Guenther, A. Hatzes, G. Wuchterl, B. Stecklum (Thüringer Landessternwarte í Tautenburg í Þýskalandi), M. Gillon (University of Liège í Belgíu), T. Guillot og M. Havel (Observatoire de la Côte d’ Azur í Nice í Frakklandi), M. Hidas, T. Lister, og R. Street (Las Cumbres Observatory Global Telescope Network í Santa Barbara í Bandaríkjunum), H. Lammer og J. Weingrill (Space Research Institute, Austrian Academy of Science) og T. Mazeh og A. Shporer (Tel Aviv University í Ísrael).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Didier Queloz
Geneva Observatory, University of Geneva
Geneva, Switzerland
Sími: +41 22 379 2477
Tölvupóstur: didier.queloz@unige.ch

Hans J. Deeg
Instituto de Astrofísica de Canarias
Tenerife, Spain
Sími: +34 922 605 244
Farsími: +34 619 360 054
Tölvupóstur: hdeeg@iac.es

Claire Moutou
Laboratoire d'Astrophysique de Marseille
Marseille, France
Sími: +33 4 91 05 59 66
Tölvupóstur: claire.moutou@oamp.fr

Henri Boffin
ESO La Silla-Paranal/E-ELT Press Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Farsími: +49 174 515 43 24
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1011.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1011is
Nafn:Corot-9b
Tegund:Milky Way : Planet
Facility:ESO 3.6-metre telescope, Very Large Telescope
Instruments:HARPS, UVES
Science data:2010Natur.464..384D

Myndir

Artist’s impression of Corot-9b
Artist’s impression of Corot-9b
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Artist’s impression of Corot-9b
Artist’s impression of Corot-9b
texti aðeins á ensku
Artist’s impression of Corot-9b (orbit)
Artist’s impression of Corot-9b (orbit)
texti aðeins á ensku
Artist’s impression of Corot-9b (transit)
Artist’s impression of Corot-9b (transit)
texti aðeins á ensku