eso1008is — Fréttatilkynning

Eldur, ljós og vindur

Falleg mynd af stjörnumyndunarsvæði

24. febrúar 2010

ESO hefur birt nýja og fallega ljósmynd af NGC 346, bjartasta stjörnumyndunarsvæðinu í Litla Magellanskýinu sem er nágrannavetrarbraut okkar í 210.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Túkaninum. Massamiklar stjörnur gefa frá sér ljós, vind og hita sem dreifir glóandi gasi í þessari stjörnuþyrpingu svo úr verður tjásuleg þoka sem minnir á köngulóarvef. Eins og öll önnur stjarnfræðileg fyrirbæri breytist NGC 346 með tímanum. Fleiri stjörnur myndast úr gasinu og rykinu í þokunni en þegar þær kvikna, blása þær afgangsryki og -gasi burt og breyta þannig ásýnd þessa fallega svæðis.

NGC 346 nær yfir um 200 ljósára breitt svæði í geimnum; svæði sem jafngildir um það bil fimmtíufaldri fjarlægðinni milli sólar og nálægustu stjarna við hana. Stjörnufræðingar flokka NGC 346 sem lausþyrpingu en það gefur til kynna að hópurinn allur hafi myndast úr sama skýi. Þokan sem fylgir þyrpingunni kallast ljómþoka sem þýðir að gasið í henni hefur hitnað svo af völdum stjarnanna að það glóir á svipaðan hátt og neongas í auglýsingaskiltum.

Í NGC 346 eru stjörnurnar tiltölulega ungar á stjarnfræðilegan mælikvarða eða rétt nokkurra milljóna ára (eso0834). Öflugir vindar frá massamiklum stjörnum hrundu af stað þessari stjörnumyndun með því að þjappa saman miklu magni efnis; fyrsta skrefið í átt til þess að nýjar stjörnur kvikni. Efnisskýið féll svo saman undan eigin þyngdarkrafti uns sum svæði urðu þéttari og nógu heit til að mynda skær bál, knúin áfram af kjarnasamruna — stjörnu sem lýsti síðan upp afgangsgas og -ryk. Á þéttum svæðum eins og NGC 346, þar sem talsverð nýmyndun stjarna hefur orðið, verður þannig til myndrænt viðfangsefni sjónauka okkar.

NGC 346 er í Litla Magellanskýinu sem er dvergvetrarbraut í um 210.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og því í námunda við Vetrarbrautina okkar. Litla Magellanskýið er, rétt eins og systurvetrarbrautin Stóra Magellanskýið, sýnileg berum augum frá suðurhveli jarðar. Báðar hafa þær gegnt hlutverki rannsóknarstofu fyrir stjörnufræðinga sem rannsaka myndun stjarna.

Þessi mynd var tekin með Wide Field Imager (WFI) á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Myndir á borð við þessa hjálpa stjörnufræðingum að draga upp mynd af tilurð og þróun stjarna en eru á sama tíma svipmyndir af því hvernig stjörnur hafa áhrif á umhverfi sitt með tímanum.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO ePOD
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1008.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1008is
Nafn:NGC 346
Tegund:Local Universe : Nebula : Type : Star Formation
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Star-forming region NGC 346
Star-forming region NGC 346
texti aðeins á ensku
The Small Magellanic Cloud
The Small Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zoom in on the star-forming region NGC 346
Zoom in on the star-forming region NGC 346
texti aðeins á ensku
Close-up zoom on the star-forming region NGC 346
Close-up zoom on the star-forming region NGC 346
texti aðeins á ensku