eso1001is — Fréttatilkynning

ALMA nær mikilvægum áfanga

Þrjú samtengd loftnet tryggja bjart ár framundan hjá þessari byltingarkenndu sjónaukaröð

4. janúar 2010

Mikilvægur áfangi hefur náðst í Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) stjörnustöðinni sem tryggir að þessi nýi, byltingarkenndi sjónauki mun koma til með að skila hágæða myndum af alheiminum. Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar og verkfræðingar tengt saman þrjú loftnet á hinum 5000 metra háa mælingarstað stjörnustöðvarinnar í norður Chile. Þrjú samtengd loftnet marka upphafið að nákvæmum myndum af hinum kalda alheimi í betri upplausn en áður hefur þekkst. Þau eru jafnframt það sem upp á vantar svo leiðrétta megi villur sem koma upp þegar þegar aðeins tvö loftnet eru samtengd.

Þann 20. nóvember 2009 var þriðja loftneti ALMA stjörnustöðvarinnar komið fyrir á Chajnantor sléttunni í 5000 metra hæð í Andesfjöllunum í Chile. Eftir fjölmargar tækniprófandi gerðu stjörnufræðingar og verkfræðingar fyrstu mælingarnar á stjarnfræðilegu fyrirbæri með öllum þremur 12 metra breiðu loftnetunum samtengdum. Þeir vinna nú myrkrana á milli við að ná stöðugleika í kerfið og gera það starfhæft.

„Líkja má fyrstu merkjum tveggja ALMA loftneta, sem náðust í október, við fyrstu hljóðin sem barn gefur frá sér“ segir Leonardo Tisti, vísindamaður sem starfar hjá ESO við ALMA verkefnið. „Mælingar með þremur loftnetum er sú stund þegar barnið segir fyrstu raunverulegu orðin, nokkuð sem er alltaf stór áfangi! Samtenging þriggja loftneta eru fyrstu raunverulegu skrefin í átt til þess að ná skörpum og nákvæmum myndum á hálfsmillímetra bylgjulengdum.“

Samtenging þriggja loftneta var lykilpróf fyrir rafeinda- og hugbúnaðinn sem verið er að setja upp í ALMA og árangurinn af því gefur vísbendingar um getu stjörnustöðvarinnar í framtíðinni. Þegar smíði ALMA lýkur munu 66 loftnet starfa saman sem „víxlmælir“ og mynda einn stóran sjónauka sem mælir millímetra og hálfsmillímetra geislun utan úr geimnum. Nauðsynlegt er að sameina mælingar hvers loftnets í eitt merki svo unnt sé að ná þeim hágæða myndum á þeim bylgjulengdum sem sjónaukinn er hannaður til að mæla.

Samtenging loftnetanna er nauðsynlegt skref í átt að því að sjónaukinn myndi víxlmæli. Fyrstu árangursríku mælingarnar voru gerðar með einungis tveimur loftnetum á Chajnantor sléttunni í október 2009 (sjá tilkynningu ESO) og sýndu vel gæði tækjanna. Þriðja loftnetið markar hins vegar þáttaskil í framtíð stjörnustöðvarinnar. Þessi stóri áfangi tryggir að nú má gera sjálfstæðar prófanir á gæðum víxlmælisins.

„Notkun þriggja (eða fleiri) loftneta í víxlmæli er mikil framför úr tveimur loftnetum“ segir Wolfgang Wild, verkefnisstjóri evrópska hluta ALMA. „Það gerir stjörnufræðingum kleift að átta sig á þáttum sem draga úr myndgæðum og rekja má til tækjanna sjálfra eða truflana í lofthjúpnum. Með samanburði á mælingum sem gerðar eru samtímis með þremur stökum loftnetum er hægt að eyða þessum áhrifum — nokkuð sem er ómögulegt að gera með einungis tveimur loftnetum.“

Til að ná þessu mikilvæga markmiði mældu stjörnufræðingar ljós frá dulstirninu QSO B1921-293, sem er langt fyrir utan Vetrarbrautina okkar. Stjörnufræðingar þekkja þetta dulstirni vel því það gefur frá sér mikla útgeislun á mjög löngum bylgjulengdum, þar á meðal á millímetra og hálfsmillímetrasviðinu sem ALMA nemur. Mælingarnar voru stöðugar sem sýndi að loftnetin virka mjög vel.

Á næstunni verður nokkrum loftnetum til viðbótar komið fyrir á Chajnantor sléttunni sem gerir stjörnufræðingum kleift að fá fyrstu niðurstöður frá ALMA árið 2011. Víxlmælirinn stækkar svo jafnt og þétt uns fullri getu er náð en verða loftnetin orðin 66 talsins.

ALMA er alþjóðlegt samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og austur Asíu í samvinnu við Chile.

Frekari upplýsingar

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) er alþjóðleg stjörnustöð og samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku, austur Asíu í samvinnu við lýðveldið Chile. ESO er evrópski hluthafinn í ALMA. ALMA er stærsta stjarnvísindaverkefni sem til er, byltingarkenndur sjónauki sem samanstendur af röð 66 stórra 12 metra og 7 metra breiðra loftneta sem mæla millímetra og hálfsmillímetra geislun. ALMA mun hefja mælingar árið 2011.

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Wolfgang Wild
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6716 (after 6 January)
Farsími: +49 160 9411 7833
Tölvupóstur: wwild@eso.org

Leonardo Testi
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6541 (from 8 January 2010)
Tölvupóstur: ltesti@eso.org

Lars Lindberg Christensen
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 173 38 72 621 (UT-5h)
Tölvupóstur: lars@eso.org

Richard Hook
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Douglas Pierce-Price
ESO
Garching, Germany
Tölvupóstur: dpiercep@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1001.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1001is
Nafn:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Telescope
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array

Myndir

Three ALMA antennas working in unison
Three ALMA antennas working in unison
texti aðeins á ensku