eso0940is — Fréttatilkynning

Litríkt stjarnfræðilegt skartgripaskrín opnað

29. október 2009

Myndir teknar með þremur sjónaukum, Very Large Telescope ESO á Cerro Paranal, 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni og Hubble geimsjónauka NASA og ESA, sýna hina glæsilegu lausþyrpingu Skartgripaskrínið í glænýju ljósi.

Stjörnuþyrpingar eru meðal fegurstu og stjarnfræðilega áhugaverðustu fyrirbærum himins. Ein sú fallegasta er á suðurhveli himins í stjörnumerkinu Suðurkrossinum.

Kappa Crucis þyrpingin, einnig þekkt sem NGC 4755 eða einfaldlega Skartgripaskrínið, sést með berum augum. Árið 1830 nefndi enski stjörnufræðingurinn John Herschel hana Skartgripaskrínið vegna þess hve litríkar stjörnurnar í þyrpingunni eru en þær fölbláu og appelsíngulu minntu hann á skartgripi.

Í venjulegum lausþyrpingum [1] eins og NGC 4755 bindur þyngdarkrafturinn lauslega saman allt að nokkur þúsund stjörnur. Allar stjörnur í þyrpingum urðu til nokkurn veginn samtímis úr sama gas- og rykskýi. Þær eru þess vegna allar álíka gamlar og með svipaða efnasamsetningu sem gerir þær kjörnar til rannsókna á þróun stjarna.

Á víðmynd sem unnin var úr gögnum Digitized Sky Survey 2 sést vel staðsetning þyrpingarinnar innan um stjörnur og rykský í vetrarbrautinni okkar. Á myndinni sést líka ein af stjörnum Suðurkrossins og hluti af stórri skuggaþoku sem nefnist Kolapokinn [2].

Þyrpingin og litríkt umhverfi hennar sést í allri sinni dýrð á nýrri mynd sem tekin var með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöð ESO á La Silla í Chile. Sjónsvið WFI er vítt og sýnir myndin fjölda stjarna sem margar hverjar eru faldar á bakvið ryk í Vetrarbrautinni og virðast þess vegna rauðleitar [3].

Með FORS1 mælitækinu á Very Large Telescope (VLT) ESO getum við kafað dýpra inn í þyrpinguna. Lýsingartíminn á glænýrri og hnífskarpri mynd sjónaukans var aðeins 5 sekúndur þökk sé risavöxnum spegli og einstökum myndgæðum. Þessi nýja mynd er ein sú besta sem tekin hefur verið af þyrpingunni frá jörðu niðri.

Skartgripaskrínið er litríkt á myndum teknum frá jörðinni en ljósmynd Hubblessjónauka NASA og ESA teknar utan úr geimnum sýnir okkur ljós með styttri bylgjulengd sem sjónaukar á jörðinni greina ekki. Ný mynd Hubbles af miðju þyrpingarinnar er sú fyrsta sem tekin er af lausþyrpingu í fjær-útfjólubláu og nær-innrauðu ljósi. Hún var sett saman úr myndum sem teknar voru í gegnum sjö ljóssíur og gerir okkur kleift að greina smáatriði sem aldrei hafa sést áður. Myndin var tekin skömmu áður en Wide Field Planetary Camera 2 — ein afkastamesta myndavél Hubbles — var fjarlægð úr sjónaukanum og flutt til jarðar í síðustu þjónustuferðinni til geimsjónaukans. Á myndinni sjást nokkrar mjög skærar fölbláar reginrisastjörnur, stakur ryðrauður reginrisi og fjölmagar aðrar bjartar og daufar en litríkar stjörnur. Rekja má ólík litbrigði stjarnanna til birtu þeirra á útfjólubláum bylgjulengdum.

Björtustu stjörnurnar í þyrpingunni eru 15 til 20 sinnum massameiri en sólin á meðan daufustu stjörnurnar á mynd Hubbles eru innan við helmingur af massa sólar. Þess vegna er svo mikill munur á birtu stjarnanna í þyrpingunni. Massamiklar stjörnur skína mun skærar en eldast líka hraðar og breytast fyrr í risastjörnur en daufari og massaminni systur þeirra.

Skartgripaskrínið er í um 6.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin er um það bil 16 milljón ára gömul.

Skýringar

[1] Ekki má rugla saman lausþyrpingum og kúluþyrpingum. Kúluþyrpingar eru risavaxnir kúlulaga hópar gamalla stjarna sem sveima í kringum vetrarbrautir. Svo virðist sem flestar stjörnur, sólin okkar þar á meðal, verði til í lausþyrpingum.

[2] Kolapokinn er skuggaþoka á suðurhveli himins, nálægt stjörnumerkinu Suðurkrossinum, sem sést með berum augum. Skuggaþokur eru miðgeimsský úr þykku ryki sem byrgir okkur sýn á flestar stjörnur sem eru á bakvið þær.

[3] Rykský í geimnum dreifa og gleypa bláa litinn í ljósi fjarlægra stjarna sem berst í gegnum rykský betur en rauða litinn. Þess vegna viðast stjörnur oft rauðleitari en þær eru í raun og veru. Sömu áhrif valda rauða litnum við sólsetur.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavik, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Colleen Sharkey
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6306
Farsími: +49 (0)15 115 37 35 91
Tölvupóstur: csharkey@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0940.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0940is
Legacy ID:PR 40/09
Nafn:Jewel Box, NGC 4755
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:Hubble Space Telescope, MPG/ESO 2.2-metre telescope, Very Large Telescope
Instruments:FORS1, WFI

Myndir

A snapshot of the Jewel Box cluster with the ESO VLT
A snapshot of the Jewel Box cluster with the ESO VLT
texti aðeins á ensku
Wide field image of the Jewel Box
Wide field image of the Jewel Box
texti aðeins á ensku
A Hubble gem: the Jewel Box
A Hubble gem: the Jewel Box
texti aðeins á ensku
Digitized sky survey 2 image of NGC 4755
Digitized sky survey 2 image of NGC 4755
texti aðeins á ensku
Putting the Jewel Box in perspective (composite image)
Putting the Jewel Box in perspective (composite image)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the Jewel Box
Zooming in on the Jewel Box
texti aðeins á ensku
Fulldome of the Jewel Box cluster
Fulldome of the Jewel Box cluster
texti aðeins á ensku