eso0934is — Fréttatilkynning

Þysjað inn að miðju Vetrarbrautarinnar

GigaGalaxy Zoom, 2. hluti

21. september 2009

Önnur myndin af þremur í GigaGalaxy Zoom verkefni ESO hefur verið birt. Um er að ræða nýja og glæsilega 340 milljón pixla mynd af miðsvæðum Vetrarbrautarinnar eins og hún birtist í gegnum áhugamannasjónauka frá Paranal stjörnustöð ESO í Chile.

Myndin nær yfir svæði sem er 34 sinnum 20 gráður og sýnir okkur hluta himins eins og hann birtist reyndum stjörnuáhugamanni. Fegurð myndarinnar má rekja til gæða himinsins þaðan sem hún er tekin og hæfileikum Stéphane Guisard, heimsþekktum stjörnuljósmyndara sem einnig er verkfræðingur hjá ESO. Myndin var tekin frá Paranal stjörnustöðinni, einum besta stað heims til stjörnuathugana, þar sem Very Large Telescope ESO er staðsettur. Að auki nýtti Guisard sérfræðiþekkingu sína sem sjóntækjafræðingur sem sérhæfir sig í sjónaukum, sjaldgæf blanda í heimi stjörnuljósmyndara, til að taka myndina. Guisard er yfirmaður sjóntækjafræðihópsins á Paranal og ber ábyrgð á að myndgæði Very Large Telescope séu ávallt hin bestu.

Guisard tók 1200 stakar ljósmyndir til að útbúa þessa glæsilegu litmynd af miðju Vetrarbrautarinnar. Í heild nam lýsingartíminn 200 klukkustundum en myndirnar voru teknar á 29 nóttum í frítíma Guisards en hann vann á daginn í Paranal [1].

Myndin sýnir svæði á himninum sem nær frá stjörnumerkjunum Bogmanninum til Sporðdrekans. Hægra megin er litríkt svæði kennt við ró í Naðurvalda og Antares áberandi og sömuleiðis skuggaþokur eins og Pípuþokan og Snákaþokan sem þó eru miklu daufari. Rykslæða Vetrarbrautarinnar liggur skáhallt í gegnum myndina, útötuð í björtum, rauðleitum geimþokum eins og Lónþokunni og Þrískiptuþokunni og NGC 6357 og NGC 6334. Á bak við þessa dökku slæðu er miðja Vetrarbrautarinnar þar sem risasvarthol lúrir.

„Svæðið sem ég sýni á myndinni er ótrúlega fjölbreytt og ríkulegt svæði á himninum og það sem mér þykir fallegast“ segir Guisard.

Þessi glæsilega mynd er önnur myndin af þremur í hárri upplausn sem mynda GigaGalaxy Zoom verkefni ESO og útbúin er í tilefni af Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009. GigaGalaxy Zoom gerir notendum kleift að kafa inn í Vetrarbrautina okkar og læra meira um f um þau fjölmörgu ólíku fyrirbæri sem á myndinni eru, eins og litríkar geimþokur og sprengistjörnur með því að smella á þau. Þannig er leitast við að tengja himininn sem við sjáum með berum augum við hinn djúpa „dulda“ alheim sem stjörnufræðingar rannsaka daglega. Gæði myndanna ber vitni um glæsilegan næturhiminn yfir stjörnustöðvum ESO í Chile, öflugustu stjörnustöðvum heims.

Þriðja GigaGalaxy Zoom myndin verður birt í næstu viku, þann 28. september 2009.

Skýringar

[1] Myndin var tekin frá Paranal stjörnustöðinni í Chile með 10 cm Takahashi FSQ106Ed f/3,6 sjónauka og SBIG STL CCD myndavél á NJP160 sjónaukastæði. Myndir voru teknar í gegnum þrjár mismunandi síur (B, V og R) og þeim síðan staflað saman. Svæðinu var skipt í um 52 hluta og um 1200 stakar ljósmyndir teknar. Í heild nam lýsingartíminn 200 klukkustundum. Lokamyndin er 24.403 x 13.973 pixlar.

Frekari upplýsingar

ESO er þátttakandi í nokkrum metnaðarfullum vísindamiðlunarverkefnum á Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009 í samræmi við að vera leiðandi á sviði stjarnvísinda. ESO hýsir skrifstofu alþjóðaársins fyrir hönd Alþjóðasambands stjarnfræðinga sem hefur yfirumsjón með hátíðahöldunum um allan heim. ESO tekur þátt í skipulagningu stjörnufræðiársins og lagði líka sitt af mörkum til samþykktarinnar sem Ítalía lagði fram hjá Sameinuðu þjóðunum sem leiddi til þess að 62. þing Sameinuðu þjóðanna lýsti árið 2009 Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar. ESO hefur umsjón með þremur af tólf alþjóðlegum hornsteinsverkefnum auk þess að koma að fjölmörgum öðrum fyrirhuguðum verkefnum.

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Frakkinn Stéphane Guisard hefur unnið hjá ESO í Chile frá árinu 1994. Hann er nú yfirmaður sjóntækjafræðihóps Very Large Telescope (VLT) ESO og hefur umsjón með spegilstillingu sjónaukanna á Paranal, viðhaldi þeirra og vinnur að því að bæta myndgæði og virku sjóntæki sjónaukans. Stéphane ver stærstum hluta frítíma síns í að ljósmynda næturhiminninn undir sama kristaltæra heiðskíra himni og VLT. Glæsilegar stjörnuljósmyndir hans og myndskeið hafa ratað í fjölmargar bæktur og sjónvarpsþætti. Stéphane Guisard er líka ljósmyndari fyrir The World At Night (TWAN) verkefnið.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Stéphane Guisard
ESO
Garching, Germany
Sími: +56 55 43 5283
Tölvupóstur: sguisard@eso.org

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Olivier Hainaut
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6752
Tölvupóstur: ohainaut@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0934.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0934is
Legacy ID:PR 34/09
Nafn:Milky Way
Tegund:Milky Way : Sky Phenomenon : Night Sky : Milky Way
Facility:Other

Myndir

A 340-million pixel starscape from Paranal
A 340-million pixel starscape from Paranal
texti aðeins á ensku
Astrophotographer Stéphane Guisard
Astrophotographer Stéphane Guisard
texti aðeins á ensku
GigagalaxyZoom phase 2
GigagalaxyZoom phase 2
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming onto Messier 4
Zooming onto Messier 4
texti aðeins á ensku
Zooming onto Messier 8
Zooming onto Messier 8
texti aðeins á ensku