eso0932is — Fréttatilkynning

ESO birtir glæsilega og gagnvirka 360 gráðu víðmynd af öllum næturhimninum

14. september 2009

Fyrsta myndin af þremur í GigaGalaxy Zoom verkefninu — ný og glæsileg 800 milljón pixla víðmynd af næturhimninum eins og hann birtist frá stjörnustöðvum ESO í Chile — hefur verið birt. Verkefnið gerir stjörnuáhugafólki kleift að skoða og upplifa alheiminn eins og hann sést með berum augum frá dimmustu og bestu stjörnuathugunarstöðum heims.

Þessi 360 gráðu yfirlitsmynd sýnir allt himinhvolfið sem umlykur litla bláa hnöttinn okkar. Þessi glæsilega mynd er fyrsta myndin af þremur í hárri upplausn sem mynda GigaGalaxy Zoom verkefni ESO og útbúin er í tilefni af Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009. GigaGalaxy Zoom gerir notendum kleift að kafa inn í Vetrarbrautina okkar og læra meira um þau fjölmörgu ólíku fyrirbæri sem á myndinni eru, eins og litríkar geimþokur og sprengistjörnur með því að smella á þau. Þannig er leitast við að tengja himininn sem við sjáum með berum augum við hinn djúpa „dulda“ alheim sem stjörnufræðingar rannsaka daglega. Gæði myndanna er til vitnis um glæsilegan næturhiminn yfir stjörnustöðvum ESO í Chile, öflugustu stjörnustöðvum heims.

Flötur Vetrarbrautarinnar, sem við sjáum á rönd frá jörðinni, liggur sem ljósleitur svermur stjarna lárétt yfir myndina. Vörpun GigaGalaxy Zoom er eins og við sæjum Vetrarbrautina utan frá. Frá þessu sjónarhorni koma helstu drættir þyrilþokunnar í ljós, þar á meðal skífan, sem í eru bæði dökkar og rauðglóandi geimþokur sem hýsa bjartar, ungar stjörnur, miðbungan og fylgivetrarbrautir.

Myndin er afrakstur langs samstarfs ESO og franska rithöfundarins og stjörnuljósmyndarans Serge Brunier og landa hans og samstarfsmanns Frédéric Tapissier. Milli ágústs 2008 og febrúar 2009 varði Brunier nokkrum vikum í myndatökur af himninum frá stjörnustöðvum ESO í La Silla og Paranal í Chile. Brunier dvaldi líka í viku á La Palma, einni Kanaríeyja, til að ljósmynda norðurhluta himins [1] svo öll vetrarbrautarslæðan næðist á eina mynd. Þegar allar myndirnar höfðu verið teknar tóku Tapissier og sérfræðingar ESO við þeim og unnu þannig að þær sýndu sem best hvernig við sjáum himininn með berum augum [2]. Afraksturinn er nú aðgengilegur sem GigaGalaxy Zoom. Myndin samanstendur af nærri 300 svæðum sem Brunier ljósmyndaði fjórum sinnum. Í heild eru ljósmyndirnar af öllum næturhimninum því næstum 1200 talsins.

„Ég vildi sýna himinn sem allir geta tengt sig við — með öllum stjörnumerkjunum, öllum stjörnunum, öllum nöfnunum sem eru kunnugleg frá barnæsku, öllum goðsögunum sem liggja að baki honum og allar siðmenningar hafa deilt frá því að maðurinn varð viti borinn“ segir Brunier. „Myndin var þar af leiðandi búin til eins og maður sér himinninn með venjulegri stafrænni myndavél undir dimmum himni í Atacamaeyðimörkinni og á La Palma.“

Myndatakan tók nokkra mánuði. Því birtust á myndunum fyrirbæri í sólkerfinu á ýmsum stöðum á himninum, t.d. bjartar reikistjörnur eins og Venus og Júpíter. Falleg ljósgræn halastjarna sveif framhjá en erfitt (en gefandi) er að greina hana innan um mörg þúsund milljón stjörnur í bakgrunni.

Skaparar GigaGalaxy Zoom verkefnisins vona að þessi mikla vinna við að færa stjörnuáhugafólki um allan heim næturhiminninn eins og hann sést við bestur aðstæður á jörðinni innblástur fyrir fegurð og mikilfengleika alheimsins sem við búum í.

„Markmið Alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar 2009 er að hjálpa fólki að enduruppgötva stöðu sína í alheiminum með myndum af himninum, hvort sem er að degi til eða á næturnar. Það er nákvæmlega það sem GigaGalaxy Zoom verkefnið snýst um“ segir Henri Boffin, verkefnisstjóri.

Í næstu viku, þann 21. september 2009, verður önnur GigaGalaxy Zoom myndin birt.

Skýringar

[1] Serge Brunier notaði stafræna Nikon D3 myndavél til að taka myndirnar. Nákvæmt pólstillt sjónaukastæði sem fylgir snúningi jarðar var notað til að leiðrétta fyrir sýndarsnúningi himins. Stæðið snerist einn hring á 23 klukkustundum og 56 mínútum. Hver ljósmynd var lýst í sex mínútur svo heildarlýsingartíminn nemur því meira en 120 klukkustundum.

[2] Unnið var úr myndunum með hugbúnaði sem kallast Autopano Pro Giga. Natni þurfti til að lagfæra liti og áferð Vetrarbrautarinnar. Myndvinnsla Frédéric Tapissier tók um 340 klukkustundir á öflugri tölvu.

Frekari upplýsingar

ESO er þátttakandi í nokkrum metnaðarfullum vísindamiðlunarverkefnum á Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009 í samræmi við að vera leiðandi á sviði stjarnvísinda. ESO hýsir skrifstofu alþjóðaársins fyrir hönd Alþjóðasambands stjarnfræðinga sem hefur yfirumsjón með hátíðahöldunum um allan heim. ESO tekur þátt í skipulagningu stjörnufræðiársins og lagði líka sitt af mörkum til samþykktarinnar sem Ítalía lagði fram hjá Sameinuðu þjóðunum sem leiddi til þess að 62. þing Sameinuðu þjóðanna lýsti árið 2009 Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar. ESO hefur umsjón með þremur af tólf alþjóðlegum hornsteinsverkefnum auk þess að koma að fjölmörgum öðrum fyrirhuguðum verkefnum.

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Serge Brunier er franskur blaðamaður, ljósmyndari og rithöfundur sem sérhæfir sig í miðlun stjarnvísinda. Hann skrifar reglulega í Science & Vie tímaritið og er pistlahöfundur á franskri útvarpsstöð. Brunier hefur skrifað fjölda vinsælla stjörnufræðibóka sem þýddar hafa verið á yfir tíu tungumál og er verðlaunaljósmyndari sem tekið hefur myndir af sólmyrkvum frá mörgum mögnuðustu stöðum heims. Ævilöng leit að besta himni í heimi leiddi hann til Chile.

Víðmyndin var kynnt milli 25. ágúst og 13. september 2009 á sýningunni „Un ciel pour la planète“ (Himinn fyrir reikistjörnuna) í aðalsal Monte-Carlo spilavítisins í Mónakó. Risaútprent, 12 sinnum 6 metrar, var til sýnis undir verndarvæng Alberts II Mónakóprins og sýnir myndir og myndskeið af þessu einstaka verkefni ESO.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Serge Brunier
Paris, France
Sími: +33 (0)6 80 05 41 81
Tölvupóstur: serge.brunier@wanadoo.fr

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Olivier Hainaut
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6752
Tölvupóstur: ohainaut@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0932.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0932is
Legacy ID:PR 32/09
Nafn:Milky Way
Tegund:Milky Way
Facility:Other

Myndir

The Milky Way panorama
The Milky Way panorama
texti aðeins á ensku
Astrophotographer Serge Brunier
Astrophotographer Serge Brunier
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Voyage in the Milky Way
Voyage in the Milky Way
texti aðeins á ensku