eso0930is — Fréttatilkynning

Þrjár þokur í Þrískiptuþokunni

26. ágúst 2009

Í dag birtir ESO nýja mynd af Þrískiptuþokunni (e. Trifid Nebula) sem sýnir vel hvers vegna hún er í miklu uppáhaldi stjörnuáhugamanna og stjörnufræðinga. Þessi stóra stjörnuverksmiðja dregur nafn sitt af dökku rykslæðunum sem skipta þokunni í þrennt. Þrískiptaþokan er sjaldséð blanda þriggja tegunda þoka þar sem nýjar og öflugar stjörnur eru að myndast.

Þrískipta þokan (eða Þríklofna þokan) er í nokkur þúsund ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bogmanninum. Í henni sjást fyrstu stigin í myndun stjarna á tilþrifamikinn hátt, allt frá „getnaði“ og þar til fyrsta ljósið berst frá þeim. Nýmynduðu stjörnurnar í þokunni eru mjög heitar og gefa frá sér öfluga vinda sem hræra í gasinu og rykinu svo að með tímanum munu dökku efnisskýin, sem eru á víð og dreif um þokuna, falla saman og mynda nýjar stjörnur.

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier sá Þrískiptuþokuna fyrstur manna í júní árið 1764. Hann lýsti henni sem þokukenndu, glóandi fyrirbæri og færði hana í fræga skrá sína, þá 20. í röðinni. Sextíu árum síðar sá enski stjörnufræðingurinn John Herschel rykslæðurnar sem skipta þokunni í þrennt. Hann nefndi hana því Þrískiptuþokuna.

Þessi nýja mynd var tekin með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöðinni í La Silla í norður Chile. Myndin er í sýnilegu ljósi en á henni sjást ólík svæði Þrískiptuþokunnar vel. Bláa svæðið ofarlega til vinstri er endurskinsþoka. Í henni dreifa gas og ryk ljós frá stjörnunum sem Þrískipta þokan hefur getið af sér. Stærsta og skærasta stjarnan á þessu svæði er auk þess mjög heit og því bláleit. Ryk og gassameindir dreifa bláu ljósi betur en rauðu — eiginleiki sem skýrir hvers vegna himininn er blár og sólsetur rauð — sem gefur þessum hluta Þrískiptuþokunnar bláan blæ.

Rauðbleika rósarlaga svæðið undir er dæmigerð ljómþoka. Mörg hundruð ungar og heitar stjörnur í hjarta hennar gefur frá sér orkuríkt ljós sem fær vetnisgasið til að ljóma svo það gefur frá sér rautt ljós. Á svipaðan hátt gefur heitt neongas frá sér rauð-appelsínugult ljós í auglýsingaskiltum um allan heim.

Dökku gas og rykskýin sem kljúfa Þrískiptuþokuna er þriðja þokutegundin á svæðinu. Þær eru þekktar sem skuggaþokur því þær koma í veg fyrir að ljós berist til okkar. Riddaraþokan í Óríon er frægust slíkra þoka. Í þeim eru stjörnur líka að myndast. Þegar skýið fellur saman undan eigin þyngdarkrafti eykst þéttleikinn svo þrýstingurinn og hitastigið vex. Að lokum leiðir það til kjarnasamruna í gashnoðrum innan í skuggaþokunum svo fleiri stjörnur myndast.

Í neðri hluta ljómþokunnar stingst stöpull eins og fingur út úr skýinu og bendir beint á stjörnuna sem knýr Þrískiptuþokuna áfram. Stöpullinn er dæmi um gashnoðra sem er að gufa upp en þeir hafa líka sést í Arnarþokunni, öðru stjörnumyndunarsvæði. Á fingurbjörginni, sem Hubble geimsjónaukinn hefur tekið mynd af, er þéttur gashnoðri sem hefur staðið af sér stöðugan ágang geislunar frá stóru stjörnunni.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0930.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0930is
Legacy ID:PR 30/09
Nafn:Trifid Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The Trifid Nebula
The Trifid Nebula
texti aðeins á ensku
The Trifid Nebula (full frame)
The Trifid Nebula (full frame)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zoom in to the Trifid Nebula
Zoom in to the Trifid Nebula
texti aðeins á ensku