eso0926is — Fréttatilkynning

Örn af stjarnfræðilegri stærð

16. júlí 2009

Í dag birtir ESO nýja og glæsilega mynd af svæðinu í kringum Arnarþokuna, stjörnumyndunarsvæði þar sem nýmótaðar stjörnuþyrpingar höggva risastöpla úr gasinu og rykinu.

Arnarþokan er í um 7.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Höggorminum. Hún er tignarlegt svæði gass og ryks þar sem nýjar stjörnur eru í mótun og þyrping heitra og massamikilla stjarna, NGC 6611, er nýmynduð. Þessir massamiklu nýgræðingar gefa frá sér öflugt ljós og öfluga vinda sem móta stöplana sem sjást á myndinni. Stöplarnir eru nokkur ljósár á lengd og birtast okkur sem skuggamyndir fyrir framan bjarta þokuna í bakgrunni. Lögun þokunnar sjálfrar minnir óljóst á örn en stöplarnir í miðjunni eru klærnar.

Svissneski stjörnufræðingurinn Jean-Philippe Loys de Chéseaux uppgötvaði þokuna í kringum árið 1745. Frakkinn Charles Messier var í leit að halastjörnum þegar hann kom sjálfur auga á þokuna um tuttugu árum síðar og færði hana í fræga skrá sína, þá sautjándu í röðinni, en hann tók eftir daufum bjarma í kringum stjörnurnar. Arnarþokan varð heimsfræg árið 1995 þegar Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók mynd af stöplunum í miðjunni. Árið 2001 tók Very Large Telescope (VLT) aðra glæsilega mynd af þokunni í nær-innrauðu ljósi sem gerði stjörnufræðingum kleift að svipta hulunni af stjörnum sem eru að myndast í stöplunum.

Nýja myndin sem hér sést var tekin með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla í Chile. Myndin nær yfir svæði á himninum sem er álíka breitt og fullt tungl. Hún er 15 sinnum víðari en eldri mynd VLT og meira en 200 sinnum víðari en ljósmynd Hubbles. Fjölmörg smáatriði sjást á svæðinu í kringum stöplana.

Á miðri mynd eru „stöplar sköpunarinnar“ en þar fyrir ofan og til hægri er unga stjörnuþyrpingin NGC 6611. „Kirkjuturninn“ — annar stöpull sem Hubble hefur ljósmyndað — er vinstra megin við miðja mynd.

Sjá má ský sem líkjast fingrum stingast út frá stórum svæðum úr köldu gasi og ryki, ekki ósvipað drönglum úr kalkspati sem myndast upp frá gólfum kalksteinshella. Í stöplunum er gasið nógu þétt til að falla saman undan eigin þunga og mynda nýjar stjörnur. Þessir gas- og rykstöplar eru nokkur ljósár að lengd. Þeir mótast, lýsast upp og tortímast allt í senn vegna þeirrar sterku útfjólubláu geislunar sem stórar stjörnur í ungu stjörnuþyrpingunni við hliðina, NGC 6611, gefa frá sér. Eftir nokkrar milljónir ára — augnablik á stjarnfræðilegan mælikvarða — verða þeir horfnir að eilífu.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0926.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0926is
Legacy ID:PR 26/09
Nafn:Eagle Nebula
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Milky Way : Nebula
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope, Very Large Telescope
Instruments:WFI

Myndir

The Eagle Nebula
The Eagle Nebula
texti aðeins á ensku
Digitized sky survey image of the Eagle Nebula
Digitized sky survey image of the Eagle Nebula
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Into the Eagle Nebula
Into the Eagle Nebula
texti aðeins á ensku
Pan over the Eagle Nebula
Pan over the Eagle Nebula
texti aðeins á ensku
VLT, WFI and Hubble observations of the Eagle Nebula
VLT, WFI and Hubble observations of the Eagle Nebula
texti aðeins á ensku