eso0924is — Fréttatilkynning

Nýr leiðarvísir stjörnufræðinga um Vetrarbrautina: Stærsta kort af köldu ryki birt

1. júlí 2009

Stjörnufræðingar hafa birt nýtt kort af innri svæðum Vetrarbrautarinnar sem sýnir þúsundir þéttra og áður óþekktra kekki úr köldu geimryki — hugsanlega fæðingarstaði nýrra stjarna. Kortið var búið til úr mælingum sem gerðar voru með APEX sjónaukanum í Chile. Kortið er hið stærsta sem birst hefur af köldu ryki og mun því veita ómetanlegar upplýsingar fyrir athuganir með ALMA sjónaukanum í framtíðinni og Herschel geimsjónauka ESA sem nýlega var skotið á loft.

Þessi nýi leiðarvísir stjörnufræðinga nefnist APEX Telescope Large Area Survey of the Galaxy (ATLASGAL) og sýnir vetrarbrautina okkar á hálfsmillímetra bylgjulengdum ljóss (milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna [1]). Myndir á þessum bylgjulengdum eru nauðsynlegar til að rannsaka myndunarstaði nýrra stjarna og uppbyggingu kjarna Vetrarbrautarinnar.

„ATLASGAL gefur okkur nýja mynd af Vetrarbrautinni. Kortið mun ekki aðeins hjálpa okkur að rannsaka hvernig massamiklar stjörnur myndast heldur mun það veita okkur yfirlit yfir stórgerð Vetrarbrautarinnar“ sagði Frederic Schuller við Max Planck stofnunina í útvarpsstjörnufræði og yfirmaður ATLASGAL hópsins.

Nýja hálfsmillímetra kortið er um það bil 95 fergráður að stærð. Það nær yfir langa en mjóa rönd á fleti Vetrarbrautarinnar sem er tvær gráður á breidd (fjórfalt breiðara en fullt tungl) og meira en 40 gráður að lengd. Kortið er 16.000 pixla langt og var útbúið með LABOCA hálfsmillímetra mælinum á APEX sjónauka ESO. APEX er staðsettur á Chajnantor sléttunni sem er í 5100 metra hæð í Andesfjöllum Chile. Þar er loftið einstaklega þurrt og staðurinn þess vegna kjörinn til rannsókna á hálfsmillímetra sviðinu. Segja má að alheimurinn sé svo til óplægður akur á hálfsmillímetra bylgjulengdum því slíkar mælingar krefjast þurrs loftslags og mjög góðra mælitækja.

Miðgeimsefnið — efnið milli stjarnanna — er úr gasi og geimryki sem er eins og fínn sandur eða sót. Gasið er að mestu úr vetni sem er tiltölulega erfitt að mæla svo stjörnufræðingar leita oft að þessum þéttari svæðum með því að mæla daufa varmageislun frá geimryki.

Stjörnufræðingar geta greint hálfsmillímetra geislun frá þessu ryki, jafnvel þótt það byrgi okkur sýn á alheiminn í sýnilegu ljósi. ATLASGAL kortið sýnir því þéttari svæði Vetrarbrautarinnar í átt að stjörnumerkinu Bogmanninum — þar sem risasvarthol er að finna (eso0846) — sem annars er falið fyrir aftan dökk rykský.

Á nýja kortinu eru einnig þúsundir þéttra ryksvæða sem mörg hafa aldrei sést áður. Þar munu massamiklar stjörnur myndast í framtíðinni. Ryksvæðin eru venjulega nokkur ljósár að stærð og allt frá tíu sinnum til nokkur þúsund sinnum massameiri en sólin okkar. Auk þess hefur ATLASGAL náð myndum af fallegum þráðum og kúlum í miðgeimsefninu sem sprengistjörnur og vindar frá björtum stjörnum hafa blásið.

Á kortinu eru nokkur glæsileg svæði, meðal annars miðja Vetrarbrautarinnar, Sagittarius B2 sem er nálægt massamikið og þétt gasský og RCW120 sem er gaskúla í útþenslu en miðgeimsefni í kringum hana er að falla saman og mynda nýjar stjörnur (sjá eso0840).

„Það er spennandi að sjá fyrstu myndir ATLASGAL en á næstu árum munum við stækka kortið svo það nái yfir allan flöt Vetrarbrautarinnar sem er sjáanlegur frá Chajnantor sléttunni þar sem APEX er staðsettur. Þessar athuganir verða lagðar saman við innrauðar mælingar Herschel geimsjónauka ESA. Við hlökkum til þeirra nýju uppgötvana sem gerðar verða með þessu korti en það mun líka vera leiðarvísir fyrir athuganir í framtíðinni með ALMA“ sagði Leonardo Testi hjá ESO, meðlimur í ATLASGAL hópnum og vísindamaður við ALMA verkefnið.

Skýringar

[1] Kortið var búið til úr stökum mælingum APEX sem gerðar voru á 870 µm (0,87 mm) bylgjulengd.

Frekari upplýsingar

Greint er frá ATLASGAL mælingunum í grein eftir Frederic Schuller et al., ATLASGAL — The APEX Telescope Large Area Survey of the Galaxy at 870 µm, sem birt er í Astronomy & Astrophysics. ATLASGAL er samstarfsverkefni Max Planck stofnunarinnar í útvarpsstjörnufræði, Max Planck stofnunarinnar í stjörnufræði, ESO og Chileháskóla.

LABOCA (Large APEX Bolometer Camera), eitt helsta mælitæki APEX, er stærsti alrófsmælir heims (hitageislunarmælir sem mælir hárfínar hitastigsbreytingar sem verða þegar hálfsmillímetra geislun fellur á yfirborð hans: sjá eso0735). LABOCA er mjög næmt og með vítt sjónsvið (þriðjungur af þvermáli fulls tungls) og er stjörnufræðingum ómetanlegt verkfæri í að kortleggja alheiminn í hálfsmillímetra bylgjulengdum. LABOCA var smíðað af Max Planck stofnunni í útvarpsstjörnufræði.

Atacama Pathfinder Experiment (APEX) er 12 metra breiður sjónauki á Chajnantor sléttunni í 5100 metra hæð í Andesfjöllunum í Chile. Sjónaukinn nemur millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir sem er tiltölulega óplægður akur í stjörnufræði því þörf er á góðum mælitækjum og mjög háum og þurrum athugunarstað eins og Chajnantor. APEX er stærsti hálfsmillímetra sjónauki á suðurhveli jarðar og er samstarfsverkefni Max Planck stofnunarinnar í útvarpsstjörnufræði, Onsala Space Observatory og ESO. ESO sér um að starfrækja APEX á Chajnantor. APEX er undanfari ALMA — frumgerð loftnetanna sem smíðuð voru fyrir ALMA sem verður á sömu sléttu. Hann á að finna fjölmörg fyrirbæri sem ALMA kemur til með að kanna nánar.

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) er alþjóðleg stjörnustöð og samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku, austur Asíu í samvinnu við lýðveldið Chile. ESO er evrópski hluthafinn í ALMA. ALMA er stærsta stjarnvísindaverkefni sem til er, byltingarkenndur sjónauki sem samanstendur af röð 66 stórra 12 metra og 7 metra breiðra loftneta sem mæla millímetra og hálfsmillímetra geislun. ALMA mun hefja mælingar árið 2011.

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Frederic Schuller
Max-Planck Institute for Radio Astronomy
Garching, Germany
Sími: +49 228 525 126
Tölvupóstur: schuller@mpifr-bonn.mpg.de

Leonardo Testi
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6541
Tölvupóstur: ltesti@eso.org

Douglas Pierce-Price
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6759
Tölvupóstur: dpiercep@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0924.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0924is
Legacy ID:PR 24/09
Nafn:Messier 20, Milky Way Galactic Centre, NGC 6334, NGC 6357, Norma Arm, RCW120, Sagittarius B2
Tegund:Milky Way : Galaxy
Facility:Atacama Pathfinder Experiment
Instruments:LABOCA
Science data:2009A&A...504..415S

Myndir

View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey (annotated and in five sections)
View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey (annotated and in five sections)
texti aðeins á ensku
View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey (annotated)
View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey (annotated)
texti aðeins á ensku
View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey (in five sections)
View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey (in five sections)
texti aðeins á ensku
View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey
View of the Galactic Plane from the ATLASGAL survey
texti aðeins á ensku
The Galactic Centre and Sagittarius B2
The Galactic Centre and Sagittarius B2
texti aðeins á ensku
The NGC 6357 and NGC 6334 nebulae
The NGC 6357 and NGC 6334 nebulae
texti aðeins á ensku
The RCW120 nebula
The RCW120 nebula
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Annotated pan along part of the Galactic Plane as seen by the ATLASGAL survey
Annotated pan along part of the Galactic Plane as seen by the ATLASGAL survey
texti aðeins á ensku