Að eiga viðskipti við ESO

Vísindamenn og verkfræðingar ESO vinna baki brotnu með samherjum sínum úr evrópskum iðnaði og öðrum evrópskum rannsóknarstofnunum að tækniþróun fyrir framtíðina. Án þátttöku þeirra yrðu verkefni ESO ekki að veruleika. Tækniskipti koma samfélaginu öllu til góða, einkum aðildarríkjum ESO.

Sum þessara verkefna lúta að þróun ljósrásarkerfa og stýribúnaðar fyrir þung tæki. Önnur snúa að þróun vél- og tölvubúnaðar fyrir sjónauka og mælitæki, hugbúnaðar fyrir myndvinnslu og meðhöndlun gagna. Hjá ESO voru virk sjóntæki þróuð sem ullu straumhvörfum í smíði stórra stjörnusjónauka og átti stóran þátt í þróun aðlögunarsjóntækninnar. Sú sjóntækni er ekki aðeins mikilvæg næstu kynslóðum sjónauka, heldur ryður hún sér nú einnig til rúms í hefðbundnari ljóstækni. Sem dæmi hefur hún verið nýtt í nútíma læknisfræði í tengslum við leysigeislaaðgerðir til leiðréttingar á augnskekkjum.

ESO er í nánu samstarfi við háskólastofnanir innan og utan aðildarríkja sinna á sviði tækniþróunar. Þess vegna taka stjörnufræðingar virkan þátt í þróun og smíði mælitækja fyrir VLT, VLT víxlmælinn og aðra sjónauka. Tækjaþróun býður upp á marga möguleika fyrir hátæknifyrirtæki og &ndashstofnanir og laðar til sín unga vísindamenn og verkfræðinga.