Halastjarna Rosetta

Í dag, 20. janúar, mun Rosetta geimfar ESA vakna eftir 31 mánaða svefn í geimnum í lokaundirbúningi fyrir stefnumót þess við halastjörnuna 67P/Churyumov-Gersimenko (67P/CG).

Á myndinni sjást nýlegustu athuganir Very Large Telescope (VLT) ESO á hinni 4 km breiðu halastjörnu en þær voru gerðar 5. október 2013 þegar halastjarnan var í um 500 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni. Skömmu síðar hvarf hún á bakvið sólina og um leið sjónum okkar frá Jörðinni.

Myndin sem hér sést sýnir bæði halastjörnuna án stjarna í bakgrunni (vinstra megin) og feril hennar miðað við fastastjörnur í bakgrunni (hægra megin). Þegar halastjarnan var fyrir framan stjörnuskarann í miðju Vetrarbrautarinnar, var hún enn of fjarri sólinni til að þess að ískjarninn væri virkur og gaf hún því hvorki frá sér gas né ryk og sýnist því stakur punktur. Þegar halastjarnan nálgast sólina mun virknin aukast til muna, yfirborðið hitna og þurrgufa og hali myndast.

Athuganirnar marka upphafið á nánu samstarfi ESA og ESO um vöktun á halastjörnunni frá Jörðu þegar Rosetta nálgast og heimsækir halastjörnuna 67P/CG síðar á árinu. Rosetta var skotið á loft árið 2004 og á að rannsaka yfirborð halastjörnunnar með því að losa lendingarfar niður á yfirborð 67P/CG til nánari könnunar [1].

Halastjarnan gengur um sólina á 6,5 árum og er nú við braut Júpíters. Í ágúst 2014 verður hún næst sólinni, þá nokkurn veginn á milli brauta Jarðar og Mars. Myndirnar benda til að halastjarnan sé enn ekki virk svo vísindamenn hlakka til að skoða hana aftur í febrúar, næst þegar hún sést vel frá VLT og er mun nær sólinni.

Í millitíðinni hafa mælingarnar sem gerðar voru í október verið notaðar til að staðfesta braut halastjörnunnar áður en stefnu Rosetta verður breytt í maí fyrir stefnumótið stóra við 67P/CG í ágúst. Frekari útreikningar verða gerðir þegar Rosetta kemur fyrst auga á halastjörnuna með eigin myndavélum.

Skýringar

[1] Frá geimskoti hefur Rosetta ferðast fimm sinnum í kringum sólina, aukið hraða sinn og stillt sig af fyrir stefnumótið við halastjörnuna. Fyrir kaldasta hluta ferðarinnar, þegar Rosetta hætti sér út fyrir braut Júpíters, var geimfarið í djúpsvefni. 67P/CG er á tiltölulega stöðugri og þekktri braut um sólina, sem þýðir að hægt var að reikna út brautarferil Rosettu löngu áður en geimfarinu var skotið á loft, en halastjarnan er líka nógu langt frá sólinni til að vera öruggt rannsóknarefni.

Tenglar

Mynd/Myndskeið:

ESO, Colin Snodgrass (Max Planck Institute for Solar System Research, Germany)

Um myndina

Auðkenni:potw1403a
Tungumál:is
Tegund:Athuganir
Útgáfudagur:Jan 20, 2014, 10:00 CET
Stærð:2088 x 1050 px

Um fyrirbærið

Nafn:67P/Churyumov-Gerasimenko
Tegund:Solar System : Interplanetary Body : Comet

Myndasnið

Stór JPEG
751,5 KB

Litir og síur

TíðnisviðSjónauki
Sýnilegt
R
Very Large Telescope
FORS2