Stjörnur á snúningi
Við fyrstu sýn lítur þessi mynd út eins og abstrakt listaverk úr nútímanum, en í raun er þetta mynd tekin á löngum tíma af næturhimninum yfir Chajnantor hásléttunni í Andesfjöllum Chile. Þegar jörðin snýst í átt að nýjum degi, mynda stjörnur Vetrarbrautarinnar litríkar rákir yfir eyðimerkurhimninum. Fremst sést hátæknivæddur stjörnusjónauki, dálítið draumkenndur á þessari mynd.
Þessi heillandi mynd var tekin í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor hásléttunni, heimili Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukans, sem hér sést. APEX er 12 metra breiður sjónauki sem safnar ljósi á millímetra og hálfsmillímetra sviðinu. Stjörnufræðingar nota APEX til að rannsaka fyrirbæri á borð við köld gas- og rykský, þar sem nýjar stjörnur verða til, og elstu og fjarlægustu vetrarbrautir alheims.
APEX er forveri Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), byltingarkennds sjónauka sem ESO og alþjóðlegir samstarfsaðilar eru að koma upp og starfrækja á Chajnantor hásléttunni. Þegar smíði ALMA lýkur árið 2013 mun röðin samanstanda af fimmtíu og fjórum 12 metra breiðum loftnetum auk tólf 7 metra breiðum loftnetum. Sjónaukarnir tveir bæta hvorn annan upp: Með sínu víða sjónsviði getur ALMA fundið mörg áhugaverð viðfangsefni á stórum svæðum á himninum sem ALMA mun rannsaka nánar í miklu hærri upplausn. Bæði APEX og ALMA eru mikilvæg tæki sem hjálpa stjörnufræðingum að læra meira um það hvernig alheimurinn virkar, eins og myndun stjarnanna sem sjást á snúningi á myndinni.
Babak Tafreshi, ljósmyndari ESO, tók þessa mynd. Hann er einnig stofnandi The World at Night, verkefnis sem snýst um að búa til og sýna glæsilegar ljósmyndir og myndskeið af fallegum og sögufrægum stöðum á jörðinni undir stjörnubjörtum himni.
APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu.
Tenglar
Mynd/Myndskeið:ESO/B. Tafreshi (twanight.org)
Um myndina
Auðkenni: | potw1250a |
Tungumál: | is |
Tegund: | Ljósmynd |
Útgáfudagur: | Des 10, 2012, 10:00 CET |
Stærð: | 5995 x 3855 px |
Um fyrirbærið
Nafn: | Atacama Pathfinder Experiment |
Tegund: | Unspecified : Technology : Observatory : Telescope Milky Way : Sky Phenomenon : Night Sky : Trail |
Mounted Image
Myndasnið
Bakgrunnsmynd