Risabóla sem kemur á óvart
Á þessari nýju og litríku mynd sést stjörnumyndunarsvæðið LHA 120-N44 [1] í Stóra Magellansskýinu, lítilli fylgivetrarbraut okkar vetrarbrautar. Mynd frá 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile af sýnilegu ljósi hefur verið skeytt saman við myndir af innrauðu ljósi og röntgengeislun sem teknar voru með geimsjónaukum.
Svæðið inniheldur gas, ryk og ungar stjörnur en í miðju þess er stjörnuþyrpingin NGC 1929. Stærstu stjörnurnar í henni gefa frá sér sterka geislun og varpa frá sér efni með miklu offorsi á formi stjörnuvinda. Þær eiga skamma en kröftuga ævi fyrir höndum sem endar á því, að þær springa. Stjörnuvindarnir og höggbylgjur frá sprengistjörnum hafa skapað stórt holrúm, sem kallast risabóla, í umlykjandi gasi.
Mælingar Chandra röntgengeimsjónauka NASA (sýndar bláar) sýna heitustu svæðin sem vindarnir og höggbylgjurnar hafa myndað en innrauð gögn frá Spitzer geimsjónauka NASA (sýndar rauðar) marka þá staði þar sem ryk og kaldara gas er að finna. Mynd 2,2 metra MPG/ESO sjónaukans (gul) af sýnilegu ljósi setja svo punktinn yfir i-ið en hún sýnir heitu, ungu stjörnurnar sjálfar sem og glóandi gas- og rykskýin umhverfis þær.
Með því að skeyta saman þessum ólíku myndum af þessu dramatíska svæði, tókst stjörnufræðingum að leysa ráðgátu: Hvers vegna gefa N44 og samskonar risabólur frá sér svo mikla röntgengeislun? Svarið er að í skýinu eru tvær aðrar röntgenlindir: Höggbylgjur frá sprengistjörnum sem rekast á veggi í holrúminu og heitt efni sem gufar burt frá veggjum þess. Á myndinni sést þessi röntgengeislun frá jöðrum risabólunnar greinilega.
Tenglar
Skýringar
[1] Skráarheiti fyrirbærisins vísar til þess, að það er að finna í skrá yfir stjörnur og geimþokur í Magellansskýinu sem gefa frá sér vetnis-alfa geislun. Bandaríski stjörnufræðingurinn og geimfarinn Karl Henize (1926-1993) tók saman og gaf út skrána árið 1956. Bókstafurinn „N“ vísar til þess, að fyrirbærið sé geimþoka. Fyrirbærið er oft einfaldlega kallað N44.
Mynd/Myndskeið:Optical: ESO, X-ray: NASA/CXC/U.Mich./S.Oey, IR: NASA/JPL
Um myndina
Auðkenni: | potw1236a |
Tungumál: | is |
Tegund: | Athuganir |
Útgáfudagur: | Sep 3, 2012, 10:00 CEST |
Stærð: | 3600 x 2874 px |
Um fyrirbærið
Nafn: | LHA 120-N 44, NGC 1929 |
Tegund: | Local Universe : Nebula : Type : Star Formation |
Fjarlægð: | 150000 ljósár |
Constellation: | Dorado |
Bakgrunnsmynd
Hnit
Position (RA): | 5 21 37.98 |
Position (Dec): | -67° 54' 42.75" |
Field of view: | 25.28 x 20.18 arcminutes |
Stefna: | Norður er 0.1° højre frá lóðréttu |
Litir og síur
Tíðnisvið | Sjónauki |
---|---|
Röntgen | Chandra X-ray Observatory |
Sýnilegt | MPG/ESO 2.2-metre telescope WFI |
Innrautt | Spitzer Space Telescope |