Leysigeislastjarna skannar stjörnuhimininn
Öflugur leysigeisli frá Very Large Telescope (VLT) ESO skreytir næturhimininn yfir Atacamaeyðimörkinni í Chile á þessari fallegu mynd sem Julien Girard tók. Snúningur jarðar á þeim 30 mínútum sem myndin var lýst — og færsla leysigeislans þegar sjónaukinn vó á móti þessari hreyfingu — veldur því að geislinn virðist dreifa úr sér. Snúningur jarðar er einnig ástæða þess, að stjörnurnar birtast okkur sem rákir á myndinni en í þeim sést sá hárfíni litamunur sem er á mörgum þeirra.
Leysigeislinn er notaður til að útbúa ljóspunkt — gervistjörnu — með því að örva natríumatóm í 90 km hæð yfir jörðinni svo þau glóa. Mælingar á þessum leiðarstjörnum eru notaðar til að leiðrétta bjögunina sem lofthjúpur jarðar orsakar og kemur fram í mælingum. Þessi tækni kallast aðlögunarsjóntækni. Stundum eru bjartar náttúrulega stjörnur líka notaðar í aðlögunarsjóntækni en leysgeislanum má beina hvert sem er á himninum og nýta tæknina þar sem engar bjartar stjörnur eru í nágrenninu.
Stóru byggingarnar fjórar sem sjást á myndinni hýsa 8,2 metra VLT sjónaukana. Í forgrunni sést VLT Survey Telescope sem er öllu smærri. Ljósmyndarinn Julien er stjörnufræðingur hjá ESO í Chile sem starfar við VLT. Þá nótt sem hann tók þessa mynd, vann hann að mælingum með sjónaukanum lengst til hægri. Hann notaði tækifærið til að setja upp myndavélina sína á þrífót og smellti af áður en hann fór aftur inn í stjórnstöð sjónaukans.
Á meðan myndin var tekin snerust sjónaukarnir líka svo byggingarnar virðast móðukenndar. Á milli þeirra glittir í daufar ljósslóðir frá fólki sem gekk á milli sjónaukanna.
Julien sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar. Árið 2012 höldum við upp á 50 ára afmæli ESO og óskum einnig eftir myndum sem tengjast sögu ESO.
Tenglar
- Þessi mynd, merkt, á Flickr myndastraumi Juliens Girard
- Flickr myndastraumur Juliens Girard
- Your ESO Pictures” Flickr hópurinn
- Tilkynningin um "Your ESO Pictures"
ESO/J. Girard (djulik.com)
Um myndina
Auðkenni: | potw1234a |
Tungumál: | is |
Tegund: | Ljósmynd |
Útgáfudagur: | Ágú 20, 2012, 10:00 CEST |
Stærð: | 4316 x 2876 px |
Um fyrirbærið
Nafn: | Very Large Telescope |
Tegund: | Unspecified : Technology : Observatory : Facility |
Myndasnið
Bakgrunnsmynd