ann12018-is — Tilkynning

Ljósmyndir ESO í alheimssamhengi

Stjarnfræðileg lýsigögn (metadata) til að auðvelda aðgengi að stjörnuljósmyndum

9. mars 2012

Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli hefur tekið í notkun staðal sem festir viðbótarupplýsingar um innihald (lýsigögn eða metadata) við ljósmyndir í myndasafni sínu. Staðallinn nefnist Astronomy Visualization Metadata en þróun hans er afrakstur samstarfs nokkurra stórra stjarnvísindasamtaka, þeirra á meðal NASA, ESA, California Academy of Sciences og University of Arizona.

Nú er auðveldara en nokkru sinni fyrr að nálgast upplýsingar um þær glæsilegu ljósmyndir af alheiminum sem til eru, þar á meðal í gagnasafni ESO. Astronomy Visualization Metadata staðallinn var búínn til til að einfalda aðgengi að stjörnuljósmyndum með því að safna viðbótarupplýsingum um þær á staðlaðan hátt [1]. Í viðbótarupplýsingunum — þekktar sem lýsigögn (metadata) — eru geymdar upplýsingar svipaðar þeim sem finna má í öllum stafrænum ljósmyndum, svo sem myndhöfund, dagsetningu, stöðuhnit á himninum og þess háttar. Staðallinn er hins vegar hugsaður sérstaklega fyrir almenningsvænar stjörnuljósmyndir [2] sem tryggir auðvelda leit að myndum og að mun auðveldara en áður er að setja þær í rétt samhengi. ESO hefur lagt sitt af mörkum við þróun þessa verkfæris og unnið að innleiðingu þess fyrir allar ljósmyndir sínar. Verkefnið nær hápunkti í dag þegar því er hleypt af stokkunum.

„Merking mynda okkar með lýsigögnum þýðir að við getum nú flokkað stjörnuljósmyndir með einu algengu „alheimstungumáli“ og þannig auðveldað aðgengi allra að þeim“ segir Lars Holm Nielsen, umsjónarmaður þróunarverkefna hjá ESO sem hafði umsjón með innleiðingu staðalsins hjá ESO.

AVM merkingarnar eru sumar hverjar byggðar á rannsóknarstöðlum vísindamanna en hafa verið sérsniðnar að þörfum úbreiðslustarfs og almennings. Til dæmis er hægt að nota hnitamerkingar (World Coordinate System eða WCS merkingu) til að lýsa staðsetningu, stefnu og myndastærð svo auðveldara sé að nota myndirnar í tölvukort af himninum og annan slíkan hugbúnað þar sem hnit eru nauðsynleg. Í myndunum eru nú tenglar sem fara með notandann í WorldWide Telescope hugbúnað Microsoft. Sem dæmi er líka hægt að kalla fram allar myndir sem teknar hafa verið með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum með einum smelli. Auk þess má fá yfirlit yfir allar myndir af sjónaukanum hratt og örugglega. Einnig eru allar fréttatilkynningar með niðurstöðum Very Large Telescope aðgengilegar á einum lista.

Myndasafn ESO geymir AVM merkingar „undir yfirborðinu“ svo að stærstur hluti þeirra upplýsinga sem fram koma á vefnum er líka að finna í hágæðaútgáfum af myndunum. Innleiðing af þessu tagi gerir það kleift að flytja allar upplýsingar með og nota í öðrum hugbúnaði.

Lýsigögnin eru nú þegar víða í notkun, til dæmis í AstroPix gagnasafni NASA yfir stjörnuljósmyndir sem er útbreiðsluverkefni sem ESO leggur sitt af mörkum til. Í annarri útgáfu AstroPix er aðgangur að sameiginlegu myndasafni nokkurra fremstu stjörnustöðva heims undir einum hatti. Þar á meðal eru myndir frá Spitzer geimsjónaukanum, Chandra röntgengeimsjónaukanum, Hubble geimsjónauka NASA og ESA, Galex, WISE og ESO. Merkingarnar eru notaðar til að greina tegundir fyrirbæra, myndatexta, stjörnustöðvarnar sem tóku myndirnar, stöðuhnit á himninum og miklu fleira.

„ESO býr yfir einu stærsta og besta safni stjörnuljósmynda í heiminum. Þær hafa nú AVM merkingar sem þýðir að hægt er að leita hratt og örugglega í safninu og skoða á þægilegan máta með AstroPix“ segir Robert Hurt, forsprakki AVM og AstroPix verkefnanna. „Þetta er stórt skref áfram“.

Önnur samtök og aðrir hugbúnaðir sem nota AVM staðalinn njóta nú góðs af merktum ljósmyndum ESO, til dæmis WorldWide Telescope, Stellarium og Google Sky. Í næstu útgáfum af hugbúnaði fyrir stjörnuver frá Skyskan, Uniview/Sciss og Evans & Sutherland verður stuðningur við AVM staðalinn.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir alla þá sem koma að útbreiðslustarfi í stjörnufræði. Góð viðbrögð samstarfsaðila okkar tryggir að við mun geta náð betur til almennings og deilt þeim glæsilegu ljósmyndum sem koma frá mörgum af sjónaukum ESO. Við erum þakklát öllum þeim sem komu að verkefninu“ [3] segir Lars Lindberg Christensen, yfirmaður vísindamiðlunardeildar ESO og einn af upphafsmönnum verkefnisins.

Skýringar

[1] Lýsigögn (metadata) — viðbótarupplýsingar um gögn — lýsa innihaldi og samhengi gagna með sérstökum merkingum sem nota má til að flokka þau. Þau eru notuð til að lýsa stafrænum gögnum eins og ljósmyndum með sérstökum stöðlum sem eru sérsniðnir fyrir þarfir tiltekins sviðs.

[2] AVM, þróað samkvæmt rammaáætlun Virtual Astronomy Multimedia Project (VAMP), gegnir líka mikilvægu hlutverki fyrir myndir listamanna, skýringarmyndir, líkön og ljósmyndun og er einungis fyrsta skrefið í átt til þess að halda utan um allt margmiðlunarefni sem tengist stjarnvísindi, þar á meðal myndskeið, vefvörp o.þ.h. VAMP er samstarfsverkefni einstaklinga hjá Spitzer Science Center, ESA/Hubble, California Academy of Sciences, IPAC/IRSA og University of Arizona. Verkefnið hefur notið stuðnings lykilaðila hjá stórum stjörnustöðum og hugbúnaðarframleiðendum sem allir eru einhuga um að skili árangri.

[3] ESO vill koma á framfæri þökkum til fólks sem studdi verkefnið en án þeirra hefði það aldrei orðið að veruleika. Í þeim hópi eru Lars Holm Nielsen, Robert Hurt, Adrienne Gauthier, Amit Kapadia, Sarah Roberts og margir aðrir. Lars Holm Nielsen, sem lýkur nú farsælum ferli hjá ESO þegar þessi tilkynning birtist, hefur alla tíð haft ástríðu fyrir stjarnvísindum en er sérfræðingur í þróun upplýsingakerfa og hugbúnaðar fyrir vísindamiðlun í hæsta gæðaflokki. Hann hefur starfað hjá vísindamiðlunarhópi ESO-Hubble frá árinu 2002 og hefur haft umsjón með innleiðingu framsækinna þróunarverkefna og þróun á vefkerfi ESO. Hann hefur leikið lykilhutverk í þróun AVM kerfisins.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Lars Holm Nielsen
ESO, Garching, Germany
Cell: +49-151 22 652 416
Email: lars@hankat.dk

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching, Germany
Tel: +49-89-3200-6761
Cell: +49-173-3872-621
Email: lars@eso.org

Um tilkynninguna

Auðkenni:ann12018

Myndir

Skjáskot úr WWT hugbúnaði Microsoft af mynd ESO af Sverðþokunni í Óríon
Skjáskot úr WWT hugbúnaði Microsoft af mynd ESO af Sverðþokunni í Óríon