ann12015-is — Tilkynning

Næfurþunnir speglar fyrir hnífskarpar myndir af stjörnunum

Nýr ihlutur fyrir aðlögunarsjóntæki VLT sjónauka ESO afhentur

2. mars 2012

Franska fyrirtækið SAGEM hefur afhent ESO næfurþunna spegilsskel sem ætluð er fyrir einn af sjónaukum Very Large Telescope. Skelin er 1120 millímetrar í þvermál en aðeins 2 millímetrar að þykkt og því þynnri en gler í flestum gluggum. Skelin verður að vera þetta þunn til að hún geti verkað sem sveigjanleg himna, eða því sem næst. Þegar henni verður komið fyrir á sjónaukanum, verður lögun hennar stöðugt breytt hárfítt svo hægt sé að leiðrétta bjögun af völdum ókyrrðar í lofthjúpi jarðar og þannig ná miklu skarpari myndum af stjörnunum.

Spegilsskelin er úr keramikefni sem hefur verið slípað til mjög nákvæmlega. Framleiðsluferlið hófst með meira en 70mm þykkum kubbi af Zeradour keramiki frá Schott Glass fyrirtækinu í Þýskalandi. Stærstur hluti kubbsins var fægður burt svo að lokum varð eftir þessi þunna skel. Mesta áskorunin var að beita glerið litlum þrýstingi og lítilli spennu í öllu framleiðsluferlinu.

Mjög erfitt er að smíða og prófa svona stóra en sveigjanlega spegla en með því að stjórna öllum helstu áhættuþáttum framleiðsluferlisins, hefur SAGEM nú tekist að afhenda ESO næfurþunna spegilsskel sem mætir kröfum samtakanna.

Nýja spegilsskelin er mjög mikilvægur hluti af aflaganlegum aukaspegli sem leysa mun af hólmi þann sem nú er í notkun á einum af VLT sjónaukunum fjórum og er hluti af nýju aðlögunarsjóntækjakerfi (Adaptive Optics Facility) VLT. Öll aukaspegilseiningin er smíðuð umhverfis „viðmiðunarskrokk“ (ann1056) sem á eru 1170 hreyfiliðir sem beita jafnmarga segla aftan á þunnu skelinni, krafti. Hreyfiliðirnir munu aflaga þunnu spegilsskelina allt að þúsund sinnum á sekúndu til að leiðrétta ókyrrð í lofthjúpi jarðar svo hægt sé að taka miklu betri og skarpari myndir.

Í Adaptive Optics Facility verður líka notuð ný hjálparstjörnutækni sem verið að þróa samhliða (ann12012).

Frá árinu 2004 hefur ESO, með hjálp Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, fjármagnað þróun á tækniþekkingunni sem þarf til að framleiða þunnar spegilsskeljar í Evrópu. Það er ESO þess vegna mikið gleðiefni að sjá verkefnið bera ávöxt, þökk sé elju SAGEM.

Nýja þunna spegilsskelin og aðlögunarsjóntækjakerfið, sem er hluti þess, ryðja brautina fyrir European Extremely Large Telescope, næsta stóra verkefni ESO. Þessi vinna drífur áfram framfarir í smíði sveigjanlegra spegla með miklum fjölda hreyfiliða og eykur þekkingu á framleiðslu þunnra spegilsskelja. Hægt verður að nota tæknina í 40 metra risasjónaukum framtíðarinnar en þess má geta að í hönnun E-ELT er nú þegar gert ráð fyrir 2,4 metra þunnskeljaspegli, sem er að mestu byggður á hönnun sveigjanlega spegilsins í Adapative Optics Facility.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Robin Arsenault
ESO, Germany
Tel: +49 89 3200 6524
Email: rarsenau@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal and E-ELT Press Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: rhook@eso.org

Um tilkynninguna

Auðkenni:ann12015

Myndir

Næfurþunn spegilsskel fyrir Adaptive Optics Facility í Very Large Telescope ESO
Næfurþunn spegilsskel fyrir Adaptive Optics Facility í Very Large Telescope ESO
Þunn spegilsskel fyrir Adaptive Optics Facility í Very Large Telescope ESO
Þunn spegilsskel fyrir Adaptive Optics Facility í Very Large Telescope ESO